Fréttir

07.11.2016

Asparhúsið í Vallanesi

Húsið úr íslenskum viði en líka innréttingar og húsgögn

  • Eymundur í Vallanesi og Asparhúsið í baksýn.

Í Vallanesi á Héraði er að verða tilbúið fyrsta húsið sem vitað er til að sé reist eingöngu úr íslensku timbri. Í húsið eru aðallega notaðar aspir sem uxu í Vallanesi en einnig lerki og greni. Sami efniviðurinn er notaður í innréttingar og húsgögn.

Fjallað var um húsið í Landanum í Sjónvarpinu í gær og rætt við hjónin Eygló Björk Ólafsdóttur og Eymund Magnússon, bændur og athafnafólk í Vallanesi. Aspirnar sem gáfu við í húsið voru gróðursettar fyrir 30 árum og timbrið í húsið var unnið hjá Skógrækinni á Hallormsstað og hjá Skógarafurðum ehf. á Ytri-Víðivöllum í Fljótsdal.

Eymundur segir meðal annars í Landanum að ekki þurfi lengur að bíða eftir því að íslensku skógarnir gefi við sem nýta megi til húsbygginga. Efniviðurinn sé kominn og það sýnir þetta góða framtak Vallanesbænda vel. Húsið kalla þau Asparhúsið því það er að verulegu leyti úr asparviði sem hefur langar trefjar og er því sterkur enda hefur íslenska öspin nú verið vottað og er því viðurkenndur smíðaviður í burðarvirki húsa.

Aspirnar sem gáfu við í húsið voru gróðursettar 1986 og felldar fyrir þremur árum til að viða í húsið. Viðurinn var unninn hjá Skógræktinni á Hallormsstað og hjá Skógarafurðum í Fljótsdal.

Fleiri hús eru reyndar að rísa úr íslenskum viði um þessar mundir, bæði nýtt þjónustuhús Skógræktarinnar í Laugarvatnsskógi og hof Ásatrúarfélagsins í Öskjuhlíð í Reykjavík. Íslenska timbrið er því farið að sanna sig fyrir alvöru.

Um umfjöllun Landans segir þetta á vef Ríkisútvarpsins:

„Ég hef alltaf sagst vera að planta skógi fyrir komandi kynslóðir en nú er ég bara búinn að þjófstarta og byggja eigið hús eða rækta eigið hús,“ segir Eymundur Magnússon, bóndi í Vallanesi á Héraði. Þar er verið að ljúka við smíði nýs og reysulegs þjónustuhúss sem er byggt alfarið úr íslensku timbri. Uppistaðan eru aspir sem Eymundur plantaði sjálfur í Vallanesi fyrir 30 árum síðan.

„Það sem er einstakt við þetta hús er að þetta er fyrsta húsið sem er byggt á Íslandi þar sem allir burðarviðir eru úr íslensku timbri,“ útskýrir Eymundur en til þess þurftu sérfræðingar að taka viðinn út og samþykkja. Eymundur segir að það sé afar skemmtilegt að sjá tré sem hann plantaði sjálfur verða að húsi. „Það má segja að fólk hafi kannski ekki haldið að þessi tími væri kominn en hann er það svo sannarlega og við eigum bara út um allt land boli sem er hægt að fletta í byggingavið.“

Eymundur og Eygló kona hans rækta lífrænt bygg og alls kyns grænmeti og framleiða fjöldann allan af vörum í Vallanesi undir vörumerkinu Móðir jörð. Asparhúsið verður kaffihús og verslun þar sem vörurnar sem framleiddar eru á staðnum verða í fyrirrúmi.

Landinn fór í Vallanes og forvitnaðist um smíðina. Þáttinn í heild er hægt að sjá hér.


Ekki er látið duga að nota íslenska viðinn í burðarvirki og klæðningar
heldur eru innréttingar og húsgögn einnig unnin úr heimafengnu efni.

Texti: Pétur Halldórsson
banner5