Fréttir

04.11.2016

Ungviðið til varnar skóginum

Greinilegt að börnin kunna að meta gæði skóglendis

  • Það getur borgað sig að láta í sér heyra ef skóglendi er í hættu. Tvær ellefu ára stúlkur í Grafarholti í Reykjavík beittu sér fyrir friðun skógarreits við Reynisvatn og uppskáru árangur erfiðis síns.

Mótmæli tveggja ellefu ára stúlkna urðu til þess að tryggja framtíð skóglendis í Grafarholti í Reykjavík. Trjálundurinn Sæmundarsel við Reynisvatn verður nú felldur út sem mögulegt byggingarland og fær því væntanlega að þjóna íbúnum, meðal annars sem útikennslustofa skólabarna.

Frá þessu var sagt í fréttum Sjónvarpsins í gær, fimmtudag.

Þær Eydís Arna Kjartansdóttir og Erika Styrmisdóttir í sjötta bekk Sæmundarskóla í Grafarholti skrifuðu bréf til borgarstjórnar Reykjavíkur og afhentu það Birni Blöndal, formanni borgarráðs og staðgengli borgarstjóra. Stúlkunum var vel tekið og erindi þeirra bar þann árangur að Sæmundarsel verður ekki skilgreint sem mögulegt byggingarland framvegis.

Greinilegt er að uppvaxandi kynslóðir kunna að meta skóginn enda alast flest íslensk börn nú upp við skóg og nota hann til útivistar og skemmtunar. Sömuleiðis fjölgar sífellt þeim skólum í landinu sem nota skóga til útikennslu. Miðað við þetta framtak skólasystranna úr Sæmundarskóla er óhætt að líta til framtíðar með bjartsýni um að skógar og skógrækt verði enn mikilvægari hluti af tilveru Íslendinga á komandi árum.


Tvær stúlkur í Grafarholti ortu mótmælaljóð þegar þær heyrðu að til stæði að útisvæði skólans þeirra, Sæmundarsel, ætti að fara undir nýbyggingar. Góðu fréttirnar eru hins vegar að ekkert verður af því.

Það er ekki daglegt brauð að ellefu ára stúlkur banki upp á í Ráðhúsi Reykjavíkur og mótmæli skipulagsmálum. Það gerðist í dag og segja má að þær hafi haft erindi sem erfiði. Þær Eydís Arna Kjartansdóttir og Erika Styrmisdóttir, nemendur í 6. bekk í Sæmundarskóla, sækja mikið í trjálund einn við Reynisvatn í Grafarholti sem kallaður er Sæmundarsel. Undanfarið hefur komið upp umræða um að til stæði að höggva trén og reisa fjölbýlishús fyrir eldra fólk. Þeim eins og öðrum nemendum í Sæmundarskóla brá mjög við þetta. Þær fóru því í Ráðhúsið með bréf þar sem þær biðja um að Sæmundarseli verði hlíft og færa fyrir því rök. Formaður borgarráðs og staðgengill borgarstjóra, Björn Blöndal, tók við bréfinu sem þær lásu fyrir hann og ljóði, sem þær ortu:

Stúlkurnar á göngu í Sæmundarseli. Mynd: Ríkisútvarpið.

Sæmundarsel,
ber okkur vel,
við byggðum hann saman
með gleði og virðingu,
hann er friðaður.

„Á jólunum þá förum við hingað og þá koma jólasveinar og alls konar og svo er alltaf jólatré þarna og eitthvað“, segir Eydís Erna. Erika segir að nemendur í skólanum fari í Sæmundarsel í útikennslu: „Það er eiginlega meira yngra stigið og þá förum við í leiki og alls konar svoleiðis.“

Af hverju vilt þú að þetta sé bara svona óbreytt? „Af því að þetta svæði er búið að vera rosalega lengi hérna og við erum oft hérna með skólanum og það er bara einhvern veginn rosalega friðsælt hérna.“ Það er alveg rétt hjá Eriku að það er mjög friðsælt í trjálundinum.

Og það verður það áfram því Björn Blöndal svaraði þeim með tölvubréfi eftir heimsóknina og þar kemur fram að ekki standi til að höggva skóginn og ekki standi til að byggja við Reynisvatn á næstu áratugum. Í Aðalskipulagi borgarinnar sé þróunarreitur merktur á þessu svæði en hann verði felldur út sem mögulegt byggingarland. Við skulum reyna að hlúa að því saman, segir í bréfinu, og gera það að enn skemmtilegra og fallegra útivistarsvæði.

banner3