Fréttir

26.08.2016

Þjónustuhús rís í Laugarvatnsskógi

Grindin reist í næstu viku

  • Séð yfir byggingarstaðinn, grunn hússnis og efnið í grindina.

Smíði þjónustuhúss í þjóðskóginum á Laugarvatni gengur vel. Vinna er hafin við að setja saman grind hússins og stefnt er að því að á þriðjudag, 30. ágúst, verði fenginn krani til að reisa grindina. Unnið verður að frágangi hússins í haust og vetur en verklok ráðast af tíðarfari.

Þjónustuhúsið er byggt á verðlaunatillögu úr samkeppni um þjónustuhús fyrir þjóðskóga landsins sem haldin var 2013. Áætlað er að það kosti um 30 milljónir króna og hefur Framkvæmdasjóður ferðamannastaða veitt styrki til bæði samkeppninnar og framkvæmdarinnar.

Í grind hússins eru notaðir 8-10 metra langir bolir úr Haukadalsskógi en í klæðninguna  verður notað sitkagreni úr Þjórsárdal. Jóhannes Bjarni Eðvarðsson húsasmíðameistari og Eero Karis, smiður frá Eistlandi, sjá um að reisa grindina. Sandá-Laugardal ehf. sér um undirstöður og salernishús en starfsmenn Skógræktarinnar felldu og barkflettu burðarviðina og flettu borðviðinn sem húsið verður klætt með.

Um lokahönnun sáu Arkís arkitektar og Verkfræðistofan Þráinn og Benedikt ehf. en aðalarkitekt er Birgir Teitsson. Frekari fregnir af framkvæmdunum verða fluttar hér á næstu vikum. Meðfylgjandi myndir tók Ívar Örn Þrastarson, byggingarstjóri hússins, nú í vikunni. Ívar Örn er skógfræðingur og tók lokaverkefni í viðargæðum íslensks trjáviðar svo þar er sannarlega réttur maður á réttum stað.

Þessir myndarlegu bolir í burðarvirki hússins eru úr sitkagrenitrjám sem felld voru í Haukadalsskógi.

Unnið að því að koma stoðum fyrir
á grunni þjónustuhússins.

Borað fyrir boltum..

Boltarnir hertir með ró og skinnu.

Texti: Pétur Halldórsson
Myndir: Ívar Örn Þrastarson
banner5