Fréttir

24.08.2016

Alaskaösp í Grjótaþorpi er tré ársins

Var bjargað á síðustu stundu fyrir 30 árum

  • Tré ársins 2016 er þessi skemmtilega vaxna alaskaösp í Grjótaþorpi í Reykjavík. Tréð var upphaflega gróðursett um 1960 en flutt á þennan stað fyrir 30 árum.

Tré ársins 2016 er alaskaösp við Hákot í Grjótaþorpi. Öspinni var bjargað á síðustu stundu fyrir þrjátíu árum en þá voru að hefjast byggingaframkvæmdir á nágrannalóð þar sem tréð varð að víkja. Ragnheiður Þorláksdóttir, íbúi og eigandi Hákots, fékk því framgengt að tréð fékk að lifa og var það fært á núverandi stað árið 1986, þar sem það hefur vaxið og dafnað síðan. Tréð er að öllum líkindum upphaflega gróðursett um 1960 og var orðið um 5 metra hátt þegar það var flutt með stórvirkum vinnuvélum. Tréð hefur ávallt vakið athygli og hefur verið gleðigjafi eigandans og umhverfisins frá upphafi. Útlitið er óvenjulegt af ösp að vera, en krónumikill vöxtur og öflug greinasetning einkennir það.

Alaskaösp er ein algengasta trjátegundin í Reykjavík og hefur því mikið um það að segja hve skjólsælt er orðið víða í borginni. Þá er vel þekkt að ösp er öflugur fangari aðskotaagna sem stafa af umferð. Aspirnar í borginni þjóna því íbúum hennar með margvíslegum hætti auk þess sem þær auka á fjölbreytni og setja mark sitt á borgarmyndina með áberandi hætti svo sem litskrúði og tónum og angan sumar, vetur, vor og haust.

Við athöfnina í dag tók RagnheiðurÞorláksdóttir, eigandi trésins,  við viðurkenningarskjali og sérstökum platta þar sem nafnbótinni eru gerð skil. Guðjón Friðriksson sagnfræðingur, Magnús Gunnarsson, formaður Skógræktarfélags Íslands, og Hjálmar Sveinsson, formaður umhverfis-og skipulagsráðs Reykjavíkur, fluttu ávörp og leikin var tónlist.

Heimild og mynd: Skógræktarfélag Íslands
banner3