Fréttir

15.08.2016

Íslandsmeistari trjáa ver titil sinn

Hæsta tré landsins orðið 27,18 metra hátt

  • Rodrigo Figueiredo, skógfræðinemi frá Lissabon, stendur hér við hæsta tré Íslands og brosir enda vanur enn stærri trjám frá sínum heimaslóðum.

Edda Sigurdís Oddsdóttir og Björn Trausta­son, sérfræðingar á Rannsóknastöð Skóg­rækt­ar­inn­ar á Mógilsá, voru í mælingaferð á Héraði í síðustu viku vegna Íslenskrar skógarúttektar og notuðu þá tækifærið til að mæla stærstu trén sem Þór Þorfinnsson, skógarvörður á Austurlandi, fann þar um slóðir. Á heimleiðinni komu þau svo við á Kirkjubæjarklaustri til að gera árlega mælingu á sitkagrenitrénu sem undanfarin ár hefur haldið titlinum hæsta tré landsins og haft óskoraða forystu.

Í léttum dúr hafa skógarverðirnir á Austurlandi og Suðurlandi metist um það hvar væru hæstu tré landsins. Eitt sinn voru hæstu trén eystra en sitkagrenið á Klaustri, sem gróðursett var 1949, hefur nú mælst hæst á hverju ári um nokkurt árabil og þrátt fyrir talsverða leit ekki fundist önnur sem ógnað gætu þessum Íslandsmeistara trjáa.

Niðurstöðurnar úr mælingum á Eddu og Björns á hæstu trjánum í Hallormsstaðaskógi eru þessar:

Alaskaösp í Neðstareit

  • 24,085 m á hæð og 49,5 cm að þvermáli í brjósthæð

Evrópulerki í Neðstareit

  • 23,875 m á hæð og 67,5 cm að þvermáli í brjósthæð

Aspir á Hjalla

  • 25,46 m hæð og 46,7 cm þvermál
  • 25,85 m hæð og 38,5 cm þvermál – Þessa ösp mældu Þór Þorfinnsson og Lárus Heiðarsson fyrir um 20 árum og Bjarki Þór Kjartansson og Björn Traustason aftur árið 2008. Í síðari mælingunni var það 23,9 m á hæð
  • 24,83 m hæð og 43 cm þvermál

Hér sést að aspirnar á Hjalla eru afskaplega myndarleg tré með svera stofna þótt ekkert þeirra nái að skáka sitkagreninu á Klaustri í hæð.

Þótt aspirnar á Hallormsstað séu háar og myndarlegar munar ríflega einum metra á þeim og sitkagreninu á Klaustri. Það reyndist við mælinguna í síðustu viku vera 27,18 m á hæð og ummálið í brjósthæð mældist 45,8 sentímetrar. Það heldur því Íslandsmeistaratitlinum í hæð þótt til séu önnur sverari tré í brjósthæð. Til dæmis sjáum við að tvær af öspunum eystra sem nefndar eru hér að ofan eru sverari. Sverast er þó evrópulerkið í Neðstareit sem er 67,5 cm svert í brjósthæð.

Alltaf kunna að leynast há tré einhvers staðar á landinu sem vert væri að mæla til samanburðar við þessi háu tré og sömuleiðis sverir stofnar sem gaman væri að mæla líka. Allar ábendingar eru vel þegnar.

Þór Þorfinnsson við eina öspina á Hallormsstað.

Björn Traustason stoltur með mælitækin við hæsta tré landsins.

Björn Traustason horfir í kíkinn sem hann hefur beint að mydnarlegri ösp
í Hallormsstaðaskógi. Þór Þorfinnsson skógarvörður fylgist með.

Tilþrif við trjámælingar. Björn Traustason tekur sér stöðu með kíkinn.

Texti: Pétur Halldórsson
Myndir: Edda S. Oddsdóttir
banner5