Fréttir

04.08.2016

Börkur af rússalerki hentar vel til olíuhreinsunar

Reynist betur en Hekluvikurinn sem notaður hefur verið hérlendis fram til þessa

  • Börkur á lerkitré í skóginum á Vöglum á Þelamörk.

Börkur af íslensku lerki dugar betur en Hekluvikur til að hreinsa olíu úr vatni. Þetta sýna tilraunir sem gerðar hafa verið hjá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins. Notast var við börk úr rússalerki frá Hallormsstað. Ekki er heimilt að flytja inn trjábörk til landsins en tilraunin sýnir að íslensku skógarnir geta gefið hentugan börk til þessara nota.

Í Skandinavíu hefur trjábörkur lengi verið notaður til að sjúga upp eldsneyti, olíu og fleiri efni sem lenda í sjó eða vötnum. Með innfluttum trjáberki gætu borist alls kyns plöntusjúkdómar og óværa sem valdið gæti usla í skógrækt og annarri ræktun á Íslandi og því er innflutningur bannaður. Eftir því sem ræktaðir skógar á landinu stækka og eldast eykst framboðið á ýmiss konar viðarafurðum, meðal annars trjáberki.

Þórður Bogason, varðstjóri hjá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins, vildi kanna hvort ekki mætti nota innlendan börk til hreinsunar í vatni og var bent á að hafa samband við Þór Þorfinsson, skógarvörðinn á Austurlandi, sem sendi honum einn stórsekk af rússalerkiberki.

Þórður segir að börkurinn hafi verið kurlaður á timburverkstæðinu Fjölinni til að búa hann undir tilraunina. Hérlendis hefur Hekluvikur verið notaður til að hreinsa upp mengunarefni úr vatni og við tilraunina var borið saman hvernig reyndist að nota trjábörkinn til samanburðar við vikurinn. Notaðri vélarolíu var hellt í vatn og fylgst með hvernig olían settist í þessi ólíku efni. Árangurinn má sjá í myndbandi sem gert var um tilraunina.

Ljóst er að þessari tilraun, segir Þórður, að börkurinn sýgur mun betur í sig olíu en vikurinn. Vatnið hafi nánast verið drykkjarhæft þegar berkinum hafði verið fleytt ofan af. Eins og sést á myndbandinu sökk vikurinn niður á botn þegar hann dró í sig olíuna eftir því sem eðlismassi hans jókst. Auk þess varð vatnið með vikrinum gruggugt þegar hrært var upp í því til að líkja eftir aðstæðum þegar unnið er að hreinsun á sjó eða vatni og krakað í mengunarbrákina. Í tilraunakerinu með berkinum reyndist olían hins vegar hafa bundist betur við börkinn og vatnið gruggaðist lítið.

Trjábörkur hefur ýmsa kosti sem hreinsunarefni, segir Þórður. Þegar olía hefur lekið í vatn eða sjó og búið að girða af lekann sé auðvelt að dreifa berkinum yfir olíuna og ná þannig upp meirihluta hennar.

Trjábörkur og vikur. Samanburður á uppsogi af olíu (myndband)

Texti og mynd: Pétur Halldórsson

banner1