Fréttir

02.08.2016

90 ára gamalt reynitré vekur athygli

Mikils virði heimafólki á Litlu-Reykjum í Reykjahverfi

Morgunblaðið fjallaði í síðustu viku um gamalt reynitré sem stendur við íbúðar­húsið á bænum Litlu-Reykjum í Reykja­hverfi í Þingeyjarsýslu. Tréð er snar þáttur í sögu heimafólksins á bænum sem stendur vörð um tréð. Reyniviður þessi er um 90 ára gamall og setur mikinn svip á bæinn á Litlu-Reykjum. Greinar sem þurft hefur að saga af trénu hafa verið notaðar til smíða.

Til fyrirmyndar er þegar fólk leggur rækt við trjágróður og kann að meta margvíslegt gildi hans, bæði fyrir náttúru og umhverfi en einnig fyrir mannlíf og sögu.

Atli Vigfússon, fréttaritari Morgunblaðsins á Laxamýri í Aðaldal, ræðir við Valþór Frey Þráinsson, bónda á Litlu-Reykjum, sem er af fjórðu kynslóð ábúenda í húsinu sem reyniviðurinn góði stendur við. Viðtalið er á þessa leið:

„Það er okkur mikils virði að hafa tréð og það er hluti af öllu hér á jörðinni. Ég er búinn að taka töluvert af greinum sem voru hættar að laufgast, auk þess sem ég tók þær sem voru farnar að slást í þakið. „Hríslan“, eins og við höfum alltaf kallað þetta gamla reyniviðartré, er fyrir löngu farin að vaxa utan í húsið, en einhvern tíma þegar við klæðum það að utan ætla ég ekkert að hrófla við hríslunni.

„Þetta segir Valþór Freyr Þráinsson, bóndi á Litlu-Reykjum íReykjahverfi, en hjá húsi fjölskyldunnar stendur u.þ.b. 90 ára gamalt reyniviðartré sem hefur sett svip sinn á sveitina í áratugi.

„Ég er ekki á því að hrófla við hríslunni og þegar hingað kom smiður að skoða aðstæður við húsið spurði hann hvort það ætti ekki að taka tréð áður en sett væri á það klæðning. Nei, ég var alls ekki á því og það verður að klæða húsið án þess að skaða hrísluna,“ segir Valþór, en hann og kona hans, Signý Valdimarsdóttir, eru fjórða kynslóðin sem býr í húsinu og hríslan hefur alltaf skipt miklu máli.

Hefur fylgt fjölskyldunni

Langafi og langamma Valþórs, þau Árni Þorsteinsson og Laufey Sigtryggsdóttir, fluttu í Litlu-Reyki árið 1932. Þau komu úr Holtakoti og höfðu þá með sér hrísluna sem þau höfðu líklega eignast nokkrum árum áður. Þau héldu mikið upp á þetta litla tré sem var byrjað að vaxa og dafna við hús þeirra í Holtakoti. Hríslan var gróðursett við íbúðarhúsið á Litlu-Reykjum og hefur verið þar alla tíð síðan. Þetta tré hefur lifað kreppuárin, stríðsárin, hafísárin og mörg önnur ár og alltaf lifað. Árni og Laufey bjuggu íHoltakoti á árunum 1925-1932 og það var á þeim árum sem Reykhverfingar fengu nokkur reyniviðartré til þess að hafa við híbýli sín.

Sagan segir að Baldvin Friðlaugsson, framkvæmdastjóri Garðræktarfélags Reykhverfinga, hafi útvegað nokkur tré innan úr Eyjafirði og telst það ekki ólíklegt, en á þeim tíma voru reyniviðartré gróðursett í mörgum görðum á Akureyri. Lengi stóðu þessi tré við bæi í sveitinni, en nú hafa trén við bæina Skörð og Stóru-Reyki fallið, þar sem húsin, sem þau stóðu við, voru rifin. Á hinn bóginn standa enn tré sem Baldvin Friðlaugsson og hans fjölskylda gróðursettu í landi Garðræktarfélags Reykhverfinga.

Hríslan var afa Valþórs mjög mikilvæg

Íbúðarhúsið á Litlu-Reykjum stendur fast við þjóðveginn og því hefur hríslan alltaf verið mjög áberandi og hún hluti af bæjarmyndinni. Valþór segir að hún hafi haft mikla þýðingu fyrir afa hans, Sigtrygg Árnason, sem bjó alla sína ævi í húsinu og tengdi hann tréð alltaf við móður sína, Laufeyju Sigtryggsdóttur, sem lést um aldur fram þegar hann var sjö ára. Hann vildi ekki taka greinar af trénu þó svo að þær væru farnar að láta á sjá, en það gerði Valþór seinna eftir að hann hóf búskap í húsinu ásamt sinni fjölskyldu. Hann heldur í þá stofna sem hann hefur tekið og hefur þurrkað þá og smíðað úr þeim. Hann smíðaði m.a.klukku úr einum bútnum og gaf afa sínum þegar hann var kominn á dvalarheimilið Hvamm á Húsavík.

Þetta þótti afa hans mjög vænt um og hefur Valþór auk þessa smíðað nokkra smáhluti aðra úr viðarbútunum. Sigtryggur afi hans lést sl. vetur og tók Valþór lítinn bút úr hríslunni sem hann hafði haldið til haga og setti í kistuna hjá honum.

Vaxandi áhugi hefur verið á skógrækt í Reykjahverfi á síðustu árum og hafa félagar í Skógræktarfélagi Reykhverfinga plantað mjög mörgum trjám. Þá er trjáreitur sunnan við Heiðarbæ, félagsheimili sveitarinnar, sem þarfnast meiri umhirðu en verið hefur og ætla félagar að taka að sér að grisja og laga þann reit eftir því sem þurfa þykir.

Valþór og kona hans, Signý, hafa stækkað garðinn við húsið á Litlu-Reykjum eins og margir aðrir og komið þar upp skjólvegg. Þess má geta að dóttir þeirra, Sigrún Stella Valþórsdóttir, er búin að eignast lítið reyniviðartré sem kennt er við móðurömmu hennar, sem nú er látin, og virðist það vera að taka við sér. Trjágróður hefur að mörgu leyti þrifist vel í sveitinni á undanförnum árum og hafa lerkitré og aspir vaxið mikið. Aftur á móti hafa furur og grenitré brotnað töluvert í krapastórhríðum, enda eru þær stundum óblíðar.

Reykjabæir standa undir Reykjafjalli og oft rennir miklum snjó ofan af fjallinu niður í byggðina. Hríslan á Litlu-Reykjum hefur í 90 ár þolað mörg frostin og oft verið klakabrynjuð. Valþór er bjartsýnn á framtíð hennar þrátt fyrir aldurinn og enn um sinn mun hún setja mikinn svip á sveitina.

Viðtalinu í Morgunblaðinu fylgir sá fróðleikur um reynivið að hann vaxi víða villtur á Íslandi, myndi ekki skóga heldur vaxi á stangli innan um birki og fleiri tegundir. Reyniviðartré verði yfirleitt hærri en birki og standi upp úr þar sem þau vaxa í kjarri. Víða séu reyniviðartré 9-12 metrar og geti orðið gömul. Reyniviðurinn er mjög áberandi á blómgunartímanum og einnig á haustin þegar laufið fær rauðan lit. Hann er prýði í görðum og mjög algengur, t.d. á Akureyri, segir enn fremur í þessari ágætu blaðagrein.

banner3