Fréttir

28.06.2016

Ólafur Árni Íslandsmeistari í skógarhöggi á Skógardeginum mikla

Hjalti Þórhallsson og Meredith Cricco hlutskörpust í hlaupinu

  • Hlauparar ræstir í skógarhlaupinu. Mynd: Þór Þorfinnsson.

Ólafur Árni Mikaelsson hreppti Íslandsmeistaratitilinn í skógarhöggi á Skógardeginum mikla sem fram fór á Hallormsstað á laugardaginn var í blíðskaparveðri og hita. Í öðru sæti lenti Bjarki Sigurðsson og Kristján Már Magnússon í því þriðja. Í skógarhlaupinu kom Hjalti Þórhallsson fyrstur í mark í karlaflokki og Meredith Cricco í kvennaflokki.

Skógardagurinn mikli var nú haldinn í tólfta sinn. Oft hefur veðrið verið gott á Skógardeginum mikla enda alltaf gott veður í skógi en nú fór hitinn yfir tuttugu stig og gleðin skein úr andlitum fólks á hátíðinni.

Sú breyting var gerð að þessu sinni að sauðfjárbændur á Héraði og Fjörðum tóku þátt í sjálfum Skógardeginum en fram að þessu hafa þeir grillað lambakjöt ofan í gesti skógarins kvöldið áður. Að sjálfsögðu var heilgrillaða nautið líka á sínum stað og pylsur í hundraðavís

Amma með barnabarn frá Björgvin.

Ólafur Oddsson, fræðslufulltrúi Skógræktarinnar, bauð upp á leiðsögn í tálgun og reyndu um 300-400 manns fyrir sér í þeirri list.

Norski keðjusagarlistamaðurinn Arne Askeland lék listir sínar eins og áður hefur komið fram hér á vefnum.

Ketilkaffið og lummurnar runnu ljúflega niður og einnig fengu krakkar deig á prik og grilluðu sér ormabrauð yfir eldi, eins og sagt er. Sömuleiðis var teymt undir börnum og ýmiss konar skemmtiatriði á palli.

Arne Askeland leikur listir sínar.


Úrslit í Íslandsmeistaramótinu í skógarhöggi

  1. Ólafur Árni Mikaelsson
  2. Bjarki Sigurðsson
  3. Kristján Már Magnússon

Úrslit í skógarhlaupinu

       Karlar

  1. Hjalti Þórhallsson (f.1985) - tími: 1:06:25
  2. Atli Pálmar Snorrason (f. 1998) -  tími: 01:11:37
  3. Jakub Chmelar (f. 1989) - tími: 01:19:14

       Konur

  1. Meredith Cricco (f. 1971) - tími: 01:26:11
  2. Þóra Jóna Kemp Árbjörnsdóttir (f. 1977) - tími: 01:27:17
  3. Iva Gothardova (f. 1982) - tími: 01:30:58

Skógardagurinn mikli hefur fyrir löngu fest sig í sessi á Hallormsstað. Hin nýja stofnun, Skógræktin, stefnir að því að slíkur dagur verði haldinn í öllum landshlutum á komandi árum, jafnvel að þegar næsta sumar verði Skógardagurinn mikli landsviðburður sem haldin verði samtímis um allt land. Vonandi rætast þau áform svo sem flestir geti notið þessarar frábæru skemmtunar og um leið hollrar og nærandi útiveru í skógi hvarvetna á landinu.

Hlauparar á öllum aldri taka þátt í skógarhlaupinu á Skógardeginum mikla ár hvert.

Lummur og ketilkaffi er órjúfanlegur þáttur í menningu skógardaganna.

Heilgrillaða nautið var á sínum stað í boði kúabænda.

Á hátíðarsvæðinu hópaðist fólk saman til að fylgjast með Íslandsmeistaramótinu
í skógarhöggi.

Texti: Pétur Halldórsson
Myndir: Þór Þorfinnsson og Ólafur Oddsson
banner4