Fréttir

22.06.2016

Gæti stefnt í metvöxt trjáa í sumar

Gott tíðarfar á liðnu hausti, vetri og vori ásamt hagstæðri sumarbyrjun lofar góðu

  • Þetta eyfirska rauðgreni fer vel af stað í sumar og er þegar komið með um 20 cm langa sprota 22. júní 2016.

Ef sumarið heldur áfram að vera sæmilega hlýtt gætu sumar trjátegundir vaxið á annan metra í sumar og jafnvel orðið metvöxtur hjá ösp og fleiri tegundum. Þetta sagði Þröstur Eysteinsson skógræktarstjóri í við­tali í fréttum Bylgjunnar í gær.

Gissur Sigurðsson fréttamaður hringdi í Þröst og vísaði til þess að áhugafólk um skógrækt segði nú stefna í metvöxt hjá trjám á Íslandi og vöxturinn gæti orðið meiri en verið hefði í áratugi.

Aðspurður um hvað ylli þessum góðu horf­um sagði Þröstur að á því væru líklega tvær aðalskýringar. Önnur er sú að trén hafa fengið áfallalausan vetur, segir hann. Haustið í fyrra var milt, í sept­em­ber, október og fram í nóvember, þannig að það varð ekkert haustkal. Þá var veturinn tiltölulega stöðugur og engin teljandi hlýindi þannig að ekkert vorkal varð heldur á trjám sem oft gerist eftir vetrarhlýindi. „Í öðru lagi var þessi dúndurbyrjun á sumrinu sem við fengum seinnipartinn í maí. Og það er mjög flott að fá svona hita í júnímánuði sem við höfum ekki fengið t.d. hér á Austurlandi í nokkuð mörg ár,“ sagði Þröstur enn fremur.

Þá var Þröstur spurður að því hvort hann væri sammála því áhugafólki um skógrækt sem talaði um að nú stefndi í metár, jafnvel svo áratugum skipti. „Það gæti gert það, já,“ svaraði Þröstur. „Ef sumarið heldur áfram að vera sæmilega hlýtt þá gæti ég ímyndað mér að vöxtur á sumum tegundum, eins og til dæmis ösp, slái met.

Fram kom í viðtalinu að metvöxtur duglegustu trjátegundanna væri um það bil einn metri á einu ári og kannski rúm­lega það. Þar er átt við ösp, greni, lerki og furu. Þröstur segir að ef sumarið verður áfram gott gæti vöxturinn orðið enn meiri en það. með öðrum orðum gæti þetta orðið metár í trjávexti en það fer fyrst og fremst eftir því, auðvitað,  hvort hlýtt verður áfram.

Sprotarnir á þessari alaskaösp eru orðnir hátt í 30 cm langir
þótt enn sé rúm vika eftir af júnímánuði.

Texti og myndir: Pétur Halldórsson
banner2