Fréttir

21.06.2016

Kom í mark á 108 ára gömlu hjóli

Lið Skógræktarinnar hjólaði hringinn á 45 og hálfri klukkustund

  • Lið Skógræktarinnar á verðlaunapalli ásamt skógræktarstjóra, flugfreyju og óþekktum ungum aðdáanda. Hjól fyrsta skógrækarstjórans í forgrunni. Mynd: Halldór Sverrisson.

Tíu manna lið Skógræktarinnar kom í mark síðdegis á föstudag í hjólreiðakeppninni Wow Cyclothon eftir að hafa hjólað í 45 og hálfa klukkustund. Liðið endaði í 65.-68. sæti af 92 liðum í B-flokki keppninnar. Skógræktarstjóri hjólaði á undan í mark á reiðhjóli fyrsta skógræktarstjórans, Agners Kofoed-Hansens, sem líklega er af árgerð 1907.

Veðrið lék við hjólreiðafólkið alla keppnis­dag­ana. Mest var þátttakan í B-keppninni þar sem kepptu tíu manna lið. Lið Skóg­rækt­ar­inn­ar var skipað starfsfólki Skóg­ræktar ríkisins og landshlutaverkefna í skógrækt auk eins fulltrúa frá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu og tveggja hjólreiðamanna sem tengdust öðrum liðsmönnum vina- og fjölskylduböndum.

Lið Skógræktarinnar að verða tilbúið til brottfarar í blíðunni sem fylgdi keppendum allan hringinn. Mynd: Gunnsteinn Ægir Haraldsson

Liðin voru ræst við Egilshöll í Reykjavík kl. 18 miðvikudaginn 15. júní og var hjólað í lögreglufylgd að vegamótunum sunnan Hvalfjarðarganga en þar var beygt inn Hvalfjörðinn. Lið Skógræktarinnar hafði tvo bíla til ferðarinnar og var helmingur liðsins í hvorum bíl hverju sinni. Annar bíllinn var hvíldarbíll en hinn svokallaður „aksjónbíll“ sem við gætum kallað keppnisbíl til að halda okkur við móðurmálið. Einn liðs­mað­ur sá um akstur keppnisbílsins en hinir fjórir skiptust á að hjóla tiltekinn áfanga leiðarinnar. Þegar þeim áfanga var náð var skipt um tvo liðsmenn í keppnisbílnum en tveir úthvíldir komu í staðinn. Áfangarnir á leiðinni voru Borgarnes, Staðarskáli, Blönduós, Akureyri, Mývatn, Egilsstaðir, Djúpivogur, Höfn, Kirkjubæjarklaustur, Fagurhólsmýri, Vík, Hvolsvöllur og Selfoss.

B-flokkur lagður af stað. Björn Traustason fyrir miðju í rauðri liðstreyjunni.

Framan af leiðinni var vindátt mjög hag­stæð hæg suðvestanátt til að byrja með og vestlæg átt á Norðurlandi. Eini kaflinn á leiðinni þar sem mótvindur var að ráði var leggurinn frá Djúpavogi að Höfn. Þá tóku við hægar breytilegar áttir, stundum logn og yfirleitt suðlæg og jafnvel suðaustlæg átt. Skýjað var að mestu allan tímann, eilítið dropakast á Mývatns- og Möðru­dals­ör­æf­um og eina demban sem heitið gat kom í brekkunni niður í Jökuldal ofan af Jökuldalsheiði. Meðvindurinn norður gerði að verkum að liðin voru meira og minna á undan áætlun framan af en þegar upp var staðið kom lið Skógræktarinnar í mark ná­lægt áætluðum tíma og var meðalhraðinn á leiðinni tæplega 30 kílómetrar á klukkustund.

Móttökur við Mógilsá í Kollafirði.

Móttökur á Akureyri fyrir kl. 7 miðvikudaginn 16. júní.

Móttökur í Fnjóskadal.

Móttökur á Egilsstöðum.

Móttökur á Selfossi.

Samstarfsfólk keppenda í liði Skógræktarinnar kom saman á nokkrum stöðum á leiðinni til að heilsa upp á liðið, hvetja það áfram og jafnvel að gauka að því góðgerðum. Þessir „áhangendur“ liðsins stóðu við veginn við Rannsóknastöð skógræktar, Mógilsá, á Leiruvegi á Akureyri, við afleggjarann inn í Fnjóskadal hjá Vaglaskógi, í miðbæ Egilsstaða og á Selfossi.

Skógræktarstjóri nálgast markið og á eftir hjólalið Skógræktarinnar ásamt vinaliðunum þremur sem voru í samfloti síðustu nokkur hundruð kílómetrana. Mynd: Halldór Sverrisson.

Engin óhöpp urðu á leiðinni hjá liði Skógræktarinnar en dekk sprakk á einu hjólanna á Suðurstrandarvegi. Annað bilaði ekki.

Í keppni sem þessari kemur fljótlega í ljós hvaða lið hjóla á svipuðum hraða. Lið Skógræktarinnar endaði í samfloti við þrjú önnur lið sem höfðu verið meira og minna á svipuðu róli allan tímann, stundum í samfloti við Skógræktina og stundum ekki. Þetta voru liðin Fjallastelpur, LNS Saga og Team Raftákn. Liðin komu sér saman um að hjóla í einum hnapp í markið og þessi vinalið Skógræktarinnar tóku vel í þá hugmynd að skógræktarstjóri slægist í hópinn síðasta spölinn og hjólaði á undan í mark á ríflega aldargömlu reiðhjóli. Sá gripur er sögulegur í íslenskri skógræktarsögu. Fyrsti skógræktarstjóri landsins, Agner Kofoed-Hansen mun líklega hafa komið með hann til landsins árið 1907 og hjólið notaði hann mikið til embættisferða um landið. Það var því vel við hæfi að heiðra minningu fyrsta skógræktarstjórans og minnast 108 ára sögu Skógræktar ríkisins enda eru nú fram undan þau tímamót að Skógrækt ríkisins sameinist landshlutaverkefnum í skógrækt og til verði ný stofnun með sama heiti og hjólaliðið, Skógræktin.

Skógræktin kemur í mark

Lið Skógræktarinnar þakkar öllum bakhjörlum sínum og því fjölmarga fólki sem veitti margvíslega aðstoð vegna þátttöku liðsins í Wow Cyclothon hjólreiðakeppninni. Helstu bakhjarlar keppninnar voru Skógrækt ríkisins, Elkem Ísland, Saga Tours, Sólskógar og öll landshlutaverkefnin í skógrækt. Þá lögðu ýmsir ættingjar og vinir gjörva hönd á plóginn. Megintilgangur ferðarinnar var að hrista saman þær stofnanir sem nú eru að sameinast og vekja jákvæða athygli á Skógræktinni. Enginn vafi er á að það hafi tekist vel.

Liðstjórinn Björn Traustason fagnar við komuna í markið. Mynd: Halldór Sverrisson.

  • Árangur liðs Skógræktarinnar:
    Meðalhraði: 29,78 km/klst
    Tími: 45.36.10
    Sæti: 65-68

Myndasafn úr keppninni (væntanlegt)

Texti og myndir: Pétur Halldórsson
Myndir: Halldór Sverrisson
Myndband: Gunnsteinn Ægir Haraldsson
banner5