Fréttir

13.06.2016

Aðgerða er þörf til að örva lífhagkerfið

Skógar eru miðpunktur lífhagkerfisins, segir efnahagsmálaráðherra Finnlands

  • Fundurinn var haldinn í Marina-ráðstefnumiðstöðinni í miðborg Helsinki. Fulltrúar víðs vegar úr Evrópu sátu fundinn og tóku þátt í umræðum um lífhagkerfi framtíðarinnar.

Taka þarf stefnumarkandi ákvarðanir og grípa til aðgerða. Stefnan ein nægir ekki. Þetta eru meginskilaboð ráðstefnu helstu framámanna ThinkForest um lífhagkerfið sem haldin var í Helsinki í Finnlandi mánudaginn 7. júní.

Fundarstjóri á ráðstefnunni var Göran Persson, fyrrverandi forsætisráðherra Svíþjóðar sem nú gegnir stöðu forseta ThinkForest. Sjálfur er hann skógarbóndi og talaði um það í upphafsávarpi að jafnvel þótt við værum öll hrifin af viðarafurðum og notkun viðar í ýmiss konar framleiðslu heyrðust líka háværar raddir sem segðu að ekki mætti fella tré eða nytja skóga. Afla þyrfti stuðnings samfélagsins við skógariðnaðinn svo að Norðurlöndin gætu haldið áfram forystu í skógræktarmálum og skógarnytjum. Ef ekki tækist að snúa almannaálitinu á sveif með skógar­geir­an­um væri hætta á því að lönd eins og Finnland og Svíþjóð misstu forystuhlutverk sitt.

Olli Rehn, efnahagsmálaráðherra Finnlands, sagði á ráðstefnunni að skógar ættu að vera miðpunkturinn í sjálfbæru og sveigjanlegu lífhagkerfi Evrópu sem hann kallaði „næstu efnahagssveifluna“. Vandinn væri stór því áætlað væri að vegna fólksfjölgunar í heiminum þyrfti mannkynið 30% meira vatn árið 2030 en nú, 45% meiri orku og 50% meira vatn. Lífhagkerfið væri mikilvæg leið til að tryggja alla þessa þætti. Therese Knapp, sem talaði í foröllum Ibrahims Baylans, ráðherra samhæfingar- og orkumála í Svíþjóð, sagði að þetta væri vandasamt en spennandi ferðalag. Til yrðu ný störf, nýjar atvinnugreinar, ný útflutningstækifæri. Svíar sæju fyrir sér að skógarnir yrðu í aðalhlutverki við að ná því markmiði SVía að verða kolefnishlutlaust samfélag.

Upplýsa þarf almenning

Ákafar umræður fóru fram á fundinum um lífhagkerfið og skóga með virkri þátttöku jafnt frummælenda, fulltrúa í pallborðum og fundargesta í sal. Frummælendur voru á einu máli um að nokkuð vantaði á að almenningur væri nægilega vel upplýstur um mögulegan þátt skóga í lífhagkerfinu. Þess vegna gengi of hægt að efla samfélagið til skilnings og athafna. Upplýsa þyrfti fólk um lífhagkerfið enda væri erfitt að selja það sem laust væri í reipunum, eins og Christine Lang benti á í framsögu sinni, formaður lífhagkerfisráðs Þýskalands.

Frá umræðum í pallborði. Frá vinstri: Esko Aho, Olli Rehn, Göran Persson og Therese Knapp.

Bæði Esko Aho, ráðgjafi um stefnumótun hjá evrópsku skógarstofnuninni EFI, og Göran Persson, forseti ThinkForest, lögðu áherslu á að einnig þyrfti að vinna að og fjárfesta í nýsköpunarverkefnum jafnvel þótt slíkum verkefnum gæti fylgt nokkur áhætta. Fjárfestingar í lífhagkerfinu þyrfti að breikka út og örva þyrfti hinn frjálsa markað á þessu sviði. Til þess að liðka fyrir því þyrfti þó að lagfæra regluverkið og skera úr um ýmis vafaatriði þar um leið og mótuð væri stefna til framtíðar.

Olli Rehn vildi þróa regluverk Evrópu­sam­bands­ins og nýta þau verkfæri stefnu­mót­un­ar og löggjafar sem væru fyrir hendi enda væri mikilvægt að forðast of mikið regluverk. Þess í stað ætti að stuðla að samhæfðri og einsleitri stjórnsýslu.

Hví eru svo fáar timburbyggingar í Helsinki?

Miapetra Kumpula-Natri, þingmaður á Evrópuþinginu, hafði uppi þau varnaðarorð að Evrópa væri ekki með forystu í þessum efnum. Í Bandaríkjunum hefði til dæmis þegar verið þróuð stefna sem hvetti til notkunar lífrænna og endurnýjanlegra hráefna. Hún benti á að lífhagkerfið væri nú þegar til, bæði á vettvangi Evrópusambandsins og heima í Finnlandi en gera mætti betur. Til dæmis mætti velta fyrir sér hvers vegna ekki væru fleiri timburbyggingar í Helsinki og hvort Finnar ættu kannski að keppa að því að þar risi hæsta timburbygging Evrópu. Lífhagkerfið væri nauðsyn fyrir það samfélag sem tekur við af olíusamfélaginu en þekking og hátækni væri jafnframt nauðsynleg til að ná sem mestri framlegð úr hráefnum og framleiðslu.

Finnski prófessorinn Markku Ollikainen tók í svipaðan streng. Aðgerðir væru það sem vantaði hjá Evrópusambandinu en einnig stefna um lífhagkerfismál hjá einstökum Evrópuþjóðum. Virkja þyrfti og ýta undir hin skapandi öfl í skógar­geir­an­um. Stærstu verkefni mannkyns fram undan væru baráttan við loftslagsbreytingar, fólksfjölgun og sístækkandi millistétt með tilheyrandi neyslu. Þrátt fyrir langvarandi samdrátt í skógariðnaði Evrópu frá árinu 2008 með minni spurn eftir prentpappír og fleiri skógarafurðum væru tækifærin enn fleiri en ógnirnar. Nýsköpun væri mikil og tækni­þróun, spurn væri vaxandi eftir hefðbundnum skógarhráefnum til nýrra nota, m.a. til orkuvinnslu, og viðarauðlindir væru í vaxandi mæli notaðar í stað olíuauðlinda til ýmiss konar framleiðslu. Enn væru líka tækifæri til að þróa betur hvernig skógar yrðu best nýttir í þágu baráttunnar gegn loftslagsbreytingum. Líforka verður mjög mikilvæg fram til 2030, segir Ollikainen, en þá geti farið að draga úr þeim þætti eftir því sem vind- og sólarorkutækni vindur fram, rafbílum o.þ.h.

Göran Person álítur að framtíðin sé fólgin í lífhagkerfinu. Í eftirfarandi myndbandi fer hann yfir ástæðurnar og rökin fyrir þessari skoðun sinni.

Bioeconomy is the future

ThinkForest er sjálfstæð alþjóðleg samtök sem starfa á vísindalegum grunni og eru rekin undir verndarvæng evrópsku skógarstofnunarinnar EFI, European Forest Institute. Samtökin eru samræðuvettvangur forystufólks á vettvangi skógarmála og skógariðnaðar og þar mætist bæði stjórnmálafólk, vísindafólk og hagsmunafólk úr atvinnulífinu. Þannig tengir starfsemin saman fólk um alla Evrópu sem vinnur að lífhagkerfismálum og skógarmálum. ThinkForest-samtökin hafa haldið 17 viðburði frá árinu 2012 sem yfir 1.000 manns hafa sótt.

Texti og myndir: Pétur Halldórsson




banner5