Fréttir

13.06.2016

Skógræktarstjóri hjólar í mark á 100 ára gömlu hjóli

Verður endapunkturinn á þátttöku Skógræktarinnar í WOW Cyclothon hjólreiðakeppninni

Nú styttist í hjólreiðakeppnina WOW Cyclothon. Tíu manna lið Skógræktarinnar tekur þátt í keppninni og hefur undir­bún­ing­ur gengið vel. Liðsmenn eru vel stemmdir og spenntir fyrir keppninni. Söguleg stund verður þegar liðið kemur í mark því Þröstur Eysteinsson skógræktarstjóri hefur tekið að sér að hjóla í mark á reiðhjólinu sem fyrsti skógræktarstjórinn, Agner Kofoed-Hansen, ferðaðist á um allt land í embættiserindum á sínum tíma. Hjólið er frá fyrstu áratugum 20. aldar.

Ekki er gott að segja nákvæmlega um aldur reiðhjólsins en Agner Kofoed-Hansen var skógræktarstjóri í hartnær þrjá áratugi, frá stofnun Skógræktar ríkisins 1908 til ársins 1935. Því má með vissum hætti segja að þátttaka hjólaliðs Skógræktarinnar sé til minningar um frumkvöðulsstarf Agners en megintilgangur hennar er þó að vekja athygli á sameiningu skógræktarstofnana ríkisins í eina nýja stofnun, Skógræktina, og hrista saman starfsfólkið. Skógræktin tekur formlega til starfa 1. júlí þótt þá verði enn ýmislegt eftir við mótun hinnar nýju stofnunar.

Bróðurparturinn af hjólaliði Skógræktarinnar ásamt skógræktarstjóra. Mynd: Pétur Halldórsson.

Heitið á Skógræktina WOW Cyclothon

Rétt er að vekja athygli á áheitasöfnun hjólaliðs Skógræktarinnar. Ágóðinn rennur til verðugs góðgerðarmálefnis. Það er félagsskapurinn Hjólakraftur sem virkjar börn og unglinga um allt land til að taka þátt í hringferð Hjólakrafts sem er hluti af hjólreiðamótinu Wow Cyclothon. Hjólakraftur er vettvangur fyrir krakka sem mörg hver hafa ekki fundið sig í hefðbundu íþrótta- og félagsstarfi. Þarna sast þau félagslega, andlega og líkamlega.

Lagt verður upp úr Reykjavík kl. 18 á miðvikudag, 15. júní, og gert ráð fyrir að það taki 45-48 klukkustundir fyrir liðið að ljúka hringnum og koma í mark í Hafnar­firði. Í myndbandinu sem hér fylgir má sjá hvar Þröstur Eysteinsson skógræktarstjóri reynir hinn aldna hjólhest forvera síns í heimreiðinni á Rannsóknastöð skógræktar, Mógilsá.

Fylgjast má með fréttum af gangi hjólaliðs Skógræktarirnnar á Facebook-síðu hópsins.

Texti: Pétur Halldórsson
banner4