Fréttir

10.06.2016

Tillögur að stjórnskipulagi Skógræktarinnar kynntar ráðherra

Skógarauðlindasvið tekur við þjóðskógum og landshlutaverkefnum

Fjögur meginsvið verða í skipuriti nýrrar skógræktarstofnunar, Skógræktarinnar, samkvæmt tillögum sem kynntar voru Sigrúnu Magnúsdóttur, umhverfis- og auðlindaráðherra, í gær. Staða fagmála­stjóra verður endurvakin og verður hann staðgengill skógræktarstjóra. Lagt er til að sú staða verði auglýst laus til umsóknar nú í júnímánuði ásamt tveimur sviðstjóra­stöð­um.

Stýrihópur um sameiningu landshluta­verkefn­anna og Skógræktar ríkisins skilaði  ráðherra í gær skjali sem heitir Skógræktin – Stefna og stjórnskipulag. Í stýrihópnum sátu auk skógræktarstjóra framkvæmda­stjór­ar landshlutaverkefnanna og Heklu­skóga, fjármálastjóri Skógræktar ríkisins, fulltrúi frá ráðuneytinu og ráðgjafi frá Capacent. Skjalið er að stofni til byggt á því efni sem aflað var á greiningar­stigi verkefnisins með virkri þátttöku starfsfólks stofnananna..

Að sögn Þrastar Eysteinssonar skógræktar­stjóra stóð fundurinn með ráðherra í eina og hálfa klukkustund og þar fóru fram góðar umræður um þau tækifæri sem ný stofnun býður upp á og verður verkefni starfsfólks nýrrar stofnunar að nýta. Skjalið sem afhent var ráðherra hefur nú verið sent öllum starfsmönnum. Stofnunin nýja tekur formlega til starfa 1. júlí en Þröstur bendir á að sú dagsetning sé þó ekki endapunktur sameiningarinnar heldur nýtt upphaf enda margt óunnið við mótun og skipulag Skógræktarinnar.

Stofnuninni verði skipt í fjögur svið

Í tillögu þeirri að skipuriti Skógræktarinnar sem ráðherra hefur verið kynnt er lagt til að stofnunin skiptist í fjögur svið. Annars vegar verði tvö fagsvið sem nefnist rannsóknasvið og skógarauðlindasvið. Hins vegar verði tvö miðlæg svið sem nefnist rekstrarsvið og samhæfingarsvið. Rekstrarsvið og rannsóknasvið starfi að mestu leyti í óbreyttri mynd frá því sem er hjá Skógrækt ríkisins en samhæfingarsvið og skógarauðlindasvið eru ný svið þó svo að verkefni þeirra séu öll til staðar í landshlutaverkefnunum og hjá Skógrækt ríkisins. Þá er sem fyrr segir lagt til að komið verði á fót stöðu fagmálastjóra sem jafnframt verði staðgengill skógræktarstjóra.

Gert er ráð fyrir því í tillögunum að Skógræktin skiptist í fjögur svið, rannsóknasvið, skógarauðlindasvið, fjármálasvið og samhæfingarsvið. Jafnframt að ráðið verði í nýja stöðu fagmálastjóra..

Lagt er til að skógarauðlindasvið annist þau verkefni sem tengjast skógrækt á lögbýlum, rekstri þjóðskóganna, eigin framkvæmdum og samstarfi við verktaka, áætlanagerð einstakra svæða og úttektum þeirra og loks móttöku ferðamanna og almennings í skógunum. Þá hafi sviðið það hlutverk að samþætta í áföngum verkefni landshlutaverkefnanna og þjóðskóganna svo sem skynsamlegt þykir.

Þau verkefni sem varða umsýslu fjármála landshlutaverkefnanna verði flutt til rekstrarsviðs og ábyrgð á samræmingu, umsögnum og stjórnsýsluverkefnum verði að stofni til falin samhæfingarsviði.

Mikilvægt er, segir í skýrslunni, að sviðstjórar þessara sviða og sviðstjóri rannsóknasviðs vinni þétt saman með skógræktarstjóra að mótun nýrrar stofnunar og óski eftir sjónarmiðum og þátttöku starfsmanna eins og þörf krefur.

Verkefnisstjórar bændaskóga og þjóðskóga

Lagt er til að í hverjum landshluta verði a.m.k. tveir verkefnastjórar sem beri annars vegar ábyrgð á bænda­skógrækt­inni í umdæmi sínu og hins vegar þjóðskógum. Á Vestjörðum verði hins vegar eingöngu einn verkefnastjóri þar sem enginn þjóðskógur er enn sem komið er í þeim landshluta. Þó svo að ábyrgð verkefnastjóra verði beint að þessum tveimur þáttum skógræktar er mikilvægt að hlutverk og verkefni þeirra verði skilgreind með áherslu á það samstarf og samþættingu sem ekki var möguleg þegar yfirstjórn og stefnumörkun var á höndum sex stofnana en ekki einnar eins og nú verður.

Þá er og lagt til að samhæfingarsvið taki að sér forystu um þau verkefni sem telja má stjórnsýsluleg á borð við um­sagn­ir, skipulagsmál og vinnu að landsáætlunum og landshlutaáætlunum í skógrækt. Þróun og innleiðing úttekta og árangursmats í skógrækt og gæðastarf þvert á svið verður einnig viðfangsefni samhæfingarsviðs. Eins verði sviðinu falið að vinna með skógarauðlindasviði að samræmingu verklags og vinnubragða innan og milli landshlutaverkefna og samhæfingu þeirra við verkefni þjóðskóganna. Loks annist sviðið innri og ytri upplýsingamiðlun og fræðslu til almennings, merkingar og upplýsingagjöf í skógunum í samvinnu við önnur svið.

Tillögurnar fela jafnframt í sér að rekstrarsvið taki að sér alla fjármálaumsýslu landshlutaverkefnanna og að nú í júnímánuði verði stöður sviðstjóra skógarauðlindasviðs, samhæfingarsviðs og fagmálastjóra auglýstar lausar til umsóknar. Fyrir mitt ár 2017 verði svo ráðið í stöðu mannauðsstjóra Skógræktarinnar. Hér fyrir neðan er hlekkur á skýrsluna sem kynnt var ráðherra í gær og þar er að finna ítarlegar röksemdir fyrir þeim tillögum sem hér hafa verið tíundaðar.

Texti: Pétur Halldórsson
banner5