Fréttir

10.06.2016

Eitt tré gróðursett fyrir hver tíu kíló af plastrusli

Trjárækt hluti af öllum verkefnum sem hlutu styrk úr Umhverfissjóði Fríhafnarinnar

  • Verðlaunahafarnir við afhendinguna. Mynd: dutyfree.is.

Þrettán verkefni sem öll snerta skóg- og trjárækt með einhverjum hætti fengu í gær styrki úr Umhverfissjóði Fríhafnarinnar. Markmið allra þessara verkefna er að fegra umhverfið og hreinsa, græða land og auka skjól með trjágróðri. Í verkefni Bláa hersins verður gróðursett eitt tré fyrir hver tíu kíló af plastrusli sem hreinsuð verða upp. Verndari þess verkefnis er frú Vigdís Finnbogadóttir.

Þorgerður Þráinsdóttir framkvæmdastjóri og Bjarklind Sigurðardóttir, sölu- og markaðsstjóri Fríhafnarinnar, afhentu styrkina í gær í Flugstöð Leifs Eiríkssonar eins og fram kemur á vef Fríhafnarinnar, dutyfree.is. Þetta er í fjórða skipti sem styrkir eru veittir úr sjóðnum sem var stofnaður í maí árið 2012 til að styrkja verkefni á sviði umhverfisverndar, með áherslu á nágrenni Fríhafnarinnar. Tilgangur sjóðsins er að styrkja verkefni sem byggjast á sjálfboðaliðsstarfi eða frumkvæði félagasamtaka eða einstaklinga. Heildarfjárhæð styrkjanna var tvær og hálf milljón króna.

Þessi verkefni hlutu styrk:

Barna- og unglingaráð knattspyrnudeildar Keflavíkur hlaut styrk til að vinna ötullega áfram við gróðursetningu við æfingarsvæðið bak við Reykjaneshöllina í Reykjanesbæ til að fegra umhverfi og mynda skjól.

Blái herinn hlaut styrk til nýs verkefnis „Hafskóga“. Þar er slagorðið „úr sjó í skóg“. Fyrirtæki og stofnanir verða aðstoðaðar við að hreinsa opin svæði. Eitt tré er gróðursett á móti hverjum 10 kílóum af plasti sem fjarlægð eru af viðkomandi svæði. Allt rusl er flokkað í réttan úrvinnsluflokk. Verndari verkefnisins er frú Vigdís Finnbogadóttir.

Golfklúbbur Sandgerðis hlaut styrk vegna hreinsunar á grjótgarði sem liggur meðfram vellinum ásamt því að gróðursetja plöntur á syðsta hluta vallarsvæðisins.

Golfklúbbur Suðurnesja hlaut styrk til að vinna áfram að uppgræðslu við Leiru, endurbótum á göngustígum og gróðursetningu trjáa.

Hæfingarstöðin, sem flutti í nýtt húsnæði fyrravor, hlaut styrk til að vinna að lóðinni við húsnæði sitt. Sú vinna snýr að því að setja niður skjólbelti með trjám og útbúa matjurtagarð sem nýtist fólkinu.

Heiðarskóli býður nemendum valgrein sem felst í að byggja upp og laga svæði við gömlu malarnámuna. Þau fá styrk til að gróðursetja plöntur, reisa skýli og búa til göngustíga. Svæðið er hugsað sem útikennslusvæði og jafnframt útivistasvæði fyrir íbúa Reykjanesbæjar.

Heilsuleikskólinn Suðurvellir hlaut styrk til að laga útlit skólalóðar og götumyndar við Suðurgötu með því að laga eldri trjábeð og fjarlægja úr sér vaxin tré ásamt því að gróðursetja rifs- og sólberjarunna. Með þessu geta þau bætt inn í dagskrá sína berjatínslu á haustin og fá í leiðinni gott skjól af runnunum.

Knattspyrnudeild UMFN hlaut styrk til að halda áfram að gróðursetja tré umhverfis íþróttasvæði deildarinnar við Afreksbraut í Reykjanesbæ.

Leikskólinn Tjarnarsel hlaut styrk til að vinna áfram í þróunarverkefninu „Áskorun og ævintýri“ sem hófst árið 2013. Þetta er samstarfsverkefni starfsfólks Tjarnarsels, leikskólabarna og foreldra þeirra. Í ár rækta þau berjarunna, ávaxtatré og grænmeti og skapa fallega gróðurreiti á útileiksvæðinu.

Lionsklúbbur Njarðvíkur hlaut styrk til áframhaldandi gróðursetningar plantna og hreinsunar á útivistarsvæðinu Paradís við Grænásbrekku. Markmiðið er að byggja Paradísina enn frekar upp til almenningsnota og yndisauka.

Skógfell, skógræktar- og landgræðslufélag Vatnsleysustrandarhrepps, hlaut styrk til flutnings á húsi sem veitir mönnum vinnuaðstöðu. Húsið verður staðsett á Háabjalla. Skipta þarf um jarðveg og steypa undirstöður svo að flutningabíll komist með húsið á taðinn.

Skógræktarfélag Grindavíkur hlaut styrk til uppsetningar skilta sem sýna helstu fuglategundir sem finnast að staðaldri í Selskógi. Þetta er gert til að vekja athygli gesta skógarins á fuglalífinu.

Ungmennafélagið Þróttur hlaut styrk til áframhaldandi vinnu við trjárækt á Vogabæjarvelli til að mynda skjól fyrir komandi kynslóðir bæjarbúa. Starfið hófst sumarið 2014.

Fríhöfnin óskar styrkþegum til hamingju og þakkar þeim fyrir þann dugnað og elju sem þeir sýna í verkum sínum, gjarnan í sjálfboðavinnu.

Ánægjulegt er að sjá hversu mikil áhersla er lögð á trjárækt í þessum verkefnum. það sýnir skilning á því hversu mjög tré geta bætt umhverfi okkar, ekki síst til að auka skjól og bæta veðurfarið.

Texti: Pétur Halldórsson
Heimild: dutyfree.is
banner4