Fréttir

27.05.2016

Athugasemdir við frumvarp um nýja skógræktarstofnun

Líklegt talið að frumvarpið verði afgreitt fyrir þinghlé

  • Íslenskur nytjaskógur á vori. Mynd: Pétur Halldórsson

Umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis hefur birt á vef þingsins þær athugasemdir sem bárust við frumvarp um nýja skógræktarstofnun. Alls bárust níu umsagnir en í þeim fólst engin efnisleg andstaða við sameiningu ríkisstofnana í skógrækt. Líklegt má telja að frumvarpið verði afgreitt í næstu viku, áður en hlé verður gert á þingstörfum vegna forsetakosninga.

Frestur til að skila inn til umhverfis- og samgöngunefndar athugasemdum við frumvarpið rann út 18. maí. Umsagnir bárust frá Bænda­samtökum ÍslandsFélagi skógarbænda á Austurlandi, Félagi skógarbænda á Suðurlandi, Landgræðslu ríkisins, Landssamtökum skógareigenda, Landvernd, Náttúrufræðistofnun Íslands, sameiginleg athugasemd frá Skógrækt ríkisins, Héraðs- og Austurlandsskógum, Suðurlandsskógum, Norður­landsskógum, Skjólskógum og Vesturlandsskógum og loks athugasemd frá Þorsteini Péturssyni og Guðmundi Aðalsteinssyni.

Í athugasemdum Náttúrufræðistofnunar er varað við því að með sameiningunni geti hagsmunir skarast og ný stofnun, Skógræktin, orðið báðum megin borðs. Upp geti komið hagsmunaárekstrar þegar ný ríkisstofnun eigi bæði að styrkja einkaframkvæmdir og samtímis að hafa með höndum ráðgjöf um vemd náttúrlegra skóga með því að standa bæði að úthlutun fjármuna til skógræktar og eftirliti með þeirri skógrækt. Landvernd gerir athugasemdir við að ekki sé nefnt sérstaklega að bændur geti notið allt að 97% styrkja til ræktunar birkiskóga. Lengi hafi skort ákvæði í lögum sem gerir endurheimt hreinna birkiskóga jafn hátt undir höfði og ræktun blandskóga/nytjaskóga.

Aðrar athugasemdir eru samhljóða um að sameining þessara stofnana sé jákvætt skref en í athugasemdunum eru tillögur um lítils háttar orðalagsbreytingar og bent á að í frumvarpstextann vanti ákvæði um það markmið, sem áður hefur verið sett fram í lögum um landshlutaverkefni í skógrækt, að klæða skuli 5% láglendis skógi.

Fyrir síðustu helgi áttu þau Hrönn Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri Landssamtaka skógareigenda, Sigríður Júlía Brynleifsdóttir, framkvæmdastjóri Vesturlandsskóga og Þröstur Eysteinsson skógræktarstjóri fund með umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis til að fjalla um sameiningarfrumvarpið. Þar gafst þeim  kostur á að draga fram áherslur sínar og ræða málefni skógræktar við nefndina. Nefndarfólk spurði meðal annars um vaxandi þátt skógareigenda í afurðamálum.

Stefnt er að því að Alþingi taki hlé frá störfum 2. júní vegna forsetakosninga. Þar sem andstaða virðist ekki vera við fyrirliggjandi frumvarp, hvorki á þingi né utan þess, verður að telja líklegt að málið verði afgreitt fyrir þinghlé.

Athugasemdir sem bárust við frumvarpið

Texti: Pétur Halldórsson
banner1