Fréttir

25.05.2016

Skógrækt ríkisins fær góða einkunn í könnun SFR

Hefur styrkt ímynd sína frá því í fyrra

  • Lunginn úr starfsmannahópi Skógræktar ríkisins haustið 2014 þegar haldinn var starfsmannafundur í Fljótshlíð. Myndin er tekin í Múlakoti. Mynd: Pétur Halldórsson

Starfsmenn Skógræktar ríkisins gefa stofnuninni góða einkunn í könnun SFR, stéttarfélags í almannaþjónustu, þar sem útnefndar eru stofnanir ársins. Einkunnir stofnunarinnar eru flestar vel yfir meðallagi nema hvað einkunnir fyrir laun og jafnrétti eru nálægt meðallagi. Ef starfsmenn Skógræktar ríkisins væru fleiri en fimmtíu myndi stofnunin lenda í fjórða sæti stofnana af þeim stærðarflokki en þar var hún í 11. sæti í fyrra. Eftir væntanlega sameiningu Skógræktar ríkisins og landshlutaverkefna í skógrækt verða starfsmenn nýrrar stofnunar hartnær 70 talsins.

Capacent kannar á hverju ári fyrir SFR viðhorf starfsmanna ríkisstofnana til vinnuveitanda síns. Út frá því eru útnefndar stofnanir ársins í þremur stærðarflokkum en einnig hástökkvari ársins og fyrirmyndarstofnanir fá viðurkenningu. Haft er samband við þá starfsmenn sem verið hafa í hálfu starfi eða meira undanfarna fjóra mánuði. Niðurstöður úr könnuninni Stofnun ársins 2016 voru kynntar 12. maí.

Niðurstöður Skógræktar ríkisins verða að teljast góðar. Stofnunin fær hærri einkunn en í fyrra. Þá taldist hún til stofnana með 50 starfsmenn eða fleiri og lenti þar í 11. sæti. Nú telst hún til stofnana með 20-49 starfsmenn enda sveiflast starfsmannafjöldinn kringum töluna 50. Ef einkunnin nú er borin saman við einkunnir þeirra stofnana sem hafa 50 starfsmenn eða fleiri kemur í ljós að Skógrækt ríkisins myndi lenda í fjórða sæti af 77 í þeim flokki og hefur samkvæmt því hækkað sig úr ellefta sæti í það fjórða. Meðal stofnana með 20-49 starfsmenn lendir Skógrækt ríkisins í 10. sæti af 50 stofnunum að þessu sinni.

Starfsfólk Skógræktar ríkisins í skoðunarferð við Hjálparfoss þegar þar var unniðað endurbótum á aðstöðu fyrir ferðafólk. Mynd: Pétur Halldórsson.

Hæsta einkunn gefa starfsmenn Skóg­rækt­ar ríkisins stofnun sinni í flokknum „Ánægja og stolt“ og einnig gefa þeir góða einkunn fyrir starfsanda, sveigjanleika í vinnu og sjálfstæði í starfi. Einkunnir þeirra fyrir stjórnun stofnunarinnar, vinnuskilyrði og ímynd stofnunarinnar eru líka yfir meðallagi. Þegar spurt er um launakjör og jafnrétti er einkunnin rétt undir meðallagi. Jafnrétti er nýr flokkur í þessum könnunum SFR.

Í öllum flokkum nema einum hefur stofnunin bætt einkunn sína frá í fyrra. Sérstaklega virðist ímynd Skógræktar ríkisins hafa styrkst að mun og einnig eru einkunnir fyrir starfsanda, vinnuskilyrði og flokkinn „Ánægja og stolt“ talsvert hærri en í fyrra. Skógrækt ríkisins getur því vel við unað en lengi má gott bæta. Í meðfylgjandi tenglum má glöggva sig betur á niðurstöðunum.

Texti: Pétur Halldórsson

banner4