Fréttir

18.05.2016

Þórsmörk og National Geographic

Laugavegurinn og Fimmvörðuháls meðal bestu gönguleiða heims

  • Þórsmörk
    Af Þórsmörk. Mynd: Hreinn Óskarsson.

Gönguleiðin um Fimmvörðuháls og Laugaveginn er meðal tuttugu leiða sem nafntogað útivistarfólk útnefndi bestu gönguleiðir heims fyrir bandaríska landfræðitímaritið National Geographic. Skógurinn á Þórsmörk er þjóðskógur. Honum var bjargað fyrir rúmum 80 árum þegar Skógrækt ríkisins tók að sér að friða hann, auka útbreiðslu hans á ný og hlúa að svæðinu.

National Geographic leitaði til tuttugu manns eftir ábendingum um bestu gönguleiðir í heimi svo sem langhlaupara, forystufólks hjá fyrirtækjum og virtra rithöfunda. Þeirra á meðal var Jennifer Pharr Davis sem bæði er rithöfundur og göngugarpur og hefur gengið hina 3.500 kílómetra Appalachian-leið í austanverðum Bandaríkjunum á 46 dögum ásamt fleiri leiðum austan hafs og vestan ásamt því að skrifa bækur um ferðir sínar.

Jennifer hefur líka gengið Fimmvörðuháls og Laugaveginn allt til Landmannalauga og setur þá gönguleið efst á listann yfir þær leiðir sem hún hefur farið. Jennifer notar stór orð um leiðina. Á þessum 80 kílómetrum sé meiri fjölbreytni en njóta megi á flestum öðrum gönguleiðum, jafnvel þótt þær séu tíu sinnum lengri. Í upphafi göngunnar frá Skógum sjáist tuttugu tilkomumiklir fossar. Þá sé farið um berangurslegan fjallveg milli tveggja eldfjalla, meðal annars hins fræga Eyjafjallajökuls sem spillti fyrir flugumferð yfir Atlantshaf árið 2010 og þaðan sé komið niður í Þórsmörk, stórkostlegan dal þar sem rithöfundurinn Tolkien kom áður en hann skrifaði um Hobbitann og Hringadróttins sögu.

Um Laugaveginn segir Jennifer að óvíða megi finna gönguleiðir sem bjóði upp á villtari náttúru og meiri óbyggða­tilfinn­ingu. Eldfjallaumhverfið sé yfirnáttúrlegt og á leiðinni sé gist í þægilegum skálum. Fyrir augu beri gufuhveri og ljósa líparíttinda en líka mosagrónar hraunbreiður.

Mikið starf er unnið á hverju sumri við stígagerð og stígaviðhald á Þórsmörk og nágrenni. Fyrstu sjálfboðaliðahóparnir á vegum Þórsmörk Trail Volunteers eru nú komnir á svæðið og eru að búa sig til starfa þessa dagana undir stjórn Chas Goemans sem er starfsmaður Skógræktar ríkisins. Áfram verður unnið að því að loka rofsárum, koma í veg fyrir landspjöll vegna vatns- og vindrofs og átroðnings ferðafólks, meðal annars á Laugaveginum.

Texti: Pétur Halldórsson
banner4