Fréttir

03.05.2016

Þriðjungur ræktaðra skóga er á Suðurlandi

Endurbætt skóglendisvefsjá gefur auknar upplýsingar um skóglendi í sveitarfélögum

  • Úr villtum norðlenskum birkiskógi. Mynd: Pétur Halldórsson.

Viðamiklar upplýsingar um skóglendi lands­­ins má nú finna með hjálp nýuppfærðrar skóglendisvefsjár á vef Skógræktar ríkisins. Vefsjáin var áður í einu lagi en hefur nú verið skipt í þrennt og möguleikarnir auknir. Einkum er nú betur hægt að átta sig á skóglendi eftir sveitarfélögum landsins og upplýsingar eru ítarlegri.

Af forvitnilegum upplýsingum sem vefsjáin hefur að geyma má nefna að flatarmál ræktaðra skóga er mest á Suðurlandi. Þar er tæpur þriðjungur allra ræktaðra skóga á landinu. Hlutfall ræktaðra skóga af flatar­máli viðkomandi landshluta er þó hæst á Austurlandi en ef aðeins er litið til láglendis neðan 400 metra yfir sjó er heildarflatarmál skóglendis mest á Vesturlandi. Austurland hefur hins vegar hæsta hlutfall landshlutanna af ræktuðum skógi á láglendi.

Mesta flatarmál ræktaðs skógar í einstöku sveitarfélagi er á Fljótsdalshéraði enda eru innan þess sveitarfélags þrettán prósent allra ræktaðra skóga landsins. Hæsta hlutfall skógarþekju af heildarflatarmáli einstakra sveitarfélaga er hins vegar í Garðabæ. Tæpur þriðjungur af flatarmáli sveitarfélagsins neðan 400 m er þakinn skógi og kjarri.

Grisjun í Mjóanesi, Lagarfljót í baksýn. Á Fljótsdalshéraði er mesta flatarmál ræktaðs skógar í einstöku sveitarfélagi hérlendis. Mynd: Pétur Halldórsson.

Á árunum 2010-2014 var birki á Íslandi endurkortlagt og liggur nú fyrir hversu mikil útbreiðsla náttúrlegs birkis er á Íslandi. Þekja sem sýnir útbreiðslu ræktaðs skóglendis á landinu er uppfærð árlega. Einnig bætast upplýsingar um nýgróðursetningar við þekjuna á hverju ári. Gerð var landfræðileg greining á útbreiðslu skóglendis fyrir hvern lands­­hluta og öll sveitarfélög á landinu. Skoðað var heildarflatarmál bæði ræktaðra skóga og náttúrlegs birkiskóglendis. Þar með fékkst samanlögð þekja alls skóglendis en einnig var litið sérstaklega á flatarmál og hlutfall skóglendis neðan 400m. Þetta var gert bæði fyrir hvern landshluta og hvert sveitarfélag.

Til að fara beint í skóglendisvefsjána má smella á eftirfarandi hlekk en hér fyrir neðan er einnig ítarlegri samantekt með töflum sem sýna ýmsar áhugaverðar staðreyndir um skóga landsins.

Skógar Íslands eftir sveitarfélögum og landshlutum

Flatarmál ræktaðra skóga mest á Suðurlandi

Eins og sjá má á 1. töflu reyndist flatarmál ræktaðra skóga vera mest á Suðurlandi. Þar er tæpur þriðjungur allra ræktaðra skóga á Íslandi. Flatarmál ræktaðra skóga er nokkuð svipað á Norðurlandi, Vesturlandi og Austurlandi en minnst á Vestfjörðum. Athyglisvert er að sjá einnig að þekja birkis skiptist nokkuð jafnt á milli fjögurra landshluta, Vesturlands, Suðurlands, Vestfjarða og Norðurlands, eins og sést á 2. töflu.. Þekjan var nokkru minni á Austurlandi.

Múlakot Horft yfir Markarfljótsaura úr skóginum í Múlakoti. Suðurland er sá hluti landsins sem hefur mest flatarmál ræktaðs skógar. Mynd: Hreinn Óskarsson.

1. tafla

Flatarmál skógræktar eftir landshlutum

Flatarmál (ha) Hlutfall (%)
Suðurland 16.000 31%
Norðurland 11.730 23%
Vesturland 10.750 21%
Austurland 10.390 20%
Vestfirðir 2.330 5%
Alls flatarmál 51.190
2. tafla

Flatarmál birkis eftir landshlutum

Flatarmál (ha) Hlutfall (%)
Vesturland 39.110 26%
Suðurland 34.170 23%
Vestfirðir 30.890 20%
Norðurland 28.740 19%
Austurland 18.630 12%
Alls flatarmál 151.540

Á 3. töflu má sjá að heildarflatarmál skóglendis á Íslandi var mest á Suðurlandi en litlu minna á Vesturlandi. Í þessum landshlutum var samanlagt um helmingur alls skóglendis á Íslandi. Minnst var heildarflatarmál skóglendis á Austur­landi.

3. tafla

Flatarmál skóglendis eftir landshlutum

Flatarmál (ha) Hlutfall (%)
Suðurland 50.170 25%
Vesturland 49.850 25%
Norðurland 40.470 20%
Vestfirðir 33.220 16%
Austurland 29.020 14%
Alls flatarmál 202.730

Hlutfall skóglendis af flatarmáli landshluta neðan 400 m

Íslendingar hafa undanfarna áratugi stefnt að því að þekja 5% láglendis skógi þótt hægar gangi en vonast var til í fyrstu. Ef reiknað er hlutfall ræktaðra skóga af flatarmáli lands neðan 400 m í einstökum landshlutum kemur í ljós að hlutfallið er hæst á Austurlandi. Þar reynast 2,3% lands neðan 400 m vera þakin ræktuðum skógum eins og sést í 4. töflu. Hlutfallið var mjög svipað á Vesturlandi og Suðurlandi, en lægst á Norðurlandi og Vestfjörðum.

4. tafla


Hlutfall ræktaðra skóga neðan 400m
Austurland 2,3%
Vesturland 1,5%
Suðurland 1,3%
Norðurland 0,9%
Vestfirðir 0,4%

Birki var hlutfallslega útbreiddast á láglendi á Vesturlandi. Þar voru 5,6% lands neðan 400 m þakin náttúrlegum birki­skóg­um og birkikjarri eins og tafla 5 sýnir. Svipað hlutall var á Vestfjörðum en minnst var það á Norðurlandi.

5. tafla

Hlutfall birkis af flatarmáli landshluta neðan 400m eftir landshlutum

Hlutfall birkis neðan 400m
Vesturland 5,6%
Vestfirðir 5,4%
Austurland 4,1%
Suðurland 2,7%
Norðurland 2,2%

Hlutfall skóglendis af flatarmáli landshluta neðan 400 m var hæst á Vesturlandi, en þar voru rúm 7% lands neðan 400 m þakin ræktuðum skógum og náttúrlegu birki (6. tafla). Á Austurlandi og Vestfjörðum var hlutfallið nálægt 6% en minnst var það á Norðurlandi.

6. tafla

Hlutfall skóglendis af flatarmáli landshluta neðan 400m eftir landshlutum

Hlutfall skóglendis neðan 400m
Vesturland 7,1%
Austurland 6,5%
Vestfirðir 5,8%
Suðurland 4,0%
Norðurland 3,2%

13% ræktaðra skóga landsins eru á Fljótsdalshéraði

Ef litið er á sveitarfélögin hvert og eitt kemur í ljós að mest flatarmál ræktaðra skóga er á Fljótsdalshéraði. Þar voru samkvæmt mælingunum 13% allra ræktaðra skóga á Íslandi. Það er um tvöfalt meira en í því sveitarfélagi sem næst kemur, Rangárþingi ytra (7. tafla).

7.  tafla

Flatarmál skógræktar eftir sveitarfélögum

Heildarflatarmál skógræktar Hlutfall af ræktuðu skóglendi
Fljótsdalshérað 6.900 13%
Rangárþing ytra 3.690 7%
Grímsnes- og Grafningshreppur 2.780 5%
Borgarbyggð 2.410 5%
Þingeyjarsveit 2.300 4%
Reykjavíkurborg 2.100 4%
Skeiða- og Gnúpverjahreppur 2.040 4%
Rangárþing eystra 2.000 4%
Bláskógabyggð 1.920 4%
Norðurþing 1.830 4%

Mest flatarmál náttúrlegs birkis var í Borgarbyggð, en þar voru 15% alls birkis á Íslandi. Það er nær tvöfalt meira en í Þingeyjarsveit þar sem flatarmál náttúrlegs birkis var næstmest (8. tafla). Borgarbyggð hefur einnig vinninginn ef lagt er saman allt skóglendi, villt og ræktað, eins og sjá má á töflu 9. Innan marka Borgarbyggðar reyndust 12% lands vera þakin skóglendi en það sveitarfélag sem næst kemur Borgarbyggð er Fljótsdalshérað með 7%.

8. tafla

Flatarmál náttúrlegs birkis eftir sveitarfélögum

Heildarflatarmál birkis Hlutfall af skóglendi á Íslandi
Borgarbyggð 22.060 15%
Þingeyjarsveit 11.760 8%
Bláskógabyggð 11.230 7%
Skútustaðahreppur 9.590 6%
Norðurþing 9.590 6%
Vesturbyggð 9.100 6%
Reykhólahreppur 9.070 6%
Sveitarfélagið Hornafjörður 8.410 6%
Fljótsdalshérað 7.680 5%
Dalabyggð 5.920 4%

Í Jafnaskarðsskógi. Í Jafnaskarðsskógi. Ekkert sveitarfélag hefur meiri samanlagða skógarþekju en Borgarbyggð. Mynd: Esther Ösp Gunnarsdóttir.

9. tafla

Flatarmál skóglendis eftir sveitarfélögum

Heildarflatarmál skóglendis
Borgarbyggð 24.470
Fljótsdalshérað 14.590
Þingeyjarsveit 14.070
Bláskógabyggð 13.150
Norðurþing 11.410
Skútustaðahreppur 10.380
Vesturbyggð 9.350
Reykhólahreppur 9.330
Sveitarfélagið Hornafjörður 9.180
Dalabyggð 7.590

6 sveitarfélög með meira en 5% þekju neðan 400 m

Forvitnilegt er líka að huga að því hvaða sveitarfélög eru komin lengst í átt til markmiðsins um 5% skógarþekju á láglendi. Hlutfall ræktaðra skóga af láglendisflatarmáli sveitarfélags reyndist vera mest í Fljótsdalshreppi. Þar voru rúm 10% lands neðan 400 m þakin ræktuðum skógum í mælingunum (10. tafla). Alls reyndust 6 sveitarfélög hafa meira en 5% skógarþekju neðan 400 m.

10. tafla

Hlutfall skógræktar af flatarmáli sveitarfélags neðan 400m

Hlutfall skógræktar neðan 400m
Fljótsdalshreppur 10,3%
Reykjavíkurborg 9,4%
Akureyrarkaupstaður 9,4%
Garðabær 7,9%
Svalbarðsstrandarhreppur 5,6%
Hafnarfjarðarkaupstaður 5,0%
Hveragerðisbær 4,5%
Grímsnes- og Grafningshreppur 4,4%
Fljótsdalshérað 4,3%
Skeiða- og Gnúpverjahreppur 4,0%

Garðabær skóglendasta sveitarfélagið

Hlutfall náttúrlegs birkis af flatarmáli sveitarfélags var mest í Garðabæ, rúm 23% og tæp 20% í Hafnarfirði (11. tafla). Alls voru 5 sveitarfélög með yfir 10% þekju birkiskóglendis neðan 400 m.

Hlutfall alls skóglendis af flatarmáli sveitarfélags var líka mest í Garðabæ. Tæpur þriðjungur af flatarmáli sveitar­félags­ins neðan 400 m var þakinn skógi og kjarri, en um fjórðungur í Hafnarfirði (12. tafla).

11. tafla

Hlutfall náttúrlegs birkis af flatarmáli sveitarfélags neðan 400m

Hlutfall birkis neðan 400m
Garðabær 23,1%
Hafnarfjarðarkaupstaður 19,8%
Reykhólahreppur 13,1%
Súðavíkurhreppur 12,6%
Breiðdalshreppur 11,2%
Skorradalshreppur 9,8%
Grýtubakkahreppur 9,5%
Vesturbyggð 9,4%
Bláskógabyggð 9,3%
Hvalfjarðarsveit 8,2%

12. tafla

Hlutfall skóglendis af flatarmáli sveitarfélags neðan 400m

Hlutfall skóglendis neðan 400m
Garðabær 31,1%
Hafnarfjarðarkaupstaður 24,8%
Fljótsdalshreppur 14,7%
Skorradalshreppur 13,7%
Reykhólahreppur 13,5%
Súðavíkurhreppur 13,0%
Breiðdalshreppur 12,5%
Reykjavíkurborg 12,4%
Hvalfjarðarsveit 11,0%
Bláskógabyggð 10,9%

 

Texti: Pétur Halldórsson
Heimild og töflugerð: Björn Traustason

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


 

banner2