Fréttir

12.04.2016

Íslenskt kurl til Færeyja

Verður undirlag í reiðhöllinni í Þórshöfn

  • Hér er verið að ferma flutningavagninn með kurlinu en einnig verða fluttar með sendingunni heyrúllur til Færeyja.

Trjákurl frá Skógrækt ríkisins á Hallorms­stað hefur að undanförnu verið flutt út í nokkrum mæli til Færeyja. Færeyingar nýta kurlið sem undirburð fyrir hross og nú í vikunni fara utan með ferjunni Norrænu um 20 rúmmetrar af lerkikurli. Áform eru um frekari útflutning.

Tilurð samstarfsins má rekja til heimsóknar nokkurra Færeyinga í Hallormsstaðaskóg árið 2014 þar sem þeir kynntu sér ýmsa framleiðslu úr viði. Kurlið vakti athygli þeirra og í framhaldi af heimsókn þeirra sendu starfsmenn Skógræktar ríkisins á Hallorms­stað 6 m3 af kurli með ferjunni frá Seyðis­firði til prufu. Kaupandi var hesta­manna­fé­lag­ið Berg Hestar í Þórshöfn en það er áhugafélag um íslenska hestinn.

Færeyingar nýttu kurlið sem undirburð fyrir hross og gafst það vel. Því hefur nú verið gengið frá nýrri pöntun á um 20 m3 af lerkikurli sem fluttir verða til Færeyja í vikunni. Farmurinn verður fluttur á vagni ásamt heyrúllum af svæðinu. Ætlunin er að nýta kurlið sem undirlag í reiðhöllinni í Þórshöfn.

Vonast er til að framhald verði á þessu samstarfi Færeyinga og Skógræktar ríkisins á Hallormsstað.

Texti og mynd: Þór Þorfinnsson
banner3