Fréttir

11.04.2016

Frumvarp um sameiningu skógræktarstofnana lagt fyrir Alþingi

Styrkir kjarnastarfsemina en eykur ekki kostnað ríkisins

  • Með sameiningu stofnana er gert ráð fyrir að sá mannauður sem starfar við skógrækt á vegum ríkisins nýtist betur til að ná markmiðum um uppbyggingu skógarauðlindar og verndun og sjálfbæra nýtingu skóga.

Umhverfis- og auðlindaráðherra hefur nú lagt fyrir Alþingi frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna nýrrar skógræktarstofnunar. Lagt er til að ný stofnun, Skógræktin, taki við eignum, réttindum og skyldum Skógræktar ríkisins og landshlutaverkefna í skógrækt frá og með 1. júlí 2016. Ráðningarsamningar starfsmanna færist yfir til nýrrar stofnunar.

Í samantekt með frumvarpinu á vef Alþingis kemur fram að aðalbreytingarnar sem gera þurfi eigi einkum við lög um skógrækt nr 3/1955 og lög um landshlutaverkefni í skógrækt nr 95/2006. Jafnframt þurfi að gera orðalagsbreytingar á sjö öðrum lögum. Breytingin hafi ekki áhrif á ríkissjóð.

Frumvarpið er svokallaður bandormur sem nauðsynlegur er vegna eldri laga sem ella myndu ekki leyfa sameiningu viðkomandi stofnana. Hin nýju ákvæði sem nú bætast við eldri lög eru sögð vera gerð til bráðabirgða. Af því má ætla að í framhaldi af sameiningunni sé stefnt að alveg nýrri löggjöf um skógrækt á Íslandi.

Í athugasemdum með frumvarpinu segir orðrétt:

Með sameiningunni mun sá mannauður sem starfar við skógrækt á vegum ríkisins nýtast betur til að ná markmiðum skógræktar um uppbyggingu skógarauðlindar og verndun og sjálfbæra nýtingu skóga. Í frumvarpinu er lagt til að landshlutaverkefni í skógrækt verði hluti af annarri starfsemi Skógræktarinnar.

Gert er ráð fyrir því í frumvarpinu að í stað ákvæðis um skipun stjórna landshlutaverkefna verði kveðið á um samráð við félög skógarbænda um áherslur og framkvæmd hvers landshlutaverkefnis og samráð við Landssamtök skógar­eigenda um ákvörðun viðmiða fyrir endurgreiðslu samþykkts kostnaðar.

Frá stefnumótunarfundi starfsfólks Skógræktar ríkisins og landshlutaverkefna í skógrækt sem haldinn var 9. mars.

Farið er yfir í athugasemdum það víðtæka samráð sem ráðist var í til undirbúnings sameiningarinnar, greint frá vinnu stýri­hóps sem nú starfar undir stjórn skóg­rækt­ar­stjóra og virkri þátttöku starfsmanna Skógræktar ríkisins og lands­hluta­verk­efn­anna í sameiningarferlinu.

Samlegðaráhrif

Í mati á áhrifum frumvarpsins segir að það muni hafa í för með sér samþættingu verkefna skógræktar undir eina stofnun. Reikna megi með betri innleiðingu og framkvæmd stefnumörkunar um skógrækt þar sem stjórnsýslan verði einfaldari, sterkari og aðgengilegri. Svæðisstöðvar um allt land verði öflugri og þannig verði til sterkara bakland fyrir alla sem sinna skógrækt. Meira jafnræði verði milli landshluta þar sem sömu reglur gildi um afgreiðslu fjárframlaga vegna þátttöku í skógræktarverkefnum í öllum landshlutum. Orðrétt segir:


Margþætt samlegð verður varðandi ráðgjöf, fræðslu- og kynningarmál, þróun og eftirlit. Ráðgjöf verður markvissari auk þess sem opinbert eftirlit með skógrækt verður einfaldara, sterkara og faglegra. Auka má samþættingu rannsókna og styrkja faglega vinnu við korta- og áætlanagerð en sameining skógræktarstarfs ríkisins á hendi einnar stofnunar getur auðveldað úrvinnslu- og markaðsmál varðandi nýtingu skóga.

Sem fyrr greinir er gert ráð fyrir að hin nýja stofnun, Skógræktin, taki við öllum ráðningarsamningum starfsmanna Skógræktar ríkisins og landshlutaverkefnanna. Reikna megi með að kostnaður við yfirstjórn lækki en það sem sparist megi nýta til að styrkja kjarnastarfsemi stofnunarinnar og ýmsa stoðþjónustu. Breytingin muni ekki auka útgjöld ríkisins. Ekki liggur fyrir hvenær frumvarpið verður tekið til umræðu á Alþingi.

Undirbúningur langt kominn

Mikill áhugi er á sameiningunni meðal starfsfólks og undirbúningsvinnan er vel á vegi stödd. Þrír hópar starfsfólks hafa skilað af sér áliti um innri mál, ytri mál og fagleg mál nýrrar stofnunar, haldinn hefur verið fjölmennur stefnu­mótun­ar­fund­ur starfsfólks og stýrihópur vinnur nú að stefnumótun og mótun skipurits. Þá hefur skógræktarstjóri verið á ferð og flugi um landið til að kynna sameiningarmálin fyrir skógarbændum og fleirum. Fátt ætti því að vera í veginum fyrir því að af sameiningunni geti orðið 1. júlí. Málefnið virðist njóta stuðnings hvarvetna og vera ópólitískt og því má vænta þess að það verði fljótafgreitt á Alþingi.

Eldri fréttir um sameiningarmálin

Texti og mynd: Pétur Halldórsson

banner1