Fréttir

11.04.2016

Áhugi á verulegri skógrækt á Grundartanga

Elkem og Silicor Materials sækjast eftir samstarfi um málið

  • Iðnviðarskógur með alaskaösp getur gefið uppskeru aftur og aftur án þess að gróðursetja þurfi ný tré í stað þeirra sem felld eru. Með því að rækta iðnvið innan lands dregur úr þörfinni fyrir innflutning slíks efnis. Með þessu dregur úr útblæstri koltvísýrings, gjaldeyrir sparast, atvinna skapast við ræktun og úrvinnslu og þar fram eftir götum.

Faxaflóahafnir hyggjast láta gera úttekt á skógrækt á eignarlandi sínu á Grundar­tanga við Hvalfjörð. Þar er um 36 hektara asparskógur auk grenis, birkis og fleiri trjátegunda. Tvö stóriðjufyrirtæki hafa hreyft þeirri hugmynd að ráðist verði í verulega skógrækt á Grundartanga.

Þetta kemur fram í minnisblaði um  umhverfis­mál á Grundartanga sem lagt var fram á síðasta stjórnarfundi Faxaflóahafna föstudaginn 8. apríl. Þar segir að Faxaflóa­hafnir sf. hafi rætt við Hlyn G. Sigurðsson hjá KvikLandi ehf. um að hann geri úttekt á skógræktinni á eignarlandi Faxaflóahanfa á Grundartanga. Mikilvægt sé að meta þörf á grisjun, hvernig grisja skuli, tilfærslu trjáa og fleira. Talið að verkinu megi ljúka á einu ári og það hefjist á vormánuðum.

Jafnframt segir í minnisblaðinu að af hálfu Elkem Íslands ehf. og Silicor Materials hafi þeirri hugmynd verið hreyft að ráðist verði í verulega skógrækt á Grundartanga. Fyrirtækin vilji vinna að hugmyndinni ásamt Hvalfjarðarsveit, Kol­viði, Festu og Faxaflóahöfnum sf. Af hálfu Faxaflóahafna sf. hefur verið lýst yfir vilja til þátttöku að því gefnu að Hvalfjarðarsveit heimili slík áform og sveitarfélagið sé reiðubúið til samstarfsins.

Stjórn Faxaflóahafna samþykkti á fundinum á föstudag að senda Umhverfisvaktinni við Hvalfjörð, Hvalfjarðarsveit og fyrirtækjum á Grundartanga minnisblaðið.

Ríkisútvarpið fjallar um málið í dag og þar er haft eftir Gísla Gíslasyni hafnarstjóra að fyrst og fremst sé litið til þessara verkefna sem kolefnisaðgerðar.

Texti: Pétur Halldórsson
banner4