Fréttir

08.04.2016

Veðurvísar árhringjanna

Dulítil innsýn í árhringjafræði

  • Hér hefur bolur verið sagaður við miðjan greinakrans svo kvistirnir bæta skemmtilegu mynstri við árhringina. Mynd: Pétur Halldórsson.

Á dögunum þegar Daníels­lundur í Svigna­skarði Borgar­firði hafði verið grisjaður og skógræktarfólk fór í skóginn til að tína köngla og safna fræi notaði Aðal­steinn Sigurgeirsson, forstöðumaður Rannsókna­stöðvar skóg­ræktar, Mógilsá, tækifærið og náði sér í sneiðar með þver­sniði af fimm slembi­völd­um stafafuru­­trjám sem höfðu verið högg­vin í skóginum.

Árhringir segja sína sögu um árferðið á vaxtartíma trésins þótt fleira hafi áhrif en veðrið svo sem aðstæður á vaxtarstaðnum, næringarástand og fleira. Forvitnilegt er að greina árhringina og bera þá saman við veðurfars­gögn. Aðalsteinn fól það verk Ólafi Eggertssyni, árhringjafræðingi á Mógilsá, sem er öðrum fróðari og færari í þeim efnum hér­lendis. Sneiðarnar voru valdar af handahófi af felldum trjám en teknar af stubbnum eins nærri jörðu og kostur var.

Niðurstöðuna má sjá á línuritinu hér fyrir neðan sem Ólafur vann upp úr gögnunum. Á því sést til dæmis að vöxtur hefur fallið nokkuð árin 2005, 2006 og 2013. Það gæti verið vegna þess að maí var mjög kaldur og þurr þessi ár og samspil þess við innbyrðis samkeppni trjánna um ljós, næringu og vatn.  Árið 2005 var reiturinn fyrst grisjaður og í kjölfar grisjunar jókst þvermálsvöxturinn næstu árin, vegna minni innbyrðis samkeppni trjánna. En fljótlega tók að draga úr þvermálsvexti trjánna á nýjan leik upp úr árinu 2008. Sá vaxtarsamdráttur skýrist ekki af lágu hitafari sumranna 2009-2012, því þau ár voru meðal hinna hlýjustu á æfi trjánna.

.

Breidd árhringja í 5 sneiðum af stafafuru. Græna línan á við tré
sem gæti verið ein fyrsta sjálfsáða plantan á þessum stað.

Árhringirnir sýna líka að trén eru um það bil 50 ára gömul þannig að þau eru úr elstu gróður­setningunum í Daníels­lundi eða frá því fyrir 1965. Græna línan á línuritinu vekur athygli og velta skógræktarmenn fyrir sér hvort þetta tré hljóti ekki að hafa verið sprottið upp af fræi eldri trjáa í skóginum. Eitt eða tvö þeirra trjáa sem sneiðarnar voru teknar af stóðu við veg­slóða í skóginum og raskið við slóðann hefði getað verið upplagt set fyrir stafafurufræ til að spíra. Miðað við þéttleika trjánna í þessum reit sé varla um aðra skýringu að ræða því varla hefðu menn séð ástæðu til að bæta við gróðursetningu í svo þéttum reit tuttugu ára gömlum. Vitað er að um miðjan 9. áratuginn fóru menn fyrst að taka eftir einstaka sjálfsáðum stafafurutrjám á melblettum innan Daníelslundar.

Sömuleiðis er áhugavert að velta fyrir sér hvenær furan fer að gildna að ráði og viðarmyndun að aukast. Við sjáum að fyrsta áratuginn er línan nokkuð lárétt og það er ekki fyrr en um tutt­ugu ára aldur trjánna sem hún er loksins farin að hallast upp á við fyrir alvöru. Einnig sjáum við verulegar sveiflur frá ári til árs og hér fyrir neðan er til frekari glöggvunar línurit sem sýn­ir meðalvöxt sýnanna fimm miðað við sumarhita í Reykjavík. Breidd árhringjanna fylgir nokkuð vel hitasveiflunum þótt fleira, s.s. þéttleiki og samkeppni, hafi einnig áhrif.

Þetta línurit sýnir árhringjabreidd sýnanna fimm frá árinu 1965 til 2015
í samanburði við sumarhita í Reykjavík á sama tíma. Hafa ber í huga
þegar bláa línan er skoðuð að hún hefur ekki verið leiðrétt
miðað við aldur trjánna.

Tímatalsrannsóknir á trjám (e. dendrochronology) eru hluti af trjáfræði (e. dendrology). Árhringir trjáa geta veitt miklar upplýsingar um náttúrusögu, veðurfar, náttúruhamfarir, jafnvel mengun eða hlutfall efna í andrúmslofti svo eitthvað sé nefnt. Með því að bera saman árhringi tráa og sögulegar heimildir um veðurfar, árferði, ýmsa atburði og fleira má nota trén til að treysta vitneskju manna um fortíðina en einnig til að bæta við upplýsingum eða styðja önnur gögn og heimildir.

Timbur í gömlum byggingum má nota til að aldursgreina byggingarnar og timbur sem varð­veitt er í gömlum bygging­um gerir líka kleift að beita árhringjafræðinni lengra aftur í tímann en mögulegt er með rannsóknum á lifandi trjám. Ólafur Eggertsson tekur þátt í rannsóknar­verkefni í Rúmeníu þar sem markmiðið er að búa til a.m.k. þúsund ára árhringjatímatal, bæði með því að taka sýni úr elstu trjám sem þar er að finna og úr enn eldri timburbyggingum eða munum úr timbri. Þetta er erfitt að gera á Íslandi því lítið er varðveitt af mjög gömlum viði á Íslandi og íslenska birkið og reyniviðurinn eru ekki mjög langlífar tegundir.

Texti: Pétur Halldórsson
Heimild: Aðalsteinn Sigurgeirsson
Línurit: Ólafur Eggertsson
banner2