Fréttir

06.04.2016

Seljabúskapur hefur verið í Drumbabót

Mannvistarleifar fundust frá 16. eða 17. öld

Seljabúskapur virðist hafa verið í Drumbabót á Markarfljótsaurum í Fljótshlíð á 16. eða 17. öld. Fornleifauppgröftur fór þar fram síðastliðið haust og fundust mannvistarleifar sem bentu til þess að sel hefði verið þar. Í Drumbabót eru leifar forns birkiskógar sem talið er að hafi eyðst í hamfaraflóði úr Mýrdalsjökli í kjölfar Kötlugoss laust eftir 800 e.Kr.

Morgunblaðið fjallar um málið í dag og þar segir enn fremur:

Á einum stað í Drumbabót blasa við tveir hólar og í þeim stærri hefur fundist fjöldi muna sem vindrof hefur afhjúpað á síðustu áratugum og hafa flestir verið færðir Skógasafni til varðveislu. Minjarnar eru viðkvæmar og í stórhættu vegna vindrofs og aukins ágangs ferðamanna sem farnir eru að leggja leið sína á staðinn. Því ákváðu fornleifafræðingarnir Kristborg Þórsdóttir, Lilja Björk Pálsdóttir og Ragnheiður Gló Gylfadóttir að rannsaka staðinn, áður en það yrði of seint.

Stærsta munasafn úr selstöðu

„Minjarnar eru líklega frá 16.-17.öld því þær eru rétt fyrir ofan gjóskulag úr Heklu frá 1510,“ segir Ragnheiður Gló. „Við teljum að þetta hafi verið sel því sjá má að þarna hefur verið árstíðarbundin búseta á sandlagi á milli mannvistarleifa. Þarna var líka grafinn öskupyttur og í honum var mikill sandur á milli laga. Ef þetta var sel hefur verið búið þarna á sumrin, en í sel var farið með kýr og kindur yfir sumartímann, gripirnir mjólkaðir þar og mjólkin unnin. Það er líka þekkt í Fljótshlíðinni að sel voru notuð sem fjárhús yfir vetrartímann.“

Aðeins fundust tveir gripir við fornleifarannsóknirnar en áður hefur fundist fjöldi gripa á yfirborði minjasvæðisins. „Gripasafnið sem hefur fundist í Drumbabót er stærsta gripasafn úr selstöðu sem fundist hefur. Alls hafa fundist 223 gripir, auk dýrabeina, lausfundnir af yfirborði minjasvæðisins en tveir gripir auk dýrabeina fundust við rannsókn okkar haustið 2015.

Flestir gripirnir hafa verið tíndir upp af bræðrunum Kristni Jónssyni bónda á Staðarbakka og Sveinbirni Jónssyni á Hvolsvelli og er það fyrir þeirra tilstilli að svo mikið sem raun ber vitni er nú til af munum frá Drumbabót. Gripirnir hafa verið að berast á Þjóðminjasafnið og Skógasafn síðan um eða upp úr 1990 og er talið að flestir tengist þeir hinum forna minjastað sem þar er,“ segir Ragnheiður.

Meðal gripanna eru tveir kvarnarsteinar, annar íslenskur en hinn norskur, ein perla, fullt af nöglum og bindingum, tveir hnífar og brýni.„Það virðist ekkert hafa verið geymt í seljunum tengt seljavinnunni. Það hafa frekar fundist gripir tengdir hjáverkum, eins og kvarnarsteinar til að mala korn.“

Fornminjarnar eru í landi Breiðabólstaðar og er talið líklegt að selið hafi annað hvort tilheyrt Breiðabólstað eða Lambey sem fór í eyði 1702 vegna uppblásturs.

Áhugaverð staðsetning sels

Ragnheiður segir að það sé ekki vitað hvernig gróðurfarið hafi verið þarna á þessum tíma en ritaðar heimildir um þetta svæði sýni að eyðileggingin hafi alltaf verið mikil, bæði af völdum ánna og uppblásturs. Hún segir staðsetningu minjanna sérstaklega áhugaverða þegar litið er til þess hve mikil eyðilegging varð á þessu svæði vegna ágangs Markarfljóts og annarra vatnsfalla sem runnu þarna óbeisluð um aldir. Þá stjórnuðu árnar aðgengi og nýtingu landsins á þessu svæði.
banner1