Fréttir

23.03.2016

Klifurtréð vinsæla í Mörkinni stórskemmt eftir hvassviðri

Tví- og þrístofna tré viðkvæm fyrir stórviðrum

  • Klifurtréð fræga í trjásafninu Mörkinni Hallormsstað brotnaði illa í stórviðri sem gekk yfir landið 13. mars 2016. Þetta er fjallaþinur gróðursettur 1905, eitt sverasta ltré landsins og meðal elstu barrtrjánna.

Eitt allrasverasta tré landsins skemmdist mikið í stórviðri sem gekk yfir Hallorms­staða­skóg í síðustu viku. Tréð er ríflega aldargamall fjallaþinur í Mörkinni Hallormsstað.

Þessi vetur hefur verið mun stað­viðra­sam­ari en fyrrivetur þegar hvert stórviðrið á fætur öðru gekk yfir landið með stormfalli í skógum. Í síðustu viku herjuðu þó mjög hvassar sunnanáttir víða á landið, til dæmis á Héraði. Á Hallormsstað olli hvassviðrið því að nokkur tré fuku um koll í Trjásafninu á Hallormsstað. Þar á meðal var áðurnefndur fjallaþinur, eitt af elstu trjánum í safninu, fjallaþinur sem gróðursettur var á árabilinu 1905-1910.

Þinur þessi er með allrta sverustu trjám hérlendis sem fyrr segir, 330 cm að ummáli og um 95 cm í þvermál, mjög vinsælt klifurtré hjá ungviðinu. Þinurinn var þrístofna og brotnuðu tveir stofnanna niður. Þór Þorfinnson skógarvörður telur að búast megi við því að síðasti stofninn brotni í næsta hvassviðri.

Auk klifurtrésins vinsæla brotnaði líka gamall hvítþinur í safninu, sitkagreni og lindifura. Í skóginum sjálfum má einnig sjá á stöku stað brotin tré af ýmsum tegundum. Öll eiga þau það sammerkt að vera tví- eða þrístofna sem gerir þau veikari fyrir miklum hvassviðrum.

Hætt er við að þriðji stofninn á gamla fjallaþininum geti brotnað í næsta stórviðri.
Tréð er vart nema svipur hjá sjón eftir skemmtirnar og bert þeim megin
sem föllnu stofnarnir stóðu.

Sigurður Ingi Jóhannsson, þá umhverfis- og auðlindaráðherra, býst til að klifra
í fjallaþininum gamla í ágúst 2014. Mynd: Pétur Halldórsson

Fjallaþinur gróðursettur 1937 í trjásafninu Mörkinni Hallormsstað.

Illa brotinn hvítþinur.

Ekki er óalgengt að eldri þintré hér á landi séu margstofna enda er eðli þins
að vaxa upp í skógarskjóli. Tré sem uxu upp á víðavangi hérlendis eða í litlu skjóli
kól iðulega og því mynduðust fleiri en einn stofn. Því hentugra sem kvæmið er
því minni líkur eru einnig á því að þetta gerist.

Hér má sömuleiðis sjá sitkagrenitré sem óveðrið lék grátt.

Texti: Pétur Halldórsson
Myndir: Þór Þorfinnsson
banner2