Fréttir

03.03.2016

Búnaðarþing vill að bændur bindi kolefni í skógi

Stjórn BÍ falið að vinna með Landssamtökum skógareigenda að málinu

  • Bændaskógar í Eyjafirði í febrúar 2016.

Búnaðarþing sem stendur yfir þessa dagana hefur falið stjórn Bændasamtaka Íslands að vinna að því að kolefnislosun landbúnaðar verði metin og gerð áætlun um hvað þurfi til að kolefnisjafna búskapinn. Skógrækt sé viðurkennd mótvægisaðgerð gegn gróðurhúsaáhrifum og því skuli vinna með Landssamtökum skógarbænda að áætlun um kolefnisjöfnun með skógrækt á jörðum bænda.

Kolefnisjöfnun búskapar er sautjánda málið sem afgreitt hefur verið á Búnaðarþingi sem nú stendur yfir í Bændahöllinni í Reykjavík. Markmiðið er að draga úr áhrifum kolefnislosunar frá landbúnaði. Rætt er um í samþykktinni að gera þurfi útreikning á kolefnislosun landbúnaðar og áætlun um hvað þurfi til þess að kolefnisjafna búskapinn. Skoðaðir verði möguleikar á kolefnisjöfnun.

Búnaðarþing felur stjórn Bændasamtaka Íslands í samvinnu við stjórn Landssamtaka skógareigenda að fylgja málinu eftir. Í greinargerð með samþykktinni segir:

Við eigum aðeins eina jörð og mikilvægt er að allri beri ábyrgð í loftlagsmálum. Skógrækt er viðurkennd mótvægisaðgerð gegn uppsöfnun gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloftinu. Margir bændur eiga land sem ekki nýtist við búskapinn og gæti hentað vel til skógræktar. Með því að vinna áætlun um skógrækt á landi sínu eða í samvinnu við aðra landeigendur og framfylgja henni skapast möguleiki á sjálfbærni í búskapnum og ímynd bændastéttarinnar verður jákvæðari.

Undir samþykktina rita Gunnar Kr. Eiríksson, Jóhann Gísli Jóhannsson, Hávar Sigtryggsson, Salvar Baldursson, Helga Ragna Pálsdóttir og Þórólfur Ómar Óskarsson.

Texti og mynd: Pétur Halldórsson
banner4