Fréttir

06.01.2016

Tré geta bætt kolefnisbúskap landbúnaðar

Ný rannsókn kynnt í Bretlandi

Draga má verulega úr útblæstri vegna landbúnaðar í Bretlandi með því að auka uppskeru af hverri flatarmálseiningu, rækta skóg á landbúnaðarlandi og endurheimta votlendi. Þetta eru niðurstöður nýrrar rannsóknar sem breska ríkisútvarpið BBC greinir frá.

Frá þessu var sagt 5. janúar í frétt á vef BBC og vitnað í nýútkomna fræðigrein í tímaritinu Nature Climate Change. Fram kemur að ef fyrrgreindar leiðir væru farnar og að auki dregið úr matarsóun og kjötneyslu mætti draga úr útblæstri vegna landbúnaðar í Bretlandi um 80% fram til ársins 2050.

Af þeim gróðurhúsalofttegundum sem losaðar eru út í andrúmsloftið í Bretlandi eru 9% rakin til akuryrkju og kvikfjárræktar. Í rannsókninni er talað um að með því að auka uppskeru á hverja flatarmálseiningu lands losni landrými sem nota megi til bindingar koltvísýrings með skógrækt eða til að draga úr losun með endurheimt votlendis.

Rannsakendurnir bæta því við að ef þetta „viðbótarland“ yrði notað til að auka skógarþekju Bretlands úr 12 prósentum í 30 prósent fyrir miðja öldina og endurheimta 700.000 hektara af votlendi væri hægt að ná settum markmiðum landbúnaðarins um að losun koltvísýringsígilda í greininni verði 80 prósentum minni 2050 en var 1990.

BBC hefur eftir Andrew Balmford, prófessor í náttúruverndarfræðum við Cambridge-háskóla, að hver einasta eining samfélagsins verði að draga úr losun. Slík markmið hafi verið sett með lögum og þau felist líka í þeim samþykktum sem undirritaðar voru í París í desember. Balmford er einn greinarhöfunda um þessa umræddu rannsókn. 

Að „losa land“

Í rannsókninni var skoðað hvaða möguleika landbúnaðurinn hefði til aukinna afkasta með núverandi tækni að viðbættri þeirri tækni sem horfur eru á að verði aðgengileg á næstu árum. Árangur aðgerðanna sem lagðar eru til yrði sá að losa mætti landsvæði úr landbúnaðarnotum og nota til annars. Því meiri sem framleiðni landbúnaðarins yrði á hverja einingu lands því meira land mætti losa. Balmford prófessor bendir á að þarna verði að fara saman markmiðin um meiri framleiðni og markmiðin um verndun eða endurheimt náttúrlegra vistkerfa.

Til þess að auka afköst landbúnaðarins var reiknað með að auka þyrfti aðföng á borð við áburð og áveituvatn. Rannsakendurnir ráðfærðu sig við fjölda búvísindafólks og þýfguðu það um álitlegar aðferðir og aðgerðir. Í ljós kom að jafnvel þótt auka þyrfti áburðar- eða vatnsnotkun á hverri einingu lands mætti í mörgum tilfellum búast við því að hver eining tilbúinnar afurðar krefðist minni áburðar- og vatnsnotkunar með aukinni skilvirkni framleiðslunnar.

Af því sem Balmford bindur mestar vonir við nefnir hann sérstaklega kynbættar nytjaplöntur sem nýtt geti betur næringu og vatn og ljóstillífað meira en hefðbundnar nytjaplöntur. Ræktun slíkra plantna gæti leitt til minni heildarútblásturs frá viðkomandi búi. Enn meiru skipti þó að útblástur vegna hverrar einingar af framleiddum afurðum myndi dragast verulega saman. Reiknilíkön rannsakendanna við Cambridge-háskóla benda til þess að ef hámarksárangur næðist myndi það þýða að 30-40 prósent þess lands sem nú er notað til landbúnaðar í Bretlandi myndu losna og verða tiltæk til kolefnisbindingar.

Líffjölbreytni

En skilaboð rannsakendanna eru líka þau að hér sé ekki litið til þess eins að rækta einhæfa kolefnisskóga með hraðvaxta barrtegundum. Álitlegra sé að rækta laufskóga með blönduðum tegundum. Litið var á hvaða áhrif það hefði að rækta nytjaskóga, annars vegar hraðvaxta barrskóga og hins vegar mikið hirta laufskóga þar sem tré væru reglulega felld og látin vaxa upp aftur af teinungum. Balmford segir að báðar þessar leiðir auki vissulega koltvísýringsbindingu umfram náttúrlega skóga en hann telur meira máli skipta að endurgerð náttúrlegra skógarvistkerfa leiði til meiri eflingar líffjölbreytni.

Hvað með Ísland?

Ekki skal sagt til um það hér að óathuguðu máli hversu miklum árangri mætti ná hérlendis með sambærilegum aðferðum. Þó má hafa í huga að landrými er hér mun meira en í Bretlandi og þar með tiltækt land til bæði skógræktar og endurheimtar votlendis. Bindingarmöguleikar hér eru því miklir.

Fréttin á vef BBC
Greinin í Nature Climate Change

Texti: Pétur Halldórsson
banner4