Fréttir

16.12.2015

Vel heppnaður jólamarkaður á Vöglum

Hátt í 400 manns sóttu markaðinn í fallegu vetrarveðri

  • Þessa skemmtilegu mynd tók Jónas Reynir Helgason ofan í kyndil sem brann úti við á Vöglum.

Jólamarkaður var haldinn í fysta sinn á laugardaginn var í starfstöð Skógræktar ríkisins á Vöglum í Fnjóskadal. Handverksfólki í Þingeyjarsveit var boðið að setja upp söluborð og sóttu ellefu um pláss.

Söluvörurnar voru af ýmsum toga, marmelaði, grasöl, leikfangabílar úr tré, jólakort, heimabakstur, reyktur silungur, list- og skrautmunir svo eitthvað sé nefnt. Einnig seldi Skógrækt ríkisins varning úr skóginum, eldivið, köngla, platta, flettiefni, kertastjaka, kyndla og að sjálfsögðu jólatré, greinar og skreytingaefni. Haft var á orði að þarna hefði fólk getað fengið allt til jólanna á einum stað.

Aðsókn að markaðnum var framar öllum vonum og komu hátt í 400 manns í Vaglaskóg þennan dag í frábæru vetrarveðri. Rúnar Ísleifsson skógarvörður telur líklegt að þessi viðburður verði árlegur í skóginum héðan af enda greinilega kærkomin viðbót í jólaundirbúningnum.

Nemendur af unglingastigi Stórutjarnaskóla seldu veitingar á markaðnum til fjáröflunar fyrir ferðasjóð sinn. Gestir á markaðnum voru flestir úr nágrannahéruðum en einnig kom fólk úr Eyjafirði og lengra að enda alltaf gaman að koma í Vaglaskóg, hver sem árstíðin er.

Meðfylgjandi eru myndir sem fið fengum sendar frá markaðsdeginum. Þær tóku Helen Jónsdóttir, Hörður Jónasson Sigrún Jónsdóttir og Jónas Reynir Helgason.

Markaðurinn var haldinn í skemmunni á Vöglum. Mynd: Hörður Jónasson.

Margt var um manninn við söluborðin. Mynd: Helen Jónsdóttir

Fallegt borðtré, plattar og fleira fallegt var til sölu á borði Skógræktar ríkisins.
Rúnar Ísleifsson og Valgerður Jónsdóttir við söluna. Mynd: Hörður Jónasson.

List- og skrautmunir voru líka til sölu. Mynd: Helen Jónsdóttir.

Betra var að vera vel klæddur úti við þennan dag en fallegur var hann.
Mynd: Sigrún Jónsdóttir.

Frosthrímið á trjánum myndaði skemmtilega andstæðu við sólarglætuna
sem sýnir sig stuttan dagpart um þessar mundir. Mynd: Jónas Reynir Helgason.

Raki úr loftinu hlóðst á trén í Fnjóskadal í frostinu sem fór vel niður fyrir tíu stig
laugardaginn 12. desember. Mynd: Jónas Reynir Helgason.

Texti: Pétur Halldórsson
banner4