Fréttir

09.12.2015

Einstök tré í Heiðmörk

Fegurð jólatrjáa afstæð sem önnur fegurð

Af þeim 40.000 jólatrjám sem Íslendingar kaupa á ári, eru aðeins 10.000 íslensk. Hin eru flutt inn. Þetta kom fram í skemmtilegri umfjöllun í Kastljósi Sjónvarpsins í gærkvöld, 8. desember. Þar var annars vegar fjallað um sölu jólatrjáa og þá nýbreytni Skógræktarfélags Reykjavíkur að hvetja fólk til að fá sér öðruvísi jólatré, svokölluð einstök tré, jólatré sem ekki standast hefðbundna staðla um lögun og útlit jólatrjáa en eru falleg á sinn hátt.

Einnig er rætt um vöxtinn í íslenskum skógum undanfarna áratugi og vaxandi verkefni við grisjun. Rætt er við tvo starfsmenn í Heiðmörk, Tinnu Ottesen hönnuð og Gústaf Jarl Viðarsson skógfræðing.

Í kynningartexta með umfjöllun Kastljóss segir enn fremur:

Íslenskir nytjaskógar hafa stækkað mikið undanfarið og víða þarf að grisja mikið. Þar á meðal tré sem eru nokkuð fjarri því að standast þau fegurðarviðmið sem jólatré virðast þurfa að uppfylla. Þau eru kannski margstofna, skökk, bogin eða gisin. Skógræktin hefur nú tekið upp hanskann fyrir þessi tré og selur þau á jólamarkaðnum að Elliðavatni undir samheitinu einstök tré.

Íslensku trén sem eru seld eru vistvæn, þau vaxa bara inni í skógi, laus við skordýra- og sveppaeitur. Það væri hægt að anna mun stærri hluta eftirspurnarinnar eftir jólatrjám, ef fegurðarstaðlarnir væru aðeins aðrir. Nordmannsþinur er vinsælasta jólatréð en það vex ekki hér. Því eru tugþúsundir trjáa fluttar inn, að mestu frá Danmörku. Þessi tegund er vissulega falleg, en það þarf hins vegar að nota mikið af eiturefnum við framleiðsluna og svo þarf að sigla þeim alla leið hingað yfir hafið. 

„Eins erum við líka að reyna að opna fyrir umræðu um fegurðarstaðla á jólatrjám.“

Þetta segir Tinna Ottesen, sem er jólamarkaðsstýra í Heiðmörk, en þar eru einstöku trén til sölu. Tré með karakter, sem mörg myndu ekki lifa inni í skógi til langframa.

Heiðmerkurskógurinn tvöfaldast að rúmmáli

Skógfræðingar hvetja fólk því til að koma í nytjaskógana og höggva sitt eigið tré eða kaupa tilbúið. Í Heiðmörk er til að mynda mikið framboð, enda hefur rúmmál skógarins þar tvöfaldast á síðustu þremur til fjórum árum svo það þarf að grisja mikið. Jólatrjáasalan er líka fjáröflun fyrir skógræktina, fyrir hvert tré sem er selt, eru þrjátíu ný gróðursett.

Hér má svo sá skemmtilegt myndband sem kætir í aðdraganda jólanna. Kannski óþarflega dramatískt - en kitlar hláturtaugarnar, að minnsta kosti hjá skógræktarfólki.

Christmas Tree Farm


Texti: Pétur Halldórsson

banner3