Fréttir

06.11.2015

Er hið fullkomna birkitré fundið?

Fræi úrvalstrjáa safnað á Þórsmörk

Birkifræi var í vikunni safnað af úrvalstrjám í Húsadal á Þórsmörk og Foldum ofan Húsadals. Þar er að finna miklar breiður af ungbirki sem þar hefur sáð sér út undanfarna áratugi. Einnig var safnað greinum til ágræðslu sem nota á til undaneldis við frærækt í fræhúsi. Í leiðangrinum fannst birkitré sem heita mátti að væri gallalaust, einstofna og næstum með „fullkomið“ vaxtarform.

Hreinn Óskarsson, skógarvörður á Suðurlandi, fór þessa Þórsmerkurferð á miðvikudag, 4. nóvember, ásamt Þorsteini Tómassyni plöntuerfðafræðingi. Verkefni ferðarinnar var annars vegar að safna fræjum af úrvalstrjám og hins vegar að safna greinum sem nýta á til ágræðslu og í framhaldinu, undaneldis í fræhúsi. Var farið í Húsadal og Foldir ofan Húsadals en þar má finna miklar breiður af ungbirki sem sprottið hafa upp af fræi á síðustu áratugum.

Er þetta hið fullkomna birkitré? Það er varla nema 12-14 ára gamalt en þó orðið fjórir metrar á hæð, þráðbeint og með mjög fallegt greinahorn, gleitt og svolítið slútandi.

Inn á milli í skóginum má finna beinvaxnar, hvítstofna bjarkir þar sem greinahorn er nokkuð gleitt, jafnvel með slútandi greinar. Oft eru þessi tré hávaxnari en nágrannar þeirra sem bendir til að þau vaxi hraðar. Eitt af trjánum, sem leiðangursmenn rákust á, skar sig nokkuð úr í vaxtarlagi og greinabyggingu. Heita mátti að það væri gallalaust, einstofna og næstum „fullkomið“ í laginu. Það var um 4 m á hæð en varla nema 12-14 ára gamalt sem ber vott um mikinn vaxtarþrótt.

Þorsteinn Tómasson hefur unnið að kynbótum á birki síðustu áratugi og hefur síðustu ár m.a. haft aðstöðu til fræræktunar í stóra gróðurhúsinu á Tumastöðum. Verður spennandi að fylgjast með þeim trjám sem koma upp af fræjum af þessum beinvöxnu birkiplöntum, sem og þeim plöntum sem græddar verða á rót og notaðar til undaneldis.

Texti: Hreinn Óskarsson og Pétur Halldórsson
Myndir: Hreinn Óskarsson

Þorsteinn Tómasson plöntuerfðafræðingur og Hrafn Óskarsson, ræktunarstjóri á Tumastöðum, í gróðurhúsinu þar sem stefnt er að því að frærækta úrvalsklóna af íslensku birki.
Þorsteinn Tómasson klippir ágræðsluefni af fallegu hvítstofna birkitré á Foldum ofan Húsadals á Þórsmörk.

Hér sjáum við greinahornið betur og þráðbeinan vöxtinn.
banner5