Fréttir

16.10.2015

Mikill vöxtur í breskum timburiðnaði tímabundin sæla

Samdráttur í nýskógrækt eftir 1990 leiðir til samdráttar eftir 2030

  • Timbur úr barrviðarskógi í grennd við Inveraray-kastala í héraðinu Argyll and Bute. Timburframleiðsla í Bretlandi var þriðjungi meiri á síðasta ári en 2008. Mynd: Independent/Rex

Timbur! Þetta kall hljómar ekki mikið í íslenskum skógum enn sem komið er. Samt gefa þeir af sér æ meira flettanlegt timbur sem nýta má til margvíslegra smíða. Á Bretlandi er mikill uppskerutími í skógunum þessi árin því á sjöunda áratug síðustu aldar var geysimikið gróðursett þar í landi, mest um 66 milljónir trjáplantna á ári. Timburiðnaðurinn blómstrar því núna en á eftir að verða fyrir bakslagi síðar enda dró stórlega úr gróðursetningu undir lok liðinnar aldar. Ekki ósvipað bakslag getur líka komið í timburiðnaðinn hér á landi í fyllingu tímans ef framlög til nýskógræktar fara ekki að aukast á ný.

Trén sem gróðursett voru upp úr 1960 hafa nú náð þeirri stærð að hagkvæmt er orðið að fella þau til timburframleiðslu. Þetta eru að langmestu leyti barrviðartegundir og árið 2014 féllu til 12 milljónir tonna af timbri í bresku skógunum. Það var meira en nokku sinni samkvæmt upplýsingum frá bresku ríkisskógræktinni, Forestry Commission. Breska blaðið Independent greindi frá þessu á mánudag.

Stóraukin viðartekja

Afraksturinn úr bresku skógunum var þriðjungi meiri á síðasta ári en var árið 2008. Það er að nokkru leyti að þakka aukinni fjárfestingu í timburiðnaðinum og auknum stuðningi stjórnvalda við greinina. Independent hefur eftir Stuart Goodall, yfirmanni ConFor, samtaka fyrirtækja í skógrækt og timburiðnaði, að mikið af þeim barrviðarskógum sem gróðursett var í á sjöunda og áttunda áratugnum hafi nú náð hámarksvexti og þeir séu því tilbúnir til uppskeru. Það taki barrviðartegundirnar um fjörutíu ár að vaxa upp í þá stærð sem hagkvæmast sé að fella þau og nú sé tími þeirra kominn.

Svo vel vill til að hið aukna framboð á timbri í Bretlandi hefur haldist í hendur við vaxandi eftirspurn. Goodall segir að mjög mikið hafi verið fjárfest í timburiðnaðinum að undanförnu og nýjar sögunarmyllur risið. Afkastageta greinarinnar hafi því aukist verulega en með vöruþróun hafi einnig komið á markaðinn betri og fallegri timbuafurðir sem auðveldara sé að vinna úr og meðhöndla. Þar með hafi áhugi Breta á að kaupa innlent timbur aukist.

Barrtrén mikilvægust

Sem fyrr segir er þetta breska timbur að langmestu leyti unnið úr barrviðartegundum. Viður af barrtrjám nemur um 96 prósentum af öllum viði sem framleiddur er í Bretlandi jafnvel þótt barrskógar séu ekki nema um fjórðungur alls skóglendis þar í landi.

Loftslag á Bretlandseyjum er milt og rakt og barrviðartegundir sem þar eru hentugar til ræktunar eru helst ræktaðar í Norður-Englandi, sunnanverðu Skotlandi, vesturhluta Englands og í Wales. Stærstur hluti þess timburs sem framleitt er í Bretlandi er notaður til húsbygginga en einnig er mikið notað af timbri í girðingar og skjólveggi, bæði við heimahús og á bændabýlum, í palla og verandir. Þá fer líka umtalsvert magn af timbri til pappírsframleiðslu, í dagblaðapappír, umbúðapappír og þess háttar.

40.000 störf en samdráttur eftir 15-20 ár

Árlegt umfang timburiðnaðarins í Bretlandi er áætlað vera um 1,9 milljarðar punda sem nemur hartnær 400 milljörðum íslenskra króna. Í greininni starfa um 40.000 manns. Flestir eru skógarnir í einkaeigu og því aðallega einkafyrirtæki sem sjá um skógana og nýtingu þeirra. Meðal stærstu fyrirtækjanna í greininni í Bretlandi nefnir Independent fyrirtækið James Jones & Sons and BSW Timber Group. Það rekur sögu sína allt aftur til 1830 og vinnur nú úr um einni milljón tonna hráviðar á hverju ári. Það rekur fimm sögunarmyllur vítt og breitt um Skotland og framleiðir meira en 500.000 rúmmetra af viði og viðarafurðum árlega. Meðal annars er þetta næststærsti framleiðandi vörubretta í Bretlandi. Forsvarsmenn fyrirtækisins sjá fram á áframhaldandi vöxt þess næstu 15-20 árin.

Eins og gefur að skilja verða engin tré ef ekki er gróðursett. Ljóst er að á fjórða áratug þessarar aldar kemur bakslag í þennan mikla timburiðnað í Bretlandi. Samdrátturinn sem þá er fyrirsjáanlegur verður í sama hlutfalli og sá samdráttur sem varð í nýskógrækt í Bretlandi á síðasta áratug liðinnar aldar, segir Stuart Goodall. Þetta er því sárara ef litið er til þess að sú metframleiðsla sem nú er í breskum timburiðnaði annar ekki nema um 20 prósentum af viðarþörf Breta. Þeir flytja með öðrum orðum inn 80% af því timbri sem notað er í landinu. Bretland er þriðji stærsti innflytjandi timburs í heiminum á eftir Kína og Japan.

Sjöundi áratugurinn var uppgangstími í skógrækt í Bretlandi. Þessum uppgangi má þakka metuppskeru úr breskum skógum á síðasta ári, tólf milljónum tonna af timbri. Mynd: Independent.

Auðlind byggð upp eftir stríðið

Gróðursetning skógarplantna náði hámarki í Bretlandi á sjöunda áratugnum. Þegar mest var voru gróðursettar um 66 milljónir trjáplantna á ári. Þá eimdi enn eftir af þeim timburskorti sem varð vegna seinni heimsstyrjaldarinnar og þörfin brýn að ná upp framboðinu á ný. Yfirvöld beittu meðal annars skattafríðindum til að ýta undir skógræktina og byggja upp timburauðlindina á ný.

Á níunda áratugnum var enn mikið gróðursett þótt heldur hafi verið farið að draga úr. Þá voru settar niður árlega um 55 milljónir plantna en sú tala lækkaði niður í um átta milljónir eftir 1990 og hefur haldist nálægt því síðan. Þar með er þó ekki öll sagan sögð, eftir því sem Stuart Goodall segir, því þau tré sem nú eru gróðursett eru ekki eingöngu gjöful barrtré. Hlutfall lauftrjáa sem gróðursett eru af umhverfissjónarmiðum hefur hækkað og því verður nýtanlegur viður enn minni en tala gróðursettra trjáplantna gæti gefið til kynna.

Misráðin skógrækt kom óorði á greinina

Ein orsökin fyrir því að gróðursetning dróst svo mikið saman sem raun ber vitni er sögð vera svokallað Flow Country hneyksli. Stórfelld ræktun aðfluttra barrviðartegunda á votlendum svæðum í Caithness og Sutherland er sögð hafa þurrkað upp og eyðilagt votlendið. Þetta hafi komið óorði á skógrækt í Bretlandi. Opinber stuðningur gegnum skattkerfið var mönnum hvatning til þessarar skógræktar. Mýrarnar voru plægðar upp og umtalsverður skógur ræktaður. Þessi aðgerð skapaði kærkomin störf í héraðinu en umhverfisverndarfólk reis upp gegn henni. Svo fór að skattaafslátturinn var afnuminn. Það gerði Nigel Lawson lávarður árið 1988 þegar hann var fjármálaráðherra.

En jafnvel þótt öllum hefði átt að vera ljóst að skógrækt í Flow Country væri ekki skynamleg hefði það ekki þurft að leiða til svo mikils samdráttar sem raun varð á því að víða í Bretlandi er að finna mjög hentug skógræktarsvæði eins og Stuart Goodall bendir á í greininni í Independent. Hann segir að breska ríkisskógræktin hafi talað mjög fyrir því við landstjórnirnar í Englandi, Skotlandi og Wales að skógrækt yrði aukin á ný svo draga mætti eins og mögulegt er úr þeim mikla samdrætti sem við blasir eftir fáeina áratugi. Hætt sé við að tilvist margra viðarvinnslufyrirtækjanna sé í húfi og svo geti farið að aftur þurfi að auka innflutning timburs til Bretlands.

Aðeins um fjórðungur breskra skóga er vaxinn barrviðartegundum. Samt gefa þeir um 96% alls timburs sem uppskorið er þar í landi. Mynd: Independent.

Aukning í kortunum?

Í grein Independent kemur fram að samkvæmt upplýsingum frá breska umhverfis-, matvæla- og landbúnaðarráðuneytinu hafi 10.000 hektarar verið teknir til nýskógræktar á þessu ári og því síðasta. Þá hafi árlegt fjárframlag upp á 31 milljón punda verið eyrnamerkt skógrækt undir merkjum nýs átaks um ýsköpun í dreifbýli, Rural Development Programme. Þrettán milljónum punda verði varið til skógarumhirðu og átján til nýgróðursetningar. Þá styðji yfirvöld einnig við átaksverkefnið Grown in Britain sem eigi að stuðla að meiri notkun á bresku timbri og sjálfbærum ræktunaraðferðum. Ekki er ólíklegt að loftslagsumræðan ýti einnig undir raddir sem tala fyrir aukinni skógrækt í Bretlandi sem annars staðar.

Að síðustu hefur blaðið Independent eftir Beatrix Richards hjá Bretlandsdeild samtakanna World Wide Fund for Nature (WWF-UK) að aukin viðarframleiðsla innan lands hljóti að vera jákvæð enda sé skógarþekja í Bretlandi enn allt of lítil af heildarflatarmáli landsins.

Verður svipaður samdráttur á Íslandi?

Þetta leiðir hugann að stöðu mála á Íslandi. Jafnvel þótt tölur um gróðursett tré og unnin tonn af timbri séu litlar hér miðað við Bretland hefur þróun mála ekki verið með öllu ólík á Íslandi. Gróðursetning jókst hér með tilkomu landshlutaverkefna í skógrækt um 1990 og náði hámarki 2007 þegar rúmar 6 milljónir trjáplantna voru gróðursettar á landinu. Við efnahagshrunið dró úr gróðursetningum um helming og þrátt fyrir fögur orð ráðamanna hefur ekki verið aukið við þær á ný enn sem komið er. Þess vegna er útlit fyrir að uppskera úr þeim skógum sem gróðursett var í fyrir hrun leiði til tímabundins vaxtar í íslenskum timburiðnaði þegar þessir skógar fara að gefa af sér afurðir fyrir alvöru. Síðan komi bakslag sem speglar samdráttinn eftir hrunið. Enn er þó mögulegt að draga úr þessu bakslagi með því að efla skógrækt á ný en ekki er skynsamlegt að bíða lengi með að hefjast handa.

Texti: Pétur Halldórsson
banner2