Fréttir

06.10.2015

Nýjar áskoranir fram undan

Rætt við Jón Loftsson skógræktarstjóra í Morgunblaðinu

Jón Loftsson skógræktarstjóri lætur af störfum um næstu áramót en hann verður sjötugur 2. desember. Embætti skógræktarstjóra hefur hann gegnt frá 1. janúar 1990.

Jón varð stúdent frá MR 1967 og starfaði því næst við skógrækt í Danmörku í eitt ár áður en hann hóf nám í skógfræði að Ási og Kóngsbergi í Noregi. Að loknu námi var hann ráðinn aðstoðarskógarvörður á Hallormsstað 1974 og síðan skógarvörður þar 1978. Því starfi gegndi hann allt þar til hann tók við embætti skógræktarstjóra.

Í viðtali í Morgunblaðinu í dag reifar Jón stuttlega þær breytingar sem honum þykja stærstar hafa orðið á árum hans í embætti, meðal annars flutning Skógræktar ríkisins á Fljótsdalshérað, tilkomu landshlutaverkefna í skógrækt og það mikla starf sem fram undan er við grisjun í skógum landsins, meðal annars í Héraðsskógum sem byrjað var að gróðursetja um 1990.

Greinin í Morgunblaðinu er á þessa leið:

   Skógræktarstjórar hafa að meðaltali setið í rúman aldarfjórðung í embætti og um áramót lætur Jón Loftsson af störfum sem skógræktarstjóri eftir 25 ár í starfi. Hann verður sjötugur í desember og verður „úreltur“ mánuði síðar eins og hann orðar það sjálfur.
   Umhverfis- og auðlindaráðuneytið auglýsti embættið laust til umsóknar um helgina og verða aðalstöðvar Skógræktar ríkisins áfram á Fljótsdalshéraði. Fyrirhugað er að sameina allt skógræktarstarf sem heyrir undir ráðuneytið í eina stofnun, þ.e.Skógrækt ríkisins og landshlutaverkefnin í skógrækt (Héraðs- og Austurlandsskógar, Norðurlandsskógar, Skjólskógar á Vestfjörðum, Suðurlandsskógar, Vesturlandsskógar).

Frá Reykjavík til Egilsstaða

   Jón rifjar upp að eitt fyrsta verkefni hans í embætti hafi verið að undirbúa flutning aðalskrifstofu Skógræktar ríkisins frá Reykjavík til Egilsstaða. Sá flutningur hafi ekki verið alveg sársaukalaus og ekki hentað öllum, en tekist hafi að leysa úr þeim vandamálum sem upp komu.
   Nú eru um 50 manns í heilsársstörfum hjá Skógræktinni og eru átta þeirra á aðalskrifstofunni á Egilsstöðum. Starfsmenn eru víða um land, en stærstu starfsstöðvarnar eru á Hallormsstað og Mógilsá.
   „Á einum aldarfjórðungi hafa skógar á Íslandi, náttúrulegir og ræktaðir, ekki stækkað jafn mikið og á árunum frá 1990 eða úr 1,2% lands í um 1,9% og eru samtals í dag 1.906 ferkílómetrar. Þar af hafa ræktaðir skógar, sem voru 6.600 hektarar, stækkað í 40.000 hektara og viðhorf til skógræktar hafa breyst mikið,“ segir Jón.
   Hann segir að með tilkomu landshlutaverkefna hafi verkefni færst frá Skógræktinni, en lög um Héraðsskóga voru sett 1991. Með landshlutaverkefnunum hafi komið aukið fjármagn í skógrækt og aukinn áhugi heimamanna, sem hafi verið lykilþáttur í uppbyggingu. Nú standi fyrir dyrum að sameina þessi verkefni undir hatti Skógræktarinnar.

Hafa vísað veginn

   Jón segir að mikið starf hafi verið unnið síðustu áratugi og góður árangur náðst. Líta megi á Skógrækt ríkisins sem stærsta skógareiganda landsins þar sem þjóðskógarnir eru, en auk þess hafi verkefni síðustu ára mikið falist í ráðgjöf og rannsóknum og að vísa veginn í skógræktinni. Nýjar áskoranir séu fram undan og mikið verk að vinna við grisjun í skógum landsins, en komið sé að grisjun í Héraðsskógum þar sem byrjað hafi verið að gróðursetja um1990.
   Jón hóf störf sem aðstoðarskógarvörður á Hallormsstað 1974 og starfaði þá með Sigurði Blöndal. Jón varð síðan skógarvörður þar 1977.

Í umfjöllun Morgunblaðsins er enn fremur tíundað að skógræktarstjórar hingað til hafi allir setið lengi í embætti. Skógrækt ríkisins hefur starfað frá því að lög voru sett um stofnunina 1907. Fyrsti skógræktarstjórinn, Agner F. Kofoed-Hansen, tók við embætti 1908 og starfaði í 27 ár. Af honum tók við embættinu Hákon Bjarnason sem sat í 42 ár og Sigurður Blöndal var skógræktarstjóri frá 1977 til ársloka 1989. Um leið og Jón Loftsson tók við sem skógræktarstjóri 1990 voru aðalstöðvar Skógræktar ríkisins fluttar frá Reykjavík í Egilsstaði. Ár Jóns í embætti verða reyndar orðin 26 þegar hann lætur af störfum um áramótin, ekki 25 eins og segir í Morgunblaðinu.

 

Texti: Pétur Halldórsson
Frétt: Morgunblaðið
banner5