Fréttir

02.10.2015

Þar sem varla sást í stein fyrir gróðri

Bakhliðar gamalla hundraðkalla til umræðu í Mogga dagsins

Gamlir hundrað króna seðlar eru til umræðu á Baksviði Morgunblaðsins í dag í tengslum við skógrækt í landinu. Birtar eru myndir af gömlum seðlum sem sýna mikið fjársafn renna um skarðið ofan við hamarinn Bringu í Þjórsárdal og vísað til þess að sumum finnist nóg um þann skóg sem upp er vaxinn í skarðinu. Rætt er við Hrein Óskarsson, skógarvörð á Suðurlandi, sem bendir á að Þjórsárdalur hafi verið svo vel gróinn við landnám að þar hafi varla sést í stein og rétt sé að miða við það ástand landsins frekar en hið bágborna ástand þess sem var á fyrri hluta 20. aldar þegar seðlarnir komu út.

Uppblástur ógnaði Þjórsárdal langt fram eftir tuttugustu öld. Þegar unnið var að gerð Búrfellsvirkjunar fyrir hartnær hálfri öld bjuggu þar fjölskyldur allt árið og börn þeirra gengu í skóla í Árnesi. Notaðir voru frambyggðir rússajeppar til að aka börnunum í skólann og heim aftur en það kom fyrir að moldrok væri svo mikið að börnin komust ekki heim. Þá gerðist það ósjaldan að þau fengu að gista á Ásólfsstöðum. Þar býr og er upp alinn Jóhannes H. Sigurðsson, aðstoðarskógarvörður á Suðurlandi. Hann man þá tíð að svartur sandurinn náði langleiðina niður að Ásólfsstöðum en síðan var vörn snúið í sókn og landið hefur gróið mjög hratt upp á síðustu áratugum.

Úr Þjórsárdal. Mynd: Pétur Halldórsson

Nú má víða í Þjórsárdal sjá dæmi um gerðarlegan ungskóg sem er að vaxa upp úr auðninni. Mikið starf hefur til dæmis verið unnið á vegum Hekluskóga að rækta upp á ný skóglendi í Þjórsárdal og víðar í nágrenni Heklu. Í grennd við Ásólfsstaði er nú efnilegur skógur þar sem ekkert var nema svartur sandur fyrir rúmum áratug. Moldarmökkurinn sem áður gat dregið fyrir sólu í dalnum sést ekki meir en upp vaxa verðmætir skógar, bæði birkiskógar sem stækka nú hratt og nytjaskógar með greni, furu og fleiri tegundum.

Ágúst Ingi Jónsson blaðamaður skrifar umrædda grein í Morgunblaðið í dag og hún er á þessa leið:


Iðulega eru skógræktarmenn í Þjórsárdal spurðir hvers vegna tré hafi verið gróðursett í skarðinu á milli Bringu og Hagafjalls í Þjórsárdal. Þar er nú vaxinn ræktarlegur skógur, en ýmsir halda enn fast í þá mynd sem prýddi bakhlið 100 króna seðils frá því á fjórða áratug síðustu aldar og fram um 1970. Þá var trjágróður ekki að finna á þessum slóðum.

Myndin sýndi fjárrekstur sunnan við höfðann og var gerð eftir ljósmynd Ólafs Magnússonar af fjárrekstri. Þessi mynd fór víða á sínum tíma og var meðal annars á Heimssýningunni í New York árið 1939. Byrjað var að gefa út umræddan100 króna seðil vorið 1935. Jón Sigurðsson prýddi framhlið seðilsins, en á bakhlið var teikning af fjárrekstri við Þjórsá, sunnan við höfðann Bringu, gerð eftir ljósmynd Ólafs. Aðallitur var dökkrauður. Í ársbyrjun 1948 tóku nýir seðlar gildi og hafði litum þá verið breytt. Aðallitur á 100 króna seðlinum var nú orðinn blár og voru þessir seðlar innkallaðir 1970 er nýir seðlar fóru íumferð.

Talsmenn skógræktar gefa ekki mikið fyrir þá fortíðarhyggju sem fram kemur í upprifjun á því hvernig umhorfs var í Bringuskarði fyrir hátt í 100 árum. Þeir svara því til að vart hafi sést í stein í Þjórsárdal við landnám og hvort ekki sé nær að miða við þann tíma, frekar en þegar skógur og jarðvegur var í mestri niðurníðslu.

Ekki rekið um skarðið í áratugi

Hreinn Óskarsson, skógarvörður Skógræktar ríkisins á Suðurlandi,hefur þær upplýsingar frá heimamönnum að margir áratugir séu síðan fjársafn Gnúpverja og Skeiðamanna var rekið í gegnum Bringu-skarð, slíkt hafi líklega verið aflagt að mestu fyrir 1970. Fé hafi síðustu hálfa öldina verið rekið eftir þjóðveginum austan við Bringu. Hann segir að ekki hafi heyrst óskir frá fjáreigendum sjálfum um að fá að reka fé í gegnum Bringuskarðið, enda þyrfti þá að þræða milli girðinga frá Skógræktinni, Ásólfsstöðum og bústaða sem eru ílandi Ásólfsstaða nyrst í Bringu-skarðinu. Vegna skógræktar hafi verið girt sunnan við Bringu um 1940, en gömul reiðgata þar sem elsti vegurinn að Þjórsárdal lá, liggi í gegnum skóginn í Bringuskarði.

Birki, ösp og lerki

„Það hefur margt breyst síðan gamla myndin af fjárrekstrinum var tekin,“ segir Hreinn og nefnir að m.a. hafi uppbyggður vegur verið lagður á eyrum Þjórsár sem gróið hafi upp með sjálfsprottnum skógi. „Þegar myndin fræga var tekin var Bringuskarð illa gróið og skriður og rof í Bringu og sjálfu skarðinu. „Í dag er land innan skógræktargirðingarinnar orðið að mestu vel gróið, skriður og rof gróin. Það er að miklu leyti vaxið skógi bæði, sjálf-sprottnum birkiskógi og gróðursett-um með ýmsum tegundum. Töluvert var gróðursett af ösp í land norðan í skarðinu. Síðar var gróðursett birki og lerki austan í sjálfa Bringuna. Landið sé hluti af landi Skógræktarinnar og þarna hafi verið ágætt land til skógræktar. Skógurinn veiti skjól, verndi jarðveg og hamli gegn öskufoki næst þegar Hekla gjósi og ausi ösku yfir Þjórsárdal.

Gróður við landnám

„Vissulega má gagnrýna skógrækt vegna þess að útlit lands breytist, en það er langsótt að mínu mati að halda landi í sama gróðurlitla ástandi og það var á þriðja áratug 20. aldar, svo reka megi fjársafn þar yfir einn dag á ári,“ segir Hreinn. „Ég vil heldur miða við landið eins og það var um landnám, en þá segja heimildir að ,,hvergi hafi sést í stein í Þjórsárdal“, svo mikill var skógurinn. Þó að ekki séu skógar orðnir jafn miklir í Þjórsárdal og þá var, gæti dalurinn og Bringuskarðið orðið svipað þeirri mynd, sem reyndar var aldrei tekin, innan nokkurra áratuga. Það hefði verið gaman að sjá þá mynd,“ segir Hreinn.

Greinin í heild í Morgunblaðinu:

.
banner2