Fréttir

24.09.2015

Námskeið í stígagerð í Goðalandi og Þórsmörk

Nýta má reynsluna úr Þórsmörk víðar um land

  • Hér hefur rofsárum verið lokað, vatnsrásum lokað og gróður af staðnum settur í þau svo náttúran gæti sjálf séð um að ljúka verkinu.

Námskeið í viðhaldi gönguleiða og uppgræðslu jarðvegsrofs í nágrenni gönguleiða var haldið á Goðalandi og Þórsmörk 21.-22. september. Var námskeiðið skipulagt af Landgræðslu ríkisins, Skógrækt ríkisins og Umhverfisstofnun. Þátttakendur á námskeiðinu voru frá nokkrum stofnunum er vinna að gönguleiðamálum á vegum ríkisins auk þátttakenda frá Ferðafélagi Íslands, Skaftárhreppi, Mýrdalshreppi og Landbúnaðarháskóla Íslands o.fl. Ferðaþjónustuaðilar á svæðinu studdu við námskeiðið og var t.d. gisting og fundarsalur í Básum í boði Ferðafélagsins Útivistar.

Á námskeiðinu var farið yfir ýmsa þætti varðandi gönguleiðir, bæði hvaða vandamál er við að eiga á gönguleiðum, s.s. ágang vatns, skriður, lélegt undirlag stíga og aukinn ágang ferðamanna. Enn fremur var farið yfir fjölmargar lausnir sem til eru varðandi viðhald gönguleiða, s.s. gerð vatnsræsa, ofaníburð, tröppu, þrepa- og pallagerð. Skoðaðar voru sérstaklega mismunandi lausnir í efnisvali við viðhald gönguleiða eins og grjót, timbur eða annað. Farið var yfir hvernig færa mætti til gönguleiðir og loka eldri leiðum á mismunandi svæðum. Jafnframt var farið yfir sjálfboðaliðastarf og hvernig staðið er að því að fá áhugasama sjálfboðaliða til starfa við viðhald gönguleiða fyrir ýmsar stofnanir hér á landi. Helstu fyrirlesarar voru Charles J. Goemans frá Skógræktinni, René Biasone frá Umhverfisstofnun, Kári Kristjánsson frá Vatnajökulsþjóðgarði, Dagbjört Garðarsdóttir frá Landslagi, Hreinn Óskarsson frá Skógrækt ríkisins og Jóna Björk Jónsdóttir frá Landgræðslu ríkisins sem bar hitann og þungann af undirbúningi námskeiðsins og skráningu.

Snúið getur verið að eiga við rofsár í miklum halla en þó eru til ýmsar aðferðir sem hjálpa náttúrunni að græða sár sín. Mikilvægt er að hindra vatnsrennsli eins og hér er gert á haganlegan hátt með litlum „stíflum“.

Þátttakendur á námskeiðinu fóru víða um Goðaland og Þórsmörk og skoðuðu þær lausnir sem sjálfboðaliðahópar á vegum Þórsmörk Trail Volunteers hafa unnið að undir stjórn Charles J. Goemans síðustu ár. Voru þátttakendur afar sáttir og bjartsýnir á framtíð viðhalds fjölfarinna gönguleiða eftir að hafa skoðað hvernig gera má einfaldar en endingargóðar lausnir á erfiðum leiðum sem oft liggja um brattlendi.

Stefnt er að því að stofna samtök þeirra aðila sem vinna að viðhaldi gönguleiða víða um land svo hóparnir geti hist, skoðað gönguleiðir víða um land og deilt reynslu í stígagerð. Enn fremur er stefnt að því að endurtaka námskeið í öðrum landshlutum á næstum misserum og verða fulltrúar sveitarfélaga sérstaklega hvattir til að mæta.

Þessi trjábolur vísar vatninu rétta leið og stöðvar þar með rof. Landið grær upp og myndar þéttari þekju sem tekur betur við vatni.

 

Leitast er við að hafa útlit mannvirkjanna
sem náttúrulegast. Trjábolir úr skógum
Skógræktar ríkisins nýtast vel í þessu
skyni. Tröppur úr gagnvörðu timbri myndu
trúlega stinga meira í stúf við landslagið.


Á námskeiðinu skiptist á skin og skúrir. Hér er blíða þar sem þátttakendur skoða sig um á vettvangi og skeggræða um það sem fyrir augu ber.

Fallegur stígur í birkiskóginum. Greinilegt
er að göngufólk heldur sig á stígnum og
gróður utan hans líður ekki fyrir traðk.


Birkið sækir stöðugt fram í Þórsmörk og nágrenni. á árabilinu 1989-2014 stækkaði birkiskóglendið um meira en helming, úr 4 ferkílómetrum í 14.

Þátttakendur á námskeiðinu á bröttum, mjóum
stíg sem felldur hefur verið haganlega inn í
brekkuna. Gróðurinn í kring virðist ekki líða
fyrir ágang göngufólks.

Í Þórsmörk og svæðunum í kring er reynt að fella þrep og önnur mannvirki inn í landslagið. Hér sjást aðeins þrepin sjálf en ekki undirstöðurnar. Þannig líta tröppurnar út eins og þær hafi verið lagðar í landslagið. Staðargróður er tekinn til hliðar meðan á framkvæmdum stendur og sárum lokað með honum að verki loknu.

Með því að búa til stalla á stígum hægir á vatnsrennsli og dregur úr rofi.


Ef stígar eru vel afmarkaðir og skýrir er líklegra að göngufólk haldi sig á þeim og stígi ekki út fyrir.

Texti: Hreinn Óskarsson og Pétur Halldórsson
Myndir: Hreinn Óskarsson
banner2