Fréttir

21.09.2015

Í íslensku skógunum

Gagnvirk margmiðlunarsýning um hlutverk skóga í finnskri menningu

Á gagnvirkri margmiðlunarsýningu sem stendur yfir dagana 21.-27. september í Grófarhúsinu í Reykjavík fá gestir að kynnast því fjölbreytta hlutverki sem skógurinn gegnir í finnskri menningu. Sýningin kallast „Í íslensku skógunum“ og er hluti af menningarhátíðinni Northern Marginal. Gróðri og menningu finnska skógarins er varpað á íslenskt landslag í gegnum tónverk eftir Sibelius, finnska hönnun og list í því augnamiði að vekja okkur til umhugsunar um fjölbreytileikann í skóginum.

Sýningin „Í íslensku skógunum“ verður opnuð í dag, mánudag, klukkan 17 á Reykjavíkurtorgi í Grófarhúsinu við Tryggvagötu og stendur til 27. september. Þetta er gagnvirk sýning þar sem gestum gefst kostur á að kynnast því fjölbreytta hlutverki sem skógurinn gegnir í finnskri menningu. Á sýningunni eru fjögur meginþemu:

  • Finnskir meistarar undir áhrifum frá náttúrunni,
  • Skógur og velferð,
  • Skógur og ferðaþjónusta
  • Skógariðnaður.

Gestir fá að kynnast skógunum með hjálp kvikmynda, ljósmynda, náttúruhljóða, tónlistar, bókmenntaverka, matar og hluta sem tengjast skógarmenningu. Til þess eru meðal annars notuð listaverk eftir tónskáldið Jean Sibelius og listmálarana Pekka Halonen og Akseli GallenKallela sem allir fæddust fyrir 150 árum. Sýningin er hluti af menningarhátíðinni Northern Marginal – Menningarútflutningur með afstöðu!

banner4