Fréttir

14.07.2015

Kalda vorið bælir skaðvaldana

Rætt við Halldór Sverrisson í Morgunblaðinu

Halldór Sverrisson, sérfræðingur á Rannsóknarstöð skógræktar, Mógilsá, telur að kalda vorið í ár geti haft þau áhrif á skaðvalda á trjám að þeir valdi ekki miklum skaða þetta sumarið. Bæði séu minni líkur á að ryðsveppur nái sér á strik að marki og að skordýr valdi miklum skaða. Hann segir meðal annars að minna sé nú af birkikembu á birkitrjánum en var í fyrrasumar.

Rætt er um þetta við Halldór í Morgunblaðinu í dag og einnig um sviðið barr á trjám eftir vindasaman vetur sem leið og einnig um þá kynbótaræktun ryðþolinna asparklóna sem Halldór stýrir. Grein blaðsins er á þessa leið:

Kalt vor kann að hafa í för með sér að minna verði af sjúkdómum og öðrum skaðvöldum í trjágróðri í sumar heldur en var t.d. í fyrra. Halldór Sverrisson, sérfræðingur í plöntusjúkdómum og kynbótum trjáa hjá Skógrækt ríkisins, segir að sein vorkoma verði sennilega til þess að ryð í trjám verði ekki áberandi í ár, þ.e. apsparryð og birkiryð, en langt sumar sé ein forsenda þess að þessir ryðsjúkdómar nái sér á strik. Óáran vegna skordýra sé einnig ólíkleg í ár, en of snemmt sé að fullyrða um það þar sem þessa dagana sé verið að meta stöðuna og þá meðal annars útbreiðslu skordýra. Sérstaklega sé fylgst með útbreiðslu birkikembu og asparglyttu, en þessara tegunda varð fyrst vart hér fyrir um áratug. Útbreiðsla þeirra hefur hægt og bítandi verið að aukast út frá suðvesturhorninu um sunnanvert landið og Vesturland.

Ágengar í fyrrasumar

Í fyrrasumar herjaði asparglyttan á aspir, víði og viðju á höfuðborgarsvæðinu og olli hún talsverðum skemmdum, sérstaklega á víði og viðju. Þessa dagana finnur fólk þessa bjöllu víða í görðum, en hefur oft ekki séð hana áður. Í fyrra var birkikemban einnig mjög ágeng á höfuðborgarsvæðinu, en hún étur blöð birkisins innan frá fyrst og fremst í júnímánuði. Eftir það nær birkið sér á strik aftur með nýjum sprotum og blöðum. Halldór segir greinilegt að mun minna sé af henni núna heldur en í fyrra, hvort sem það sé að þakka köldu vori eða einhverju öðru. Hann segir að það sé þekkt að ákveðnar tegundir skordýra gjósi upp eitt árið, en árið eftir sé miklu minna af þeim án þess að skýringar liggi fyrir. Halldór segir að fólk á höfuðborgarsvæðinu og víða á Suður- og Vesturlandi hafi tekið eftir að stafafura er víða rauðbrún í sumar og barrið sviðið. Í þeim tilvikum sé ekki við skordýr eða sjúkdóma að sakast heldur frekar storma síðasta vetrar þegar oft gerði langvinnar suðvestanáttir. Þetta leiddi til þess að saltúði barst af sjónum með þessum afleiðingum fyrir trén. Þarna er fyrst og fremst um barrskemmdir að ræða og brumin eru óskemmd, þannig að tjónið verður ekki varanlegt. 

Afburðaklóninn Vigfús

Halldór skrifar grein í Ársrit Skógræktar ríkisins 2014 þar sem hann fjallar um  baráttuna gegn asparryði, frá því að þessi blaðsjúkdómur greindist fyrst á alaskaösp hér á landi árið 1999, og árangur í kynbótum gegn asparryði. Í asparklónasafni í Hrosshaga eru nú 40 klónar af alaskaösp með góða ryðmótstöðu. Líklegt er að í safninu í Hrosshaga finnist góðir einstaklingar sem eiga erindi í framtíðarskógrækt. Í safninu eru fjórtán klónar sem allir hafa mikla eða algera ryðmótstöðu og eiga sameiginlegan ættföður. Þessi afburðaklóni ber nafnið Vigfús eins og eigandi  garðsins í Hafnarfirði, þangað sem sprotar voru sóttir er tilraunin hófst vorið 2002. Halldór segir það algengt að klónar í svona verkefnum fái nöfn garðeigenda.

Í innskotsramma með greininni er vitnað í Jón Loftsson skógræktarstjóra sem minnist þess í inngangi að Ársriti Skógræktar ríkisins 2014 að nú eru 25 ár liðin frá flutningi höfuðstöðva Skógræktar ríkisins austur á Fljótsdalshérað.

banner3