Fréttir

13.07.2015

Fyrr og nú - sitkagreni á Snæfoksstöðum

Litlar hríslur og litlir drengir urðu alvöru skógur og glæsimenni, segir faðirinn

  • Hér sitja þeir Hrafn, Úlfur og Örn Óskarssynir innan um sitkagrenitrén sem gróðursett voru í Skógarhlíð á Snæfoksstöðum 1960.
  • Bræðurnir þrír með berjastauka 1. ágúst 1965, frá vinstri: Hrafn, Úlfur og Örn.
  • Hér eru liðin átján ár frá því að fyrstu myndirnar voru teknar og trén orðin hartnær aldarfjórðungs gömul. Myndin er tekin 1983.
  • Glæsilegur árangur á rúmri hálfri öld. Teygst hefur úr bræðrunum en þó ekkert á við trén. Frá vinstri: Hrafn, Úlfur og Örn.
  • Hrafn stillir upp myndavélinni.
  • Úlfur og Óskar í greniskóginum 9. júlí 2015.
  • Óskar í skógrækt sinni í Skógarhlíð á Snæfoksstöðum 9. júlí 2015.

Óskar Þór Sigurðsson, fyrrverandi kennari á Selfossi, hefur starfað að skógrækt í liðlega hálfa öld, ef ekki meira, og unnið ýmis afrek á því sviði. Skemmtilegar myndir frá skógræktarsvæði Óskars í Skógarhlíð á Snæfoksstöðum í Grímsnesi sýna frábæran árangur hans. Ekki er árangurinn minni þegar litið er til þess að Óskar á marga afkomendur sem leggja skógrækt í landinu lið með ýmsum hætti.

Meðfylgjandi eru tvær gamlar myndir sem teknar voru í Skógarhlíð á Snæfoksstöðum fyrir réttum fimmtíu árum, sumarið 1965, og yngri myndir frá sama stað sem sýna vöxt skógarins. Fyrsta myndin er tekin 10. júlí. Þrír litlir strákar sitja við tré, sem gróðursett voru þar sumarið 1960. Þetta eru Hrafn, Úlfur og Örn Óskarssynir. Hrafn er fjögurra ára þegar myndirnar eru teknar, Úlfur sjö ára og Örn níu ára. Allir áttu eftir að koma við sögu íslenskrar skógræktar og vera í fylkingarbrjósti ásamt yngsta bróður sínum, Hreini, sem var ekki fæddur þegar myndin var tekin. Enn eru þeir forystumenn, hver á sínu sviði.

Önnur myndin er tekin 1. ágúst 1965 af bræðrunum á sama stað með berjastaukana sína. Sú þriðja er tekin á sama stað í júlí 1983 og hafa nú trén vaxið þeim yfir höfuð. Í tilefni hálfrar aldar afmælis fyrstu myndarinnar skruppum feðgarnir allir fjórir upp að Snæfoksstöðum á gamla staðinn í Skógarhlíðinni og eru loks eru 4 myndir teknar í 9. júlí inn á milli tránna sem sjást á hinum myndumum. „Nú eru þetta ekki lengur litlar hríslur né litlir drengir, heldur alvöru skógur og glæsimenni á sextugsaldri. Svona líður tíminn og áratugirnir bætast við,“ skrifar Óskar í færslu á Facebook sem hann birti 10. júlí, nákvæmlega hálfri öld eftir að elsta myndin var tekin.

Texti: Pétur Halldórsson
Myndir: Óskar Þór Sigurðsson og Örn Óskarsson
banner3