Fréttir

13.07.2015

Ný sögunarmylla í Þjórsárdal

Viðað í nýtt þjónustuhús fyrir Laugarvatnsskóg þessa dagana

  • Hér sjást nýju Logosol-sagirnar í skemmunni í Þjórsárdal, vinstra megin tifsögin og í forgrunni bandsögin.

Settar hafa verið upp stórviðarsagir í nýju skemmunni á starfstöð Skógræktar ríkisins í Þjórsárdal, bæði bandsög og tifsög. Nýja sögunarmyllan gjörbreytir möguleikum stöðvarinnar til framleiðslu á smíðaviði. Þessa dagana er meðal annars unnið að því að vinna timbur í nýtt þjónustuhús sem rísa mun á næstunni í Laugarvatnsskógi.

Skemman nýja var reist í fyrrahaust og með henni færðist undir þak ýmis starfsemi sem fram að því hafði verið sinnt undir berum himni og í lélegum skúrum. Timburvinnslu verður ekki sinnt með góðu móti utan dyra á Íslandi og aðstöðuleysi hefur fram að þessu sett þessari starfsemi þröngar skorður í Þjórsárdal. Þar eru mikilr greniskógar sem komnir eru á það stig að sífellt meira er hægt að taka út úr þeim af flettingarhæfu efni. Því var algjörlega tímabært að koma upp sögunarmyllu á staðnum.

Hér sjást nokkrar mismunandi afurðir úr sögunarmyllunni, nær til vinstri eru bök en þar fyrir aftan ókantað klæðningarefni. Hægra megin má svo sjá kantað efni, rammíslenskan smíðavið.

Í maímánuði voru sagirnar settar upp í skemmunni, báðar af gerðinni Logosol. Annars vegar er bandsög sem sagað getur svera boli eftir endilöngu og hins vegar svokölluð tifsög sem sagar allt að 18 sm svera stokka í mismunandi þykka planka og borð. Jóhannes H. Sigurðsson, aðstoðarskógarvörður á Suðurlandi og staðarhaldari í Þjórsárdal, segir að úr sverustu bolunum sem teknir eru úr skóginum fáist gjarnan nokkrar gerðir af smíðaefni. Stundum sé til dæmis tekið fyrst ofan og neðan af bolnum og fást tvö bök, fjalir með berki öðrum megin. Síðan megi taka t.dl tvö óköntuð 19 mm þykk klæðningarborð hvorum megin eða þar til stamminn innst í bolnum er kominn í rétta stærð fyrir tifsögina.

Fyrir helgi sögðum við frá því hér á skogur.is að sagað hefði verið sitkagreni í hús sem reist verður eingöngu úr timbri austur í Vallanesi á Héraði. Þar verður aðallega notuð tæplega tvítug alaskaösp af staðnum en einnig sitkagreni af Suðurlandi. Sagað var 8 tomma breitt efni en einnig 5 og 6 tomma sem aðallega verður nýtt í burðarvirki hússins. Jóhannes segir að nýja aðstaðan breyti mjög miklu við verkefni eins og þetta. Ekki hefur verið tifsög í Þjórsárdal hingað til en slík vél þarf að vera á steyptu gólfi og í skjóli fyrir veðri og vindum. 

Með nýju aðstöðunni getur timburvinnsla farið í gang af fullum krafti í Þjórsárdal. Hingað til hefur mest verið unnið þar af óköntuðu efni, borðum sem fá að halda úthliðinni með berkinum og eru talsvert vinsæl í ýmiss konar klæðningar á þök og veggi. Nú gefst færi á að framleiða venjulegt kantað timbur eins og það sem fæst í byggingavöruverslunum. Jóhannes segir að íslenska grenið líti mjög vel út og sé ekkert síðra en það sem fæst í búðunum af sama flokki. Hins vegar verði að koma í ljós hvernig verðið á því stenst samkeppni við innflutt timbur. Eftir sé að sjá hvernig markaðurinn þróast og hverju verður mest spurt eftir.

Og hér er annað sjónarhorn á afurðirnar. Hægra megin er búnaður sem tekur sagið frá vélunum og loftræstir vinnusvæðið.

Nú er beðið eftir byggingarleyfi fyrir nýtt þjónustuhús sem á að rísa í Laugarvatnsskógi eftir verðlaunateikningu úr samkeppni sem haldin var árið 2013 um þjónustuhús í þjóðskógunum. Hreinn Óskarsson, skógarvörður á Suðurlandi, segir að strax og byggingarleyfið sé í höfn verði hafist handa við að gera grunn að húsinu og smíði þessi hefjist vonandi með haustinu. Byggingarstjóri verður Ívar Örn Þrastarson sem er öllum hnútum kunnugur á skógarsviðinu.

Þegar er byrjað að afla timburs í bygginguna. Hún verður eingöngu reist úr íslenskum viði. Meðal annars þarf að nota í hana stæðilega ósagaða stofna sem þurfa að vera 8-10 metra langir og ekki minna en 10 sm sverir í grennri endann. Jóhannes segir að þegar sé kominn álitlegur stafli af slíkum bolum og sömuleiðis er byrjað að saga klæðningarefni á þak hússins í nýju sögunarmyllunni í Þjórsárdal. Áætlað er að þjónustuhúsið nýja kosti um 30 milljónir króna og þegar liggja fyrir fjármunir til hennar að rúmum tveimur þriðju. Styrkir hafa fengist úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða. Meiningin er að sambærileg þjónustuhús rísi í fleiri þjóðskógum á komandi árum.

Það er því greinilegt að nóg er að gera í Þjórsárdalnum þessa dagana. Auk Jóhannesar er þar einn fastur starfsmaður við störf, Ingvar Örn Arnarson, en í sumar bætist þeim liðsauki með þremur dönskum skógtækninemum sem dvelja mislangan hluta úr sumri. Úr Haukadal er svipaða sögu að segja. Þar eru tveir fastir starfsmenn og sumarstarfsmenn eru írskir skógtækninemar.

Texti: Pétur Halldórsson
Myndir: Jóhannes H. Sigurðsson

banner2