Fréttir

10.07.2015

Heilt hús úr íslensku timbri

Viður úr þrítugri ösp stenst kröfur um burðarþol til húsbygginga

Fréttastofa Ríkisútvarpsins sagði frá því í Sjónvarpinu í gær að fyrsta húsið sem reist væri eingöngu úr íslensku timbri myndi senn rísa í Vallanesi á Fljótsdalshéraði. Viðurinn er úr tæplega 30 ára gömlum aspartrjám sem uxu í landi Vallaness. Starfsmenn Skógræktar ríkisins á Hallormsstað unnu viðinn, þurrkuðu og söguðu niður í borð og planka. Valinn asparviður stenst allar kröfur um styrkleika til notkunar í burðarvirki húss sem þessa.

Því má bæta við fréttina að auk asparviðarins verður nýttur í burðarvirki hússins viður af sunnlensku sitkagreni sem unninn er í nýrri sögunarmyllu Skógræktar ríkisins í Þjórsárdal.

Fréttina vann Rúnar Snær Reynisson, fréttamaður Ríkisútvarpsins á Austurlandi, og hún er á þessa leið:

Eymundur Magnússon , bóndi í Vallanesi á Fljótsdalshéraði, ætlar að byggja fyrsta húsið sem er alfarið úr íslensku timbri. Hann þurfti að fá sérstaka skoðun á timbrið til að leyft yrði að byggja úr því 50 fermetra hús yfir lítinn veitingastað.

Í Vallanesi tekur skilti úr heimaræktaðri ösp á móti gestum. Þar reyna bændur að vera sjálfbærir um sem flest og ekki fyrir löngu var gestahús klætt með ösp úr skóginum. „Við sáum þessa sveru stofna og það kviknaði þessi hugmynd í framhaldi af því hafa notað þetta timbur í annað eins og klæðninguna á húsinu hérna á bak við okkur og í skiltið að því skyldum við ekki bara byggja hús alfarið úr þessu timbri,“ segir Eymundur. 

Nú verður 50 fermetra veitinga- og móttökuhús byggt alfarið úr ösp að mestu úr skógi sem plantað var í Vallanesi fyrir 29 árum. Timbrið var sagað og þurrkað hjá Skógrækt Ríkisins á Hallormsstað en að því loknu þurfti að meta hvort timbrinu væri treystandi til að bera uppi heilt hús. Á verkstæðisplani á Egilsstöðum er trétæknir frá Nýsköpunarmiðstöð Íslands að samþykkja timbrið. Þetta er í fyrsta sinn sem íslenskt timbur er viðurkennt formlega sem burðarviður. „Þetta verður sögulegt hús þetta verður fyrsta húsið sem verður byggt úr burðarvið sem er alfarið íslenskur. En vonandi seinna meir þá læra menn að það er hægt að rækta ösp og nota hana sem burðarvirki eins og sést á þessum stæðum sem eru hér fyrir aftan okkur. En það ber að taka það fram að það þurfti að saga mikið úr bolunum áður en þetta varð að þessu efni þannig að það sé nýtilegt sem burðarvirki,“ segir Eiríkur Þorsteinsson trétæknir. 

Það er ekki sama hvernig hugsað er um trén. Grisja þarf skóginn og klippa greinar til að timbrið verði ekki of kvistótt. „Það er svolítið gaman að við skulum vera að nota ösp því margir hafa horn í síðu aspar og telja að þetta sé eldiviður hægt að nota þetta í eldspítur í mesta lagi. En það er alls ekki. Þetta er mjög góður og mjúkur smíðaviður,“ segir Eymundur. 

Húsið verður smíðað í einingum í vetur og verður tilbúið fyrir næsta sumar.

Áður hefur 12 fermetra gamalt hús á Fitjum í Skorradal verið endurnýjað að langmestu leyti úr íslenskum við en í því húsi eru enn stoðir úr upprunalega norska viðnum.banner1