Fréttir

08.07.2015

Ársrit Skógræktar ríkisins komið út

Fullt af spennandi efni

Ýmissa grasa - eða trjáa - kennir í nýútkomnu Ársriti Skógræktar ríkisins fyrir árið 2014. Í ritinu eru margvíslegar greinar um skógrækt og skógarnytjar, fjallað um ástand skóga, rannsóknarverkefni, framkvæmdir og fleira.

Að venju ávarpar Jón Loftsson skógræktarstjóri lesendur með forystugrein undir heitinu Gengið til skógar. Hann rifjar þar upp að nú er aldarfjórðungur síðan aðalstöðvar Skógræktar ríkisins voru fluttar í Egilsstaði. Hann rekur þær breytingar sem gerðar voru á stofnuninni í kjölfarið en einnig þær miklu breytingar sem skógrækt á Íslandi hefur gengið í gegnum síðan. Upp úr standi að nú stundi landeigendur skógrækt fremur en ríkið og mikil aukning hefur orðið á viðarframleiðslu og hvers konar úrvinnslu viðarafurða. Einnig hafi verið mörkuð stefna um skógrækt á 21. öldinni. Fram undan séu spennandi tímar en líka krefjandi verkefni. Hvetja þurfi ungt fólk til dáða, vekja áhuga þess á að hasla sér völl í skógrækt og taka við keflinu af þeim sem eldri eru.

Í Ársritinu er að venju fjallað um heilsufar trjágróðurs á landinu 2014. Edda S. Oddsdóttir og Halldór Sverrisson skrifa um þetta og fram kemur að almennt hafi ástand trjágróðurs á landinu verið gott þótt staðbundnir sjúkdómar eða skordýraplágur hafi skotið upp kollinum. Veturinn hafi þó verið erfiður ungum barrtrjám víða um sunnan- og vestanvert landið, svo og á vestanverðu Norðurlandi, birkiryð áberandi á Vestfjörðum, Norður- og Austurlandi, asparryð í uppsveitum Suðurlands, sitkalús á Suðvesturlandi og birkismugan hélt áfram að dreifa sér um landið.

Ólafur Eggertsson skrifar um verkefnið Woodbio og hlutverk viðarlífmassa í norræna lífhagkerfinu. Nordbio-áætlunin leiðir saman breiðan hóp sérræðinga á Norðurlöndum sem leggja saman krafta sína og vinna að verkefnum sem stuðla að sjálfbærri nýtingu lifandi náttúruauðlinda. Woodbio er hluti af þessari áætlun og beinir spjótum sínum að því að auka fjölbreytni í nýtingu of virðisauka skógarafurða með áherslu á viðarlífmassa.

Birkistofn í Vaglaskógi. Mynd: Pétur Halldórsson.

Endurkortlagningu náttúrulegra birkiskóga og birkikjarrs á Íslandi lauk á árinu 2014 og var það einn af hápunktum ársins hjá Skógræktinni. Björn Traustason, Arnór Snorrason og Bjarki Þór Kjartansson skrifa um þetta efni og tíunda helstu niðurstöður kortlagningarinnar, meðal annars að nú þekja birkiskógar og birkikjarr um 1,5% landsins sem er aukning um 9% eða 130 ferkílómetra frá árinu 1989.

Halldór Sverrisson skrifar grein í Ársritið þar sem hann tíundar árangur í kynbótum gegn asparryði, fjallar um afburðaklóninn Vigfús sem er faðir fjórtán klóna sem allir hafa mikla eða algera ryðmótstöðu. Alls séu nú í safni 40 klónar af alaskaösp með góða ryðmótstöðu, auk þriggja eldri klóna. Líklegt megi teljast að í þessum hópi finnist góðir einstaklingar sem eiga erindi í framtíðarskógrækt og verkefni næstu ára verður að velja þá og taka til fjölgunar.

Þröstur Eysteinsson fór um þjóðskógana haustið 2014 og birtir grein í Ársritinu með fjölda ljósmynda. Greinina kallar hann Svipmyndir úr þjóðskógunum 6.-10. október 2014 og kemur við í tíu skógum. Myndirnar og frásagnir Þrastar gefa til kynna sumt af því sem helst var á döfinni á þeim tíma og mála mynd af útliti og ástandi skóganna. Á greininni sést að margt er að gerast um allt land og skógarnir vaxa og dafna sem aldrei fyrr.

„Ryðfrí“ ösp í safni afkvæma úr víxlunum í kynbótaverkefninu.
Mynd: Halldór Sverrisson.

Þröstur skrifar einnig grein um lokafellingu í íslenskri skógrækt. Grisjun í skógum landsins hefur snaraukist á undanförnum árum og með henni er búið í haginn fyrir lokafellingu gæðatrjáa. Þröstur fer yfir nokkrar mismunandi aðferðir sem koma til greina við lokafellingu, stakfellingu, hópfellingu, rásafellingu, skermfellingu, frætrjáafellingu og rjóðurfellingu. Tíundaðir eru kostir og gallar þessara aðferða. Mismikil reynsla er komin á þessar aðferðir hérlendis og á komandi árum segir Þröstur mikilvægt að safna í reynslubankann og ekki síst að leggja út tilraunir þar sem bornar eru saman mismunandi aðferðir við fellingu og endurnýjun skóga.

Valdimar Reynisson segir í Ársritinu frá fyrstu skrefunum sem þegar hafa verið stigin í tilraun til endurræktunar stafafuru með sjálfsáningu sem nú fer fram í Norðtunguskógi í Þverárhlíð í Borgarfirði. Kanna á hagkvæmni þessarar aðferðar við endurnýjun stafafuruskógar og segir Valdimar að hægt verði að prjóna við verkefnið ýmsar tilraunir með umhirðu og ýmislegt annað sem tengist vexti skógar.

Í Kristnesskógi Úr Kristnesskógi. Mynd: Esther Ösp Gunnarsdóttir.

Átak var gert á árinu 2014 til að bæta aðgengi að Hjálparfossi í Þjórsárdal og verja svæðið fyrir átroðningi ferðafólks. Hreinn Óskarsson skrifar grein um framkvæmdirnar sem hlutu styrk frá stjórnvöldum úr fjárveitingu til uppbyggingar ferðamannastaða. Pétur Halldórsson skrifar um þau tímamót sem urðu í grisjun íslenskra skóga með tilkomu grisjunarvélar á árinu og fer yfir reynsluna af þeim verkefnum sem unnið var að með vélinni á árinu. Rúnar Ísleifsson skrifar grein um nýtingaráætlun fyrir Kristnesskóg í Eyjafirði 2014-2023 og Þröstur Eysteinsson fjallar um öflun stafafurufræs á árinu 2014. Erfitt hafi verið að fá innflutt fræ og því hafi verið gert átak til að safna fræi innanlands. Alls söfnuðust 798 kíló af könglum haustið 2014.

Í Ársritinu er líka lítil grein um ferð Brynjars Skúlasonar og Péturs Halldórssonar í Austurdal í Skagafirði til að kortleggja þar birki. Í dalnum vex birki hæst í 624 metra hæð yfir sjó sem líklega er hæsti vaxtarstaður villts birkis á landinu. Loks tíundar Gunnlaugur Guðjónsson fjármál Skógræktar ríkisins og birtir ársreikning stofnunarinnar.

Ársrit Skógræktar ríkisins 2014 er fáanlegt á starfstöðvum Skógræktarinnar og því má einnig hlaða niður rafrænt hér:

Texti: Pétur Halldórsson
banner2