Fréttir

24.06.2015

Smádýrin í skóginum

Margt annað en eitur er til ráða gegn skaðvöldum á trjám

  • Fullorðið karlfiðrildi haustfeta

Eftir langt og kalt vor er sá tími hafinn þar sem skógar- og garðeigendur fara að taka eftir auknu lífi í gróðri hjá sér. Ekki nóg með að gróður sé allur tekinn að grænka, heldur eru ýmsar aðrar lífverur komnar á kreik, við misjafnan fögnuð mannfólksins. Sumar þessara lífvera eru til mikilla bóta, til dæmis hunangsflugur sem sjá um frævun blóma. Aðrar eiga það til að gerast full nærgöngular við gróður og geta því orðið okkur mannfólkinu til talsverðs ama. Fyrst á vorin ber mest á asparglyttu og haustfeta. Edda S. Oddsdóttir færir okkur fróðleik um málefnið.

Asparglyttan er bjöllutegund sem nýlega nam land á suðvesturhorni landsins. Þaðan hefur hún verið að dreifa sér hægt og rólega. Asparglyttan lifir á víðitegundum og eru viðja og blæösp í sérstöku uppáhaldi. Asparglytta er mikið átvagl og getur aflaufgað heilu skjólbeltin á tiltölulega stuttum tíma. Það er ekki síst vegna þess að fullorðið dýr liggur í dvala á veturna og er snemma komið af stað á vorin. Fullorðna dýrið nýtir sér ný laufblöð víðitegunda til átu. Upp úr miðjum júní verpa kvendýr asparglyttu á eldri laufblöðum sömu trjátegunda. Þar klekjast lirfurnar út og éta blöðin áður en þær falla til jarðar og púpa sig. Úr púpunni kemur svo fullorðinn einstaklingur sem heldur áfram að éta plöntuna. Erlendis getur asparglyttan náð allt að þremur kynslóðum á ári en ekki er vitað hversu mörgum kynslóðum dýrin ná hérlendis. Hins vegar finnast fullorðin dýr hér allt sumarið og fram í miðjan október.

Haustfeti er fiðrildi sem algengt er í birkiskógum og húsagörðum en fyrsti skráði fundur haustfeta var árið 1928 í Þórsmörk. Lirfa haustfetans klekst úr eggi að vori, um leið og brum fara að springa. Hún lifir svo á laufum ýmissa trjátegunda en er ekki síst hrifin af epla- og kirsuberjatrjám. Lirfan vex fyrri hluta sumars og fullvaxta lirfur síga niður í jarðveginn þar sem þær púpa sig. Púpurnar liggja til hausts þegar fiðrildin klekjast úr púpunum og af þessu er heitið haustfeti dregið. Eitt af einkennum haustfeta er að kvendýrið hefur mjög litla vængi og er ófleygt. Því þarf það að klifra upp eftir trjástofnum til að verpa á haustin. Það má því prófa að setja límband á stofn þeirra trjáa sem haustfetinn sækir mikið í, þannig að límhliðin snúi frá stofni, og freista þess að kvendýrin festist í líminu.

Haustfetalirfa.

Eftir því sem líður á sumarið láta fleiri skordýr og sjúkdómar á sér kræla, ekki síst ef hlýtt verður og gott sumar. Hér á vef Skógræktar ríkisins er skaðvaldavefur, hugsaður til að aðstoða fólk við að þekkja hvað er á plöntunum og eins er Náttúrufræðistofnun Íslands með góðan pödduvef . Þá má líka benda á bók þeirra Halldórs Sverrissonar og Guðmundar Halldórssonar, Heilbrigði trjágróðurs, sem gefin var út í fyrra.

Mikið er rætt um varnir gegn hinum ýmsu skaðvöldum í trjágróðri. Rétt er að benda á að eitrun hefur ekki bara áhrif á skaðvaldana heldur drepur öll önnur skordýr, sem flest valda engum skaða og sum hver eru meira að segja mjög gagnleg. Þá má ekki gleyma því að eiturefni eru einnig hættuleg mönnum og því ætti að forðast notkun þeirra eins og mögulegt er.

Nokkur ráð til að viðhalda heilbrigðum trjágróðri:

  • Fjarlægja veikar/veikburða plöntur. Veikburða plöntur geta verið smitberar ýmissa sjúkdóma, auk þess að draga að sér skaðvalda.
  • Heilbrigður, næringaefnaríkur jarðvegur. Plöntur fá næringarefni og vatn úr jarðvegi og því betri sem jarðvegurinn er, þeim mun sterkari verða plönturnar og betur búnar að takast á við áföll.
  • Fækka búsvæðum skordýra og sjúkdóma. Hreinsa garðinn/svæðið af illgresi og rusli. Sum skordýr (t.d. asparglytta) liggja í dvala í gömlum garðúrgangi. Eins geta sumir sjúkdómar legið í dvala á föllnu laufi og því nauðsynlegt að losa sig við það úr garðinum.
  • Passa að bera ekki smit milli svæða. Maðurinn er líklega öflugasti smitberinn og því þarf að gæta vel að því að plöntur sem komið er með á svæðin séu heilbrigðar.

Fullorðin asparglytta.

Áður en eiturefnabrúsinn er keyptur er rétt að prófa að nota heimagerðar blöndur. Rétt er að taka fram að engar vísindalegar rannsóknir hafa verið gerðar hjá Skógrækt ríkisins á virkni þessara aðferða heldur er hér stuðst við reynslusögur ýmissa.

  • Grænsápa, vatn og e.t.v. rauðspritt
  • Sjóða lauf af rabarbara, sía soðið og úða á plönturnar
  • Úða með þangvökva, t.d. Glæði (blanda þá 1:10 eða 1:15)
  • Blanda terunnaolíu (teatree oil) saman við vatn og úða með því
  • Sjóða saman sílepipar (2 msk) og vatn (3 l) , láta standa yfir nótt, sía og bæta dálítilli sápu (ca 6 dropar) út í. Hrist og úðað

Virkni slíkra heimagerðra blandna er yfirleitt minni en hjá eitri og krefst þolinmæði. Í öllum tilfellum á það þó við að ef enginn skaðvaldur sést á gróðri þá er ekki ástæða til að úða, þar sem blandan (hvort sem hún er heimagerð eða eiturblanda) þarf að komast í snertingu við skaðvaldinn til að hafa áhrif.

Hægt er að finna miklar upplýsingar um lífrænar varnir á netinu með því t.d. að leita að „organic pest control“. Dæmi um síður sem koma upp við slíka leit eru:

Annað gagnlegt:

Texti og myndir: Edda Sigurdís Oddsdóttir


 

 

 

 
banner2