Fréttir

23.06.2015

35 ár liðin frá forsetakjöri Vigdísar

Tímamótanna minnst með gróðursetningum trjáplantna um allt land

  • Frú Vigdís Finnbogadóttir. Mynd: Árni Sæberg/Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur.

Frú Vigdísi Finnbogadóttur var ofarlega í huga á forsetatíð sinni að stuðla að skógrækt, landgræðslu og annarri náttúruvernd. Margir minnast þess þegar hún gróðursetti tré hvarvetna sem hún fór um landið en einnig með tignum gestum sínum, meðal annars í Vinalundi á Þingvöllum. Um þessar mundir eru liðin 35 ár síðan þessi góða talskona skógræktar var kjörin forseti Íslands og þess minnast Skógræktarfélög og sveitarfélög um land allt, að sjálfsögðu með því að gróðursetja tré.

Um þetta verkefni sameinast Skógræktarfélag Íslands og Samband íslenskra sveitarfélaga meðal annarra og verða gróðursett þrjú tré á hverjum stað. Þar er farið að fordæmi Vigdísar sjálfrar sem tók upp á því snemma á forsetatíma sínum að gróðursetja þrjú tré á þeim stöðum sem hún heimsótti. Eitt tréð gróðursetti hún fyrir stúlkur, annað fyrir drengi og það þriðja komandi kynslóðum. Vigdís Finnbogadóttir er heiðursfélagi í Skógræktarfélagi Íslands og reglulegur gestur á aðalfundum þess.

Mörg hundruð birkitré verða flutt um landið vegna þessa verkefnis og hefur Eimskip tekið að sér flutninginn. Langflest sveitarfélög landsins taka þátt í verkefninu og verður það unnið í samvinnu við skógræktarfélögin á hverjum stað eða svæði. Birkitrén sem gróðursett verða eru af hinu beinvaxna og hvítstofna yrki 'Emblu' sem er afurð kynbótastarfs áhugasamra manna undir forystu Þorsteins Tómassonar. Trén eru hátt á annan metra að hæð og verða án efa til mikillar prýði á hverjum stað.

frett_06092010_1 Tólf ára gamlar 'Emblur' í Hellisskógi á Selfossi. Hæstu plönturnar höfðu náð yfir 6 metra hæð og það án áburðargjafar.
Mynd: Þröstur Eysteinsson.

Birkitrén verða gróðursett laugardaginn 27. júní en það var 29. júní 1980 sem Vigdís var kjörin forseti Íslands. Fregnir hafa borist af því að sums staðar verði verkefnið víkkað út. Til dæmis segir frá því í héraðsfréttablaðinu Skessuhorni í Borgarnesi að Sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar hafi ákveðið að& gróðursetja 297 birkiplöntur, eina fyrir hvern kvenkyns íbúa sveitarfélagsins. Það verður unnið í samvinnu við Skógræktarfélag Skilmannahrepps.

Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur og Háskóli Íslands í samvinnu við Alþingi, Reykjavíkurborg, Samtök íslenskra sveitarfélaga, framkvæmdanefnd um 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna, Þórshöfn í Færeyjum og fjölmörg félagasamtök standa svo fyrir hátíðardagskrá á Arnarhóli í Reykjavík sunnudaginn 28. júní kl. 19.30. Dagskráin verður blanda tónlistar og talaðs máls og verður send út í beinni útsendingu í Sjónvarpinu.

Texti: Pétur Halldórsson

banner4