Fréttir

04.05.2015

Samantekt af málþingi um Hekluskóga

Erindin aðgengileg á vefnum

  • Björn H. Barkarson, sérfræðingur á skrifstofu landgæða hjá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, flytur erindi sitt á málþinginu. Mynd: Áskell Þórisson.

Málþing um Hekluskóga sem haldið haldið var í Gunnarsholti 16. apríl 2015 tókst með ágætum og var vel sótt. Milli 50 og 60 manns komu á þingið sem hófst með því að Sveinn Runólfsson landgræðslustjóri bauð gesti velkomna og sagði stuttlega frá tilurð Hekluskóga. Tilefni þess að málþingið var haldið er að 10 ár eru síðan undirbúningur Hekluskóga hófst af fullum krafti með skipun samráðsnefndar um Hekluskóga sem vann að undirbúningi verkefnisins. Áður hafði nefnd á vegum Landgræðslu ríkisins starfað í tvö ár að undirbúningi. Hekluskógar tóku formlega til starfa í maí 2007 þegar samningur um verkefnið var undirritaður.

Hekluskógar eru verkefni sem snýst um að græða upp land og rækta birkiskóg. Markmiðið er að koma upp birkilundum sem víðast um hið víðlenda starfsvæði Hekluskóga sem nær yfir 90 þúsund hektara svæði frá Gunnarsholti í suðri allt upp í Sigöldulón í norðri. Munu þessir birkilundir smám saman sá sér út yfir landsvæðið af sjálfsdáðum og hefta öskufok vegna Heklugosa. Þannig munu skóg- og kjarrlendin vernda byggðir og ræktarlönd í lágsveitum.

Friðþór Sófus Sigurmundsson landfræðingur talaði um hvað gerst hefur eftir öskugos og við hverju má búast en einnig um eyðingu birkiskóga í Þjórsárdal á öldum áður. Mynd: Áskell Þórisson..

Á málþinginu voru flutt fræðandi og skemmtileg erindi. Var farið yfir starf verkefninsins síðustu árin og hvernig framkvæmdir hafa verið skráðar í kortagrunn. Einnig var farið yfir starf Landgræðslunnar sem unnið hefur að uppgræðslu á Hekluskógasvæðinu í áratugi. Sagt var frá útbreiðslu birkiskóga og kom fram í máli Björns Traustasonar, landfræðings á Rannsóknastöð skógræktar, Mógilsá, að birkiskógar hefðu náð meiri útbreiðslu á Hekluskógasvæðinu á síðustu áratugum en víðast hvar á landinu. Friðþór Sófus Sigurmundsson sagði frá öskugosum í Heklu og spáði til um framtíðina en fjallaði einnig um eyðingu birkiskóga í Þjórsárdal. Sveinn Sigurjónsson á Galtalæk 2 sagði frá reynslu sinni sem landeiganda í baráttunni við jarðvegsfok og störfum sínum að uppgræðslu. Sagt var frá rannsóknarverkefnum sem hafa verið gerðí tengslum við Hekluskógaverkefnið á síðustu árum af Ásu L. Aradóttur, prófessor við LBHÍ. Heiða Gehringer sagði frá rannsókn sinni á líffræðilegum fjölbreytileika þar sem fram kom að aukning væri á bæði skordýralífi og fuglalífi á grónu landi samanborið við ógróið land. Elín Fjóla Þórarinsdóttir sagði frá mælingum á öskufoki á Hekluskógasvæðinu og möguleikum á að nýta þekkingu á öskufokinu til að skipuleggja uppgræðslustarf.

Þessa dagana er verið að undirbúa gróðursetningu vorsins, en vorkoman er heldur seinni á ferðinni en síðustu ár. Verkefnið stefnir að gróðursetningu um 280 þúsund plantna í ár. Áburðardreifing verður aukin, bæði með kjötmjöli og tilbúnum áburði. Landgræðsla ríkisins styður við verkefnið með áburðardreifingu yfir eldri gróðursetningarsvæði þetta vorið sem er kærkomið. Fjöldi sjálfboðaliðasamtaka heldur áfram stuðningi við verkefnið sem og þeir rúmlega 210 landeigendur sem hafa gert samning við verkefnið. Má því segja að verkefnið sé á góðri siglingu þessi árin.

Hér fyrir neðan má sjá upptökur af erindum af málþingi Hekluskóga sem haldið var 16. apríl 2015.

Dagskrá

11:00 Gestir boðnir velkomnir. Sveinn Runólfsson

11:10 Endurheimt vistkerfa – hvers vegna, hver og hvernig? Björn H. Barkarson

11:25 Hvað hefur gerst og við hverju má búast eftir gjóskugos? Friðþór S. Sigurmundsson

11:45 Uppgræðsla Landgræðslunnar á Hekluskógasvæðinu. Sveinn Runólfsson

12:45 Útbreiðsla og eyðing birkiskóga í Þjórsárdal. Friðþór Sófus Sigurmundsson

13:05 Hekluskógaverkefnið – saga, aðferðir, framkvæmdir, árangur og framtíð. Hreinn Óskarsson

13:35 Kortlagning framkvæmda. Ívar Örn Þrastarson

13:50 Reynslusaga landeiganda. Sveinn Sigurjónsson

Rannsóknir á Hekluskógasvæðinu

14:05 Yfirlit yfir rannsóknir fyrir Hekluskóga. Ása L. Aradóttir og Guðmundur Halldórsson

14:25 Birkiskógarnir breiðast út að nýju! Björn Traustason

14:45 Líffræðilegur fjölbreytileiki í Hekluskógum: Hlutverk jarðvegseyðingar og framvindu. Heiða Gehringer

15:00 Sandburður á Hekluskógasvæðinu. Elín Fjóla Þórarinsdóttir

Texti af vef Hekluskóga: Hreinn Óskarsson
Myndir: Áskell Þórisson
banner1