Fréttir

17.03.2015

Stormfall á Vesturlandi

Skógur gjarnan viðkvæmur fyrst eftir grisjun

  • Sum trén brotnuðu ekki alveg í sundur

Nokkrar skemmdir urðu á skógum vestan lands í óveðrinu sem gekk yfir landið laugardaginn 14. mars. Nýgrisjaðir skógar eru gjarnan viðkvæmir fyrir stórviðrum meðan trén sem eftir standa eru að styrkja rótarkerfi sitt. Stormfall er því óhjákvæmilegur fylgifiskur grisjunar í þroskuðum skógum þótt það sé enn nokkurt nýnæmi í hugum Íslendinga.

Í stormskýrslu frá Valdimar Reynissyni, skógarverði á Vesturlandi, kemur fram að umrætt óveður hafi valdið ýmsum skemmdum í sveitum vestan lands, ekki aðeins á mannvirkjum heldur einnig á skógum. Engar skemmdir urðu á húsakosti Vesturlandsdeildar Skógræktar ríkisins en nokkrar skemmdir urðu á skógi, aðallega á tveimur stöðum, Stálpastöðum í Skorradalog Norðtunguskógi í Þverárhlíð í Borgarfirði.

Bergfura og sitkagreni brotnaði á Stálpastöðum

Tveir reitir á Stálpastöðum í Skorradal urðu sérstaklega illa úti í ofviðrinu. Annars vegar brotnuðu tré illa í bergfurureit sem nýlega hafði verið grisjaður hressilega. Þar lagðist eða brotnaði um helmingur af þeim trjám sem eftir stóðu.

Fallnar bergfurur.

Svona var umhorfs í bergfurureitnum á Stálpastöðum.

Stikagrenireitur við gryfju austast í Stálpastaðaskógi varð líka illa úti í storminum. Svo virðist sem mikill strengur hafi myndast á afmörkuðu svæði og myndað stóra geil inn í skóginn. Þarna er stöndugt sitkagreni, allt að 20 metra hátt og í storminum féllu mörg falleg og góð tré. Hvað valdið hefur þessum afmarkaða streng telur Valdimar ekki gott að segja en leiða megi líkum að því að gryfjan eigi hlut að máli. Hún hafi hreinlega vísað vindinum í einn farveg sem hafi margfaldað kraft vindsins. Á myndinni hér fyrir neðan sem sýnir inn í geilina úr gryfjunni má sjá að geilin er nokkurn veginn í beinni línu við langhlið gryfjunnar.

Séð inn í geilina úr gryfjunni.

Séð inn í geilina af gryfjubrúninni.

Svona var umhorfs inni í geilinni.

Geilin séð frá hlið. Trén þverbrotna og leggjast flöt undan vindinum.

Stafafura féll í Norðtunguskógi

Í Norðtunguskógi varð aftur á móti mikið fall í furunni sem grisjuð var mjög hressilega í haust. Fá tré standa eftir á svæðinu þar sem áttu að verða 100 tré á ha að grisjun lokinni en heldur fleiri þar sem 200 tré áttu að standa eftir á ha. Hlutfallslega meira af trjám féll samt sem áður á síðarnefnda svæðinu að þessu sinni.

Þessi fura hefur fallið á rót.

Brotin fura í Norðtunguskógi.

Í sitkagrenireit sem grisjaður var í Norðtungu á síðasta ári féll frekar lítið af trjám en nokkur þó og virtist fallið vera á afmörkuðum svæðum hér og hvar í skóginum.

Allt á tjá og tundri eftir veðurofsann.

Úr grenireitnum sem grisjaður var í Norðtunguskógi í haust.

Þegar þetta er skrifað er ekki vitað um mikið fleiri skemmdir enda ekki búið að fara í alla skóga en reikna má með að þetta séu mestu skaðarnir á starfsvæði skógarvarðarins á Vesturlandi. Eftir er að skoða skógana á Arnbjargarlæk og vestur í Dölum en það verður gert á næstu dögum.

Heimild og myndir: Valdimar Reynisson
Texti: Pétur Halldórsson


 
banner2