Fréttir

09.02.2015

Tré best til bjargar heiminum

Vísindamenn í Oxford mæla með skógrækt frekar en dýrri tækni

  • Sjálfgræðsla rauðgreniskóga í Rodna-fjöllum í Rúmeníu.

Vísindamenn við Oxford-háskólann á Englandi hafa lýst því yfir eftir eins árs yfirlegu og rannsóknir að þeir hafi fundið vænlegasta tækið sem mannkynið hefur tiltækt til að ná koltvísýringi úr andrúmsloftinu og ná tökum á hlýnun jarðar. Það eru tré. Frá þessu greindi viðskiptafréttaveitan Bloomberg á vef sínum 3. febrúar.

Við athuganir sínar rýndu vísindamennirnir í ýmsar þær aðferðir sem reyndar hafa verið og lagðar til í því skyni að minnka hlutfall koltvísýrings í lofthjúpi jarðar, allt frá beislun kolefnis í verksmiðjum og raforkuverum upp í að fanga koltvísýring beint úr andrúmsloftinu eða blanda kalki í heimshöfin til að auka kolefnisupptöku þar.

Engin aðferð virtist lofa jafngóðu og gróðursetning trjáplantna. Samhliða skóggræðslu var talið skynsamlegt að baka úrgangsvið og gera úr honum svokölluð lífkol (biochar) og nota þau til að auðga jarðveg. Í samanburði við aðrar aðferðir reyndist nýskógrækt og lífkolagerð úr úrgangsviði til jarðvegsbóta vera ódýrari leið, minni vafi um árangur og betra fyrir umhverfið.

Í greinargerð vísindamannanna um rannsóknina tala þeir um að nú þurfi stjórnvöld að sjá til þess að þessar tvær aðferðir verði notaðar meira því ekkert betra sé tiltækt nú þegar sem raunhæft sé til árangurs fram til ársins 2050.

Umrædd rannsókn kemur í kjölfar skýrslu sem Oxford-háskóli sendi frá sér í nóvembermánuði þar sem niðurstaðan var á svipaða lund, að engin galdralausn væri fólgin í því að nota lífverkfræðilegar aðferðir eins og að dreifa salti eða súlfötum út í andrúmsloftið til að endurkasta sólarljósi frá jörðinni. Milliríkjanefnd Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál talaði í apríl á síðasta ári um nauðsyn þess að ná gróðurhúsalofttegundum úr lofthjúpnum til að draga úr þeirri hættu sem er yfirvofandi af völdum loftslagsbreytinga.

Fram kemur í gögnum háskólans að fram til ársins 2050 sé gerlegt að ná úr lofthjúpnum koltvísýringi sem samsvarar tveggja og hálfs árs útblæstri jarðarbúa, aðallega með nýskógrækt, lífkolagerð og uppbyggingu kolefnisforða í jarðvegi. Flestar aðrar þekktar aðferðir séu enn mjög dýrar og útheimti mikla orku, mikil óvissa sé um árangurinn af þeim og mörg vandamál enn óleyst. Auðveldara sé að fá jarðarbúa til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda en að ná árangri með flóknum og dýrum tæknilausnum.

Eftir miðja öldina er aftur á móti talið mögulegt að meiri árangri megi ná með tæknilegri aðferðum. Því sé skynsamlegt að haldið verði áfram að leggja fé í þróun þeirra svo líklegra sé að þær verði tiltækar þegar þeirra verður þörf. Verði slíkar lausnir tiltækar í fyllingu tímans megi mennirnir þó ekki líta svo á sem þeir geti áfram lifað eins og við höfum gert. Tækni sem gerir kleift að binda kolefni úr andrúmsloftinu eigi ekki að verða til þess að framlengja hið olíu- og koladrifna hagkerfi sem við búum við núna, segir í niðurstöðum rannsóknar vísindafólksins í Oxford.

Texti og mynd: Pétur Halldórsson
Heimild: Bloombergbanner4