Fréttir

13.01.2015

Díselolía úr trjáviði

Fyrsta verksmiðjan í heiminum komin í gagnið í Finnlandi

  • Fyrsta verksmiðjan í heiminum sem framleiðir lífdíselolíu úr aukaafurðum timbur- og pappírsiðnaðarins

Fyrsta verksmiðjan í heiminum sem framleiðir díselolíu úr trjáviði hefur verið gangsett í Lappeenranta í Finnlandi. Við framleiðsluna er notað endurnýjanlegt hráefni sem fellur til sem aukaafurð við pappírsframleiðslu. Vél eða farartæki sem gengur fyrir lífdíselolíu sem þessari losar um 80% minna af gróðurhúsalofti en vél sem gengur á hefðbundinni díselolíu.

Borgin Lappeenranta er í suðaustanverðu Finnlandi, skammt frá landamærunum að Rússlandi. Verksmiðjan heitir UPM Lappeenranta Biorefinery og við framleiðsluna er notuð sérstök vetnismeðhöndlun (e. hydrotreatment) þar sem efnaferli með vetni er notað til hreinsunar. Aðferðin var þróuð hjá fyrirtækinu UPM Biorefining sem stefnir að því að verða í forystu við framleiðslu lífeldsneytis úr trjáafurðum í heiminum. Gert er ráð fyrir því að verksmiðjan í Lappeenranta framleiði um 120 milljónir lítra af endurnýjanlegri díselolíu á ári. Olían kallast UPM BioVerno og er unnin úr afgangshráefni frá skógarhöggi og viðarvinnslu.

Frétt um málið birtist í dag á vefnum pulppapernews.com sem er fréttaveita um pappírskvoðu- og pappírsiðnaðinn. Þar er haft eftir Heikki Vappula, framkvæmdastjóra UPM Biorefining, að verksmiðjan í Lappeenranta sé fyrsti áfanginn í uppbyggingu nýs og framsækins framleiðsluiðnaðar í Finnlandi og tengist þeim breytingum sem séu í gangi í skógariðnaðinum. Hún sé líka kjölfestan í nýrri stefnu fyrirtækisins.

Sem fyrr er greint er Verksmiðjan sú fyrsta sinnar tegundar í heiminum. Olían er framleidd úr efni sem við gætum kallað furuolíu á íslensku en kallast tallolja á sænsku til dæmis og tallol á ensku. Efni þetta verður til við svokallað Kraft-ferli í pappírskvoðuframleiðslu, einkum þegar unnið er úr viði barrtrjáa. Megnið af þeirri furuolíu sem notuð verður við framleiðslu lífdíselolíunnar fellur til í pappírsverksmiðjum UPM í Finnlandi.

Endurnýjanleg lífdíselolía sem þessi minnkar losun gróðurhúsalofts frá vél eða ökutæki um 80 prósent miðað við hefðbundna díselolíu úr jarðolíu. Rannsóknir sýna að UPM BioVerno olíuna má nota á allar vélar sem ganga á venjulegri díselolíu. Gerður hefur verið samningur um dreifingu og sölu olíunnar við olíudreifingarfyrirtækið NEOT (North European Oil Trade).

Þróun olíunnar og þeirrar tækni sem þurfti til að gera þetta að veruleika hefur tekið mörg ár. Hér er fundin leið til að nýta endurnýjanlegt hráefni í stað jarðolíu til eldsneytisgerðar. Uppsetning lífdíselverksmiðju UPM kostaði 175 milljónir evra. Framkvæmdir hófust sumarið 2012 og í nóvember sama ár var lagður hornsteinn að byggingunni. Nærri tvö hundruð manns unnu við framkvæmdirnar um tveggja ára skeið en þegar verksmiðjan er komin í fullan rekstur starfa þar nærri fimmtíu manns og afleidd störf eru áætluð um 150 talsins.

Byggt á frétt pulppapernews.com
Texti: Pétur Halldórsson
banner4