Fréttir

09.01.2015

Skógarnir leysa olíuna af hólmi

Myndband um spennandi framtíð

Skogsindustrierna, samtök skógariðnaðarins í Svíþjóð, hafa tekið höndum saman með rannsóknarstofnuninni Innventia og gert myndband þar sem kynnt er hvernig útlit er fyrir að trjáviður verði nýttur á komandi árum til framleiðslu á líklegustu og ólíklegustu vörum en líka hvernig slík nýting þokar okkur nær lífhagkerfi framtíðarinnar. Heimurinn stendur nú frammi fyrir ýmsum brýnum og vandasömum úrlausnarefnum en skógurinn gefur endurnýjanlegt, lífrænt hráefni sem nýta má til að leysa ýmis þessara úrlausnarefna.

Allt sem nú er framleitt úr olíu er hægt að framleiða úr hráefnum úr skógi. Í framtíðinni verður til dæmis hægt að búa til tölvu- eða sjónvarpsskjái úr pappír, veggmyndir sem lýsa í myrkri eða umbúðir sem gefa frá sér hljóð þegar komið er að síðasta neysludegi matvöru. Helena Halonen, yfirmaður New materials and functions Packaging Solutions hjá Innventia AB, heldur í myndbandinu innblásna tölu um möguleikana. Smellið á myndina hér fyrir neðan til að sjá myndbandið.

Myndbandið Framtidens produkter av skog

Ef þetta dugir ekki til að fullnægja forvitni þinni, lesandi góður, geturðu litið inn á vefsíðuna EkoPortal 2035 þar sem finna má ótal hugmyndir sem gætu orðið að veruleika á allranæstu árum.

Texti: Pétur Halldórsson
banner2