Fréttir

07.01.2015

Fréttabréf frá Skoven i Skolen

Uppreisn gegn fastmótuðu skólastarfi í augsýn?

Í nýju tölublaði fréttabréfs danska útikennslusambandsins Skoven i Skolen er fjallað um árekstra aukinnar viðveruskyldu og kennslustundafjölda kennara við skipulagningu sveigjanlegs skólastarfs á borð við útikennslu. Sagt er frá væntanlegri fræðslumynd um útiskóla, hvernig nota má köngla við stærðfræðikennslu og margt fleira.

Lasse Bak Sørensen, einn reyndasti útiskólakennari Danmerkur, skrifar grein í fréttabréfið og reifar meðal annars þær breyttu kröfur sem nú eru gerðar til kennara um viðveru í skólanum og fjölda kennslustunda. Hann telur að hann hefði ekki haft tíma til þess uppbyggingarstarfs sem hann vann á sínum tíma ef þær reglur um vinnuskyldur kennara sem nú gilda hefðu verið í gildi þá. Sveigjanleikinn sé mun minni nú til að bregða út af hefðbundnu skólastarfi, til dæmis með útikennslu. Lasse telur að uppreisn gegn þessu fastmótaða formi sé í augsýn.

Þá segir í fréttabréfinu að innan skamms verði frumsýnd bandarísk fræðslumynd um útiskóla. Leiðbeinandinn Daniel Stilling sé að leggja lokahönd á myndina sem á að heita NaturePlay. Í henni er fjallað um útiskóla og skógarleikvelli í Danmörku, Noregi og Svíþjóð. Myndin verður frumsýnd vestan hafs innan tíðar.

Margt fleira má lesa um í fréttabréfinu, meðal annars hvernig hægt er að nota köngla í stærðfræðikennslu, tíundaðar ellefu aðferðir sem nota má úti til að rannsaka hljóð, fjallað um stjörnuskoðun myrka vetrarmánuði, hvernig nýta má notuðu jólatrén til ýmissa verkefna, sagt frá námskeiði um skógarhögg og viðarnytjar þar sem skoðaðir eru árhringir og sögulegir atburðir í leiðinni, leiðbeint um hvernig sjóða má súpu úti í skógi og fleira.

Skoven i Skolen er samvinnuverkefni milli danska skógarsambandsins Dansk Skovforening, Friluftsrådet sem eru regnhlífarsamtök um náttúru, umhverfi og útilíf, danska menntamálaráðuneytisins, dönsku umhverfisstofnunarinnar Naturstyrelsen og Træ.dk sem er fræðslu- og upplýsingavefur danska timburiðnaðarins.

Texti: Pétur Halldórsson
banner5