Fréttir

25.08.2014

Aspir mjög „ryðgaðar“ í uppsveitum Suðurlands

Ráðlegt að nota ryðþolna asparklóna þar sem saman vex ösp og lerki

  • Hér sést ryðsveppurinn vel á blöðum alaskaaspar.

Mikið ryð er nú í ösp víða í uppsveitum á Suðurlandi. Einkum ber á þessu í skógum og lundum sem gróðursettir voru fyrir árið 1999, en þá varð fyrst vart við asparryðið hér á landi. Fyrir þann tíma var lerki gjarnan plantað í bland við ösp. Eins og flestum er kunnugt er lerki millihýsill fyrir ryðið. Í maí og júní dreifist smitefnið frá lerki yfir á blöð asparinnar en yfir sumarið dreifist það á milli aspartrjáa. Versti ryðfaraldurinn til þessa var sumarið 2010, en ástandið nú er jafnvel verra en þá. Sumarið 2011 mátti víða sjá kalsprota sem voru afleiðing ryðsins árið áður. Ástæða er til að óttast að svipað gerist nú. Annars verður afleiðingin minni vöxtur á næsta ári en eðlilegt er.

Þar sem skaðleg áhrif ryðsins á vöxt alaskaaspar eru nú orðið vel þekkt er þess nú gætt að blanda lerki og ösp ekki saman í gróðursettum skógum. En minna er um að skógareigendur felli lerki þar sem því hefur áður verið plantað innan um ösp. Ef ætlunin er að nýta öspina er auðvitað æskilegt að vöxtur hennar verði góður og áfallalaus.

Blandskógur aspar og lerkis býður hættunni heim.

Sé lerkið hins vegar aðaltegundin er óþarfi að hafa áhyggjur af ryðinu vegna þess að ryðsveppurinn skaðar lerkið ekki. Á Suðurlandi, þar sem ryðið er mest, er rússa- og síberíulerki varla framtíðartré til nýtingar. Þar er það víðast hvar hrjáð af lerkibarrfelli, átuskemmdum og tíðu vorkali. Vöxtur verður því lítill og vaxtarform lélegt. Alaskaöspin er aftur á móti hraðvaxta á því svæði og nú er góður markaður fyrir afurðir hennar.

Nokkur áhugi er á því að rækta evrópulerki eða blendinga þess og rússalerkis í skógum á sunnanverðu landinu. Líklegt er að þær tegundir séu jafnáhrifamiklir millihýslar fyrir ryðið og rússalerkið er. Vilji skógræktendur hafa bæði lerki og ösp í skógi sínum væri lausnin sú að gróðursetja einungis asparefnivið með gott ryðþol. Fyrir allmörgum árum var hafist handa á Mógilsá við að kynbæta öspina með það fyrir augum að fá fram „ryðfría“ klóna.

„Ryðfrí“ ösp í safni afkvæma úr víxlunum í kynbótaverkefninu.

Nú virðist þetta kynbótaverkefni ætla að skila nokkrum klónum sem fá nánast ekkert ryð. Nauðsynlegt er að þeir vaxi einnig vel og séu aðlagaðir veðurfari ef þeir verða teknir til ræktunar á því svæði þar sem ryðið er verst. Ryðþolin ösp kæmi sér einnig vel fyrir sumarhúsaeigendur sem gjarnan vilja hafa fjölbreyttan trjágróður á lóðum sínum. En ef asparræktunin fer fram fjarri lerkilundum eða á svæðum þar sem ryð hefur hingað til ekki verið vandamál mætti velja vaxtarmikla klóna til rækturnar án tillits til ryðþols. Það er þó alltaf öryggi í því að vera með ryðþolinn efnivið, því ekki er auðvelt að sjá fyrir breytingar á veðurfari og landnotkun til langs tíma.

Allt lauf var visnað á þessum öspum 13. ágúst 2014.

Texti og myndir: Halldór Sverrisson
banner1