Fréttir

25.08.2014

Hindberjaskógur á Hallormsstað

Einn fjölmargra möguleika sem skógarnir gefa okkur

Rúnar Snær Reynisson, fréttamaður Ríkisútvarpsins á Austurlandi, hitti Bergrúnu Örnu Þorsteinsdóttur aðstoðarskógarvörð í myndarlegum hindberjaskógi á Hallormsstað og gerði skemmtilega frétt um hindberjarækt í skógi. Fréttin er á þessa leið á vef Ríkisútvarpsins:

Hindber gætu orðið skemmtileg viðbót við berjaflóruna hér á landi. Skógur af hindberjarunnum breiðir úr sér á Hallormsstað og sífellt fleiri uppgötva leynistaði í skóginum þar sem þessi gómsætu ber er að finna. Skógræktin segir berin vel geta þrifist villt við réttar aðstæður.

„Við gróðursettum fyrir líklega 30 árum hindber á tveimur stöðum hérna í trjásafninu sem hafa smámsaman verið að dreifa sér og eru orðið svona hindberjaskógur í dag,“ segir Bergrún Arna Þórsteinsdóttir, aðstoðarskógarvörður Skógræktar ríkisins á Hallormsstað.

Það skemmtilega við hindberin er að runninn þroskar ekki öll berin í einu. Því er hægt að tíma oft af sama runnanum og margir geta fengið. Hallormsstaður er reyndar ekki eini staðurinn þar sem hindberaplantan dreifir sér villt á Íslandi en víða þar sem hún þrífst er tilvist hennar haldið leyndri.  

„Hún er til hér og þar á landinu í skógum og þrífst ágætlega undir birkiskermi en það má ekki vera of þétt yfir henni. En þar sem hún hefur ljós og næga næringu þar lifir hún vel,“ segir Bergrún. Hindberjaplantan myndar ekki ber fyrr en á öðru ári og drepst þegar hún er orðin fimm eða sex ára gömul. Til að komst í berin þarf að vaða inn í runnann og þá gildir að traðka ekki niður rótarskotin sem viðhalda hindberjaskóginum. „Þessi skógur hér hann hefur magnast núna síðustu tíu árin og er alltaf að stækka. Svo er þetta bara skemmtileg planta. Hún nær í tveggja metra hæð svoleiðis að maður getur týnst í hindberjaskógi,“ segir Bergrún. 

Smellið hér til að horfa á fréttina
banner5