Fréttir

11.08.2014

Eyðing Þjórsárdalsskóga rædd í Útvarpinu

Hallgrímur Thorsteinsson útvarpsmaður ræddi í morgun við Friðþór Sófus Sigurmundsson, landfræðing og doktorsnema, um eyðingu Þjórsárdalsskóga. Viðtalið var í þættinum Sjónmáli á Rás 1. Friðþór er er einn þriggja höfunda fræðigreinar um eyðingu birkiskóga Þjórsárdals á 350 ára tímabili sem við höfum sagt hér frá á vefnum. Um viðtalið segir þetta á vefsíðu Sjónmáls:

Ofnýting birkiskógarins í Þjórsárdal var ein stærsta ástæða þess að skógurinn hvarf að mestu á um 14.000 hektara svæði í dalnum frá seinni hluta sextándu aldar fram á þá tuttugustu. Biskupsstóllinn í Skálholti og lénskirkjur hans áttu stóran þátt í ofnýtingunni sem leiddi til gróðurhamfara.

Um þetta fjalla þrír íslenskir vísindamenn í grein sem nýkomin er út í tímaritinu Human Ecology og sagt er frá á vef Skógræktar ríkisins. Höfundar greinarinnar eru þau Friðþór Sófus Sigurmundsson, landfræðingur og doktorsnemi við Háskóla Íslands, Guðrún Gísladóttir, prófessor í landfræði við líf- og umhverfisvísindadeild HÍ, og Hreinn Óskarsson, doktor í skógfræði, sem starfar bæði sem skógarvörður á Suðurlandi og framkvæmdastjóri Hekluskóga.
banner4